Jafnréttismál

Í gær 16. september fékk ég tækifæri til að ávarpa Landsfund um Jafnréttismál undir liðnum "Raddir kvenna í sveitarstjórn - Skiptir kyn máli". Þar töluðum við fjórar konur úr sveitarstjórnum víðsvegar um landið um málefnið frá okkar brjósti.

Það var mjög gaman að því hvað við nálguðumst málið á ólíkan hátt án þess að hafa borið okkur nokkuð saman um efnistök. Ég ákvað að tala úr frá minni reynslu og upplifun.

Í stuttu máli er niðurstaða mín sú að kyn skiptir máli í sveitarstjórn. Mikilvægt er að raddir beggja kynja heyrist en bakgrunnur og reynsluheimur einstaklingsins er líka mjög mikilvægur. Það sem er þó nauðsynlegast í stjórnmálum hvort sem er í sveitarstjórn eða á alþingi er áhuginn og ástríðan fyrir samfélaginu/ landinu þínu hvors kyns sem þú ert.

Fundurinn var mjög góður og ýtti við mér á margan hátt. Ég var að vona að við værum komin lengra en raun ber vitni í jafnréttismálum kynjanna. Rætt var um að jafnréttismálins snúast jú ekki bara um karla og konur heldur svo margt annað líka.

Einn af grunnþáttum menntunar í aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla er Jafnrétti. Við fengum góða brýningu á þeim málum frá Hönnu Björg Vilhjálmsdóttur brautryðjanda í kynjafræðikennslu sem var mjög hressandi.

Fundurinn var haldinn á Akureyri af Akureyrarbæ í samvinnu við Janfréttisstofu sem var með ráðstefnu á fimmtudaginn tengda því að fjörutíu ár eru liðin frá því fyrstu jafnréttislögin voru sett hér á landi. Akureyringar hafa verið að vinna markvisst að jafnréttismálum í nokkur ár og var gaman að fá innsýn í þá vinnu og hugmyndir til að taka með sér heim að vinna úr.

Margt fleira áhugavert var á þessum fundi. Þannig að ég fór heim frá Akureyri með góða brýningu á því að við höfum áorkað ýmsu en það er heilmikil vinna framundan sem ég mun glöð taka þátt í.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband