Hjúkrunarheimili

Málefni íbúa hjúkrunarheimila eru mér hugleikin. Ég gleðst þegar fréttir koma af byggingu nýrra hjúkrunarheimilia og fjölgunar hjúkrunarrýma.

Á sama tíma og ég gleðst yfir þeim fréttum þá verð ég döpur fyrir hönd þeirra sem nú þegar eru á hjúkrunarheimilum eins og því sem ég vinn á, þar sem aðbúnaður er alls ekki eins og best skyldi. Einstaklingur 70-90 ára sem þarf heilsu sinnar vegna að yfirgefa heimili sitt og flytjast á hjúkrunarheimili. Honum er boðið uppá að búa með öðrum í 19m2. Þeir þurfa svo að deila snyrtingu með öðrum íbúum heimilisins en að jafnaði eru 2-4 sem deila snyrtingu á heimilinu þar sem ég vinn. Það eru tvö einbýli til staðar (18m2) og sé maður svo heppinn að hneppa annað tveggja þá deilir viðkomandi salerni með þeim sem býr í hinu einbýlinu. Fjórar sturtur og eitt bað sem þjóna öllum 24 hjúkrunarrýmum og þrem sjúkrarýmum.

Ég hóf störf á þessu heimili 2002 þá var verið að rýna teikningar af næsta áfanga þar sem betri aðstaða yrði en enn bólar ekkert á byggingu! Sveitarstjórnarmenn og stjórnendur stofnunarinnar hafa verið duglegir við að minna á okkur og allt er til reiðu af hendi sveitarfélagsins til þess að hefjast handa en fjármögnun af hendi ríkisins fæst ekki tryggð!

Eitt er það að fá úthlutað sambýling annað að þurfa að fara að heiman, fram á gang eða inná bað ef hann veikist eða jafnvel er deyjandi og gefa þarf ástvinum tækifæri til að vera með sínum nánasta síðustu dagana. Svo þegar sambýlingurinn er látinn þá þarf að raða uppá nýtt, kannski heppinn að fá einhvern inn til þín eða þú ert settur í annað herbergi hjá einhverjum öðrum því það passar betur!

Kannski er enginn af þínu kyni sem þarf pláss hjá þér í bili. Það ætti að vera gott að fá að vera einn, en þá mátt þú eiga von á sjúkrainnlögnum!! Einhver lasinn eða í hvíldarinnlögn sem kemur og er í nokkra daga eða vikur. 

Þetta er gjörsamlega óásættanlegt! Þetta þurfum við að laga hið snarasta. Mér skilst að á Íslandi séu rúmlega 2000 hjúkrunarrými. Getum við ekki gert skurk í þessu og tryggt að öll hjúkrunarrými hvar sem er á landinu séu einbýli! Ákveðinn fjöldi þeirra verði þannig að það sé innangengt í næsta herbergi þannig að hjón geti "búið saman" ef þau eru bæði á hjúkrunarheimilinu.

Þetta á ekki að vera flókið, framkvæmum fyrir fólkið okkar sem hefur byggt upp landið okkar. Komum vel fram við þau og lögum þetta!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband