Tómstundastyrkur, æskulýðs- og íþróttamál

Á bæjarstjórnarfundi nr. 207 þann 4. september sl. lagði Gunnhildur Imsland fram tillögu bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins til fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015. Tillagan fólst í því að tómstundastyrkur yrði hækkaður úr 20 þúsundum á ári í 40 þúsund fyrir öll börn í sveitarfélaginu að 18 ára aldri. Einnig lögðum við til að sami hópur fengi frítt í sund.

Þessar tillögur voru teknar inní fjárhagsáætlunargerð og upphæðin til tómstundakortsins tvöfölduð. Fræðslu- og tómstundanefnd tók síðan undir tillögur starfshóps um Íþrótta- og tómstundamál þar sem lagt var til að styrkurinn yrði hækkaður í 40 þúsund og yrði fyrir börn 6-18 ára. Tillaga nefndarinnar var svo samþykkt með fundargerðinni í heild í bæjarráði enda búið að marka fé til hækkunarinnar í fjárhagsáætlun.

Varðandi tillöguna um að frítt yrði í sund fyrir börn í sveitarfélaginu að 18 ára aldri þá hefur gjaldskrá ekki verið breytt en stefnt að endurskoðun hennar fyrir vorið. Í dag er það þannig að börnin okkar fá frítt til 10 ára aldurs. Viðbótin yrði þá 10-18 ára börn. Vonandi nær sú breyting þó fram að ganga með hækkandi sól.

Í megin dráttum held ég að allir bæjarfulltrúar og nefndarmenn í fræðslu- og tómstundanefnd, áður skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd hafi verið sammála um að styðja við bakið á fjölskyldum með því að hækka tómstundastyrkinn. Áætlun þar um var í stefnuskrá okkar framsóknarmanna og getið í málefnasamningi meirihlutans að styðja við þennan hóp. Því var ekki von á andstöðu við þær tillögur sem lagðar voru fram í bæjarstjórn í september sl.

Í gær var birt frétt á vefsíðu sveitarfélagsins að undirritaður hafi verið nýr samningur við Ungmennafélagið Sindra. Sem er fagnaðarefni. Það hefur tekið tíma að útfæra samninginn þannig að allir geti gengið þokkalega sáttir frá borði. En vonandi mun hækkun tómstundakortsins verða til þess að styrkja starf félagsins auk annars íþrótta, - æskulýðs og tómstundastarfs sem fellur undir reglur um styrkinn s.s. Tónskólans.

Það er einnig mjög ánægjulegt að aldursviðmiðið sem lagt var til að yrði hækkað úr grunnskólaaldri í 18 ár skyldi vera samþykkt. Efla þarf hvatningu til ungs fólks á framhaldsskólaaldri til þátttöku í tómstundum og halda þeim sem lengst virkum í íþróttastarfi og er einn liður í því að draga úr kostnaði við þátttökuna.

Nóg er svo af verkefnum framundan á þessu sviði. Rýmisgreining í Vöruhúsi svo hægt verði að koma sem best fyrir þeirri starfsemi sem er í húsinu og helst bæta við, uppbygging íþróttamannvirkja og margt fleira.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband