Það er engin heilsa án geðheilsu!

Í gær 10. október var alþjóðageðheilbrigðisdagurinn sem hefur það að markmiði að vekja athygli á geðheilbrigðismálum og ekki veitir af. 

Fyrir tuttugu og tvemur árum útskrifaðist ég sem hjúkrunarfræðingur og var svo lánsöm að hefja minn hjúkrunarferil á geðdeild, nánar til tekið á deild 13 á Kleppi. Já, svo lánsöm því að ég tel það hafa verið forréttindi fyrir mig að vinna í því fallega umhverfi sem er við Kleppspítalann (þó það sé nú farið að þrengja ansi mikið að honum núna) og kynnast því fólki sem varð á vegi mínum þar.

Kynnast einstaklingum á þeirra myrkustu stundum í lífinu og fá að styðja það á þessum stað til betri heilsu eru forréttindi. Þessi leið tók marga langann tíma og ekki gekk alltaf vel en það er önnur saga sem einnig skilur eftir sig lærdóm og reynslu.

Á þessum árum höfum við lært svo margt um geðheilbrigðismál og margt hefur breyst. Sem betur fer er umræðan opnari, margir þekktir einstaklingar hafa lagt sitt lóð á vorgarskálarnar til að opna umræðuna og hafa með því náð að auka skilning almennings og dregið úr fordómum.

Ný samþykkt Lýðheilsustefna er stórt framfaraskref í átt til þekkingar og árangurs en nú ríður á að við látum verkin tala. 

Ég mun berjast fyrir því að aðgengi fólks og þá sérstaklega ungs fólks að geðheilbrigðisþjónustu verði aukið. Skortur er á geðlæknum á Íslandi í dag og við því verðum við að bregðast. Mikill aðstöðumunur er hjá íbúum landsins með aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og það þarf að laga.

Þjónusta sálfræðinga á að vera inní sjúkratryggingakerfinu. Við þurfum á öllu okkar færa fólki að halda til að bæta þessa þjónustu. Það er ekki í lagi að fólk hafi ekki efni á sálfræðiþjónustu fyrir börnin sín og að aðgengi landsbyggðarinnar að þeirri þjónustu sé eins takmarkað og það er í dag.

Vinnum saman að því að efla lýðheilsu landsmanna og bætum aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband