Færsluflokkur: Bloggar

Kynnisferð o.fl.

Fór ásamt Reyni Arnarsyni og Fanney Sveinsdóttur með gestina okkar, stjórn SASS í heimsóknir í Nýheima, Gömlubúð, Vöruhúsið og Svavarssafn í morgun.

Alltaf gaman að fara á þessa staði og sýna gestum hvað um er að vera. Reyndar var nú frekar dauft yfir Nýheimum þar sem nemendur vantaði sökum verkfalls. Vonandi að það fari nú að leysast og starfsemin þar falli í eðlilegan farveg.

Venjubundin störf eftir hádegi. Jana Mekkín dóttir mín kom og sat hjá mér í smá tíma í lok vinnudags, pínu starfskynning fyrir hana. Komið yndislegt veður þegar við löbbuðum heim. Gott að setjast í sólina á ná sér í smá D-vítamín og slaka á frá amstri dagsins :)


Mánudagurinn langi!

Langur dagur að kveldi kominn og nokkrir fundir að baki!

Almannavarnarnefnd kom saman í hádeginu í dag og bæjarráð um miðjan dag. 

Svo fundur með stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélagaga (SASS) seinnipartinn. Gaman að fá gesti úr samstarfi okkar á suðurlandi í heimsókn hingað. 

Á morgun fer stjórnin og heimsækir Nýheima, Vatnajökulsþjóðgarð í Gömlubúð, Vöruhúsið og svo Svavarssafn áður en þau halda aftur heim.


Humarsúputónleikar!

Frábærir tónleikar í hádeginu í dag hjá Lúðrasveit Hornafjarðar og Lúðrasveit Tónskóla Hornafjarðar. Frábært að sjá hljóðfæraleikara á svona breiðu aldursbili spila saman og yndislegt að hlusta. Þemað voru lög úr söngleikjum, létt og skemmtileg lög og ég er ekki frá því að mann hafi bara langað til að dansa við tónana úr Grease.

Súpan var ljúffeng svo að ég mæli eindregið með að fólk fjölmenni að ári!

Takk fyrir mig og mína :)


Framtíðarsýn - eða draumur!

Hvernig verður Sveitarfélagið Hornafjörður eftir 10 ár, 20 ár? Þeir draumar sem við eigum í dag fyrir hönd samfélagsins okkar munu þeir rætast? Ég á mér draum og þú átt þér draum, fara þeir saman?

Eitt er víst að til þess að draumar rætist þá verðum við að vinna með þá. Koma þeim á framfæri, ræða þá og skoða hvort þeir eru þokkalega raunhæfir. Hvort þeir eigi samleið með samfélaginu og hvort hægt sé að vinna með þá.

Dæmi um verkefni sem þetta eru gönguleiðir sem verið er að vinna að í gegnum sýsluna og gengur undir nafninu Jöklavegur. Frábær og náttúruvæn afþreyging og líkamsrækt fyrir okkur íbúa sýslunnar og gesti okkar. Fyrir nokkrum árum var flutningur Gömlubúðar á hafnarsvæðið kannski draumur. Nú er Gamlabúð komin þangað og sómir sér vel að mínu mati á svæðinu og gegnir mjög mikilvægu hlutverki í samfélaginu okkar.

Einn draumurinn er að gera menntastefnu fyrir sveitarfélagið sem virkar sem regnhlíf yfir menntun alla ævi sem byggist á gildum íbúanna og væntingum þeirra til náms. Sá draumur getur orðið að veruleika með góðri þátttöku íbúa í ráðstefnu um menntun sem haldið verðu laugardaginn 29. mars í Nýheimum. 

Mótum saman framtíðarsýn byggða á samræðum og hugmyndum sem geta verið draumar okkar um bjarta framtíð menntunar á Hornafirði :)

Góða helgi! 

 


Lífhagkerfi!

Fékk góða heimsókn í morgun þar sem ræða átti "lifhagkerfi" Hornafjarðar (e. Bioeconomy) hún Liisa Perjo frá Finnlandi kom í fylgd Birgis frá Matís til að ræða þessi mál. Ég átti nú ekki von á miklu af viti frá mér um þessi mál þar sem þetta er nú ekki umræðuefni sem maður er oft að fjalla um, hélt ég!

Annað kom nú á daginn þegar Liisa fór að spyrja mig útúr. Þarna er verið að fjalla um að hámarka ávinning auðlinda án þess að ganga á þær. Umræður okkar snerust að miklu leyti um Matarsmiðjuna á Höfn og hve mikilvæg hún er samfélaginu til þess að nýta auðlindir okkar á sem fjölbreyttastan hátt og skapa ný verkefni. En umræðan fór einnig mun víðar að Nýheimum, Vöruhúsinu og mannlífinu á Höfn.

Fleiri góðir gestir sem komu við í ráðhúsinu í dag voru sölumenn frá N1 sem voru að kynna bæjarstjóra, innkaupastjóra og fjármálastjóra vöruúrval N1, gæði og góð kjör. Innkaup sveitarfélagsins á þessum vörum eru bundin í samning í dag en að sjálfsögðu þarf að fylgjast vel með þeim tækifærum sem eru í lækkun kostnaðar í innkaupum.

Yndislegt að skella sér í sundlaugina að loknum vinnudegi og láta líða úr sér, hitta fólk og spjalla. Bjart og fallegt veður, sólin skein og mikið fjör.

 

 


Unga kynslóðin

Fór í morgun með Birni Imsland umsjónarmanni fasteigna á leikskólann Lönguhóla að hitta leikskólastjórann sem væri ekki frásögu færandi nema að ég hafði frétt að ákveðinn nemandi í skólanum hefði mikinn áhuga á að hitta bæjarstjórann.

Að sjálfsögðu gaf ég mig fram á Blómadeild þar sem daman unga var að leik með félögum sínum. Þau voru mjög ánægð að hitta bæjarstjórann og notuðu tækifærið vel. Það er eitt og annað sem þau báðu mig að koma í farveg, t.d. finnst þeim ómögulegt að það vanti gangstétt við Bugðuleiru þar sem einn kennarinn þeirra býr svo þarf að uppfæra merkingar á skilti í bænum og eitt og annað fleira!!

Þau sýndu mér verkefni sem þau hafa verið að vinna og voru hreint út sagt alveg frábær. Takk kærlega fyrir móttökurnar krakkar á Lönguhólum :)

Unga kynslóðin sló svo aftur í gegn á Árshátíð Grunnskóla Hornafjarðar þar sem stór hluti nemenda flutti stytta leikgerð af Óvitum Guðrúnar Helgadóttur í leikstjórn Kristínar Gestsdóttur kennara. Þau voru alveg frábær og mjög gaman. Allir nemendur lögðu sitt af mörkum til árshátíðarinnar. Flottur salur, góðar veitingar og skemmtun. Takk fyrir mig nemendur og starfsfólk Grunnskóla Hornafjarðar!


mánudagur og þriðjudagur - allra veðra von!

Ótrúlegt að það sé kominn átjándi mars!! Tíminn flýgur svo hratt að það er alveg með ólíkindum, dagar og vikur fljúga hjá. Síðan er þetta alveg ótrúlegt þegar manni finnst árstíðinar líka skiptast á milli daga. Á föstudag var hér vorveður, snjór á laugardag, autt á sunnudag og mánudag en stórhríð í dag!

Sem betur fer hefur verið meira jafnvægi í lífinu og tilverunni heldur en í veðrinu. Gærdagurinn einkenndist af því að vera bæjarráðsdagur. Alltaf eitt og annað sem þarf að ganga frá fyrir bæjarráð. Þar var verið að ræða húsnæðismál. Bæði viðhald húsa sveitarfélagsins og svo kynnti ég þann farveg sem kaup sveitarfélagsins á Vöruhúsinu, Hafnarbraut 30 eru í.

Hófum daginn í dag á fundi með skipulagsráðgjafa, Sigbirni Kjartanssyni hjá GlámuKím vegna endurskoðunar á aðalskipulagi. Þar er verið að ljúka yfirferð mála, því stefnt er að því að aðalskipulagið fari fyrir  bæjarstjórn í apríl.

Einnig hitti ég Ingólf Einarsson í dag og við skrifuðum undir samning um stuðning sveitarfélagsins við Skotfélagið en fleiri frétta er að vænta af þeim vettvangi fljótlega.

Í kvöld ætla ég að skella mér aftur út í hríðarveðrið (sem minnir nú pínu á heimahagana) og fá mér að borða með samstarfsfólki á HSSA. Ætlunin er að kveðja þrjár mætar samstarfskonur sem halda nú á vit nýrra ævintýra bæði hér heima og erlendis!!


Húsnæðis og Menningarmál

Húsnæðismálin voru í brennidepli í morgun. Endurbætur á Sindrabæ eru í undirbúningi. Átti góðan fund með Birni Imsland umsjónamanni fasteigna og Jóhanni Morávek skólastjóra Tónskólans þar sem við fórum yfir teikningar og plön að næsta verkefni.

Átti einnig fund með Skúla Skúlasyni frá Urtusteini ehf en Urtusteinn á Hafnarbraut 30, Vöruhúsið. Ræddum framtíð þess og fékk mer fréttir úr Öræfunum hjá henni Möttu í Hofsnesi. Alltaf gaman að spjalla við Möttu og nóg að gera í Öræfunum þessa dagana.

Í lok vinnudags eða kl. 15 hófst athöfn í Nýheimum þar sem styrkjum sveitarfélagisns var úthlutað. Það er frá bæjarráði, skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd og atvinnu- og menningarmálanefnd. Einnig voru Menningarverðlaun Hornafjarðar 2014 afhent. Það var Ragnar Imsland sem hlaut þau að þessu sinni. Ragnar er vel kominn að þessum verðlaunum, hagleikssmiður og mikill listamaður.

Blús- og rokkhátíð Hornafjarðar er í fullum gangi, hófst í gær en heldur áfram í kvöld og á morgun. Viðburðirnir eru í Pakkhúsinu og hefjast tónleikar kvöldsins kl.20:30. Silkikvartettinn, Síðasti Sjens, Hljómsveitin Dútl og Kristjana Stefánsdóttir eru listamenn kvöldsins!!

Tilvalið fyrir þá sem eru orðnir þreyttir á vetrarhörkum að skella sér til Hornafjarðar - auð jörð og vor í lofti :)

Góða helgi!


Skiptir kynið máli - umhverfismál og fleira!

Í gærkvöldið var samþykktur list Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Vel var mætt á aðalfund Framsóknarfélagsins þar sem listinn var kynntur og svo samþykktur. Í framhaldinu var niðurstöðunni komið á framfæri á veraldarvefnum til almennrar kynningar.

Viðbrögð fólks í dag hafa verið jákvæð og skemmtileg og vil ég þakka kærlega fyrir það. Vonandi fá karlarnir líka hamingjuóskir frá þeim sem verða á vegi þeirra þessa dagana. Vona að kynið skipti ekki máli í þessum efnum þó átakið konur í forystusætum sé í fullum gangi!

Annars hefur dagurinn verið annasamur en skemmtilegur. Átti góðan fund með Árdísi hjá Ríki Vatnajökuls þar sem við fórum yfir umhverfismál í víðum skilningi í Sveitarfélaginu og þjónustu við ferðamenn. Jón og Lovísa hjá Rósaberg ehf komu á fund okkar Hauks Inga og lögð voru drög að framlengingu samnings um sorpurðun til áramóta. Ræddum um þær breytingar sem eru að verða á sorpmálum á Höfn, hvort dregist hafi saman í urðun með aukinni flokkun eða hvort neysla sé almennt að aukast í samfélaginu og ef svo er hvað geti skýrt það!

Í hádeginu voru það aftur umhverfismál með Bryndísi og Hugrúnu Hörpu. Upplýsingagjöf til ferðamanna og umhverfisflipi á heimasíðu sveitarfélagsins sem er í undirbúningi.

Þá yfirferð yfir stöðu virkra mála og undirbúningur bæjarráðs með formanni bæjarráðs/forseta bæjarstjórnar. Yndisleg dóttir mín kom svo og hljóp út í bakarí fyrir mig og sótti síðbúinn hádegisverð sem var ljómandi góður!

Fagnaði svo flutningum Lyfju í Miðbæ með starfsfólki þar, gestum og gangandi. Flott búð hjá þeim og ágætis aðstaða. Til hamingju með nýju búðina starfsmenn Lyfju á Höfn

 


Að vera jákvæður í núinu!

Fékk góða ábendingu í hádeginu í dag. Skellti mér í heimsókn á hjúkrunardeildina og borðaði með samstarfsfólki mínu þar. Man nú ekki hvað var verið að ræða um en Þorbjörg félagslið skellti því fram hvort framtíðin væri til? Það væri ekkert nema núið!! Veit ekki hvort þetta er speki úr framtíðafræðunum en mun gefa mér tíma til að kanna það (þegar tími gefst til)!

En þetta vakti mig til umhugsunar. Auðvitað veit maður að "Núið" er málið fortíðin er liðin framtíðin er ekki komin og við erum hér. Það sem við gerum í núinu er það sem skiptir máli. Alltof oft erum við að nota núið til að reyna að laga það sem liðið er, stundum gengur það vel og núið verður betra og þá vonandi það sem á eftir kemur en stundum er maður alls ekki viss.

Allavega veit ég að orkunnu sem við verjum til góðra verka í núinu er vel varið og skilar sér til framtíðar (sé hún til). Svo er það hvað er gott og hvað ekki - tilefni til heimspekilegra vangaveltna.

Einn þáttur í núinu er líka hvaða sæti við veljum í vagninum. Við getum tekið meðvitaða ákvörðun um að horfa til sólar og líta á björtu hliðar tilverunnar einnig getum við dottið í að vera föst í neikvæðni sem erfitt er að rífa sig úr. Öll lendum við þó í að sveiflast eitthvað þarna á milli. En ef við tökum meðvitaða ákvörðun um að halda okkur á jákvæðum nótum og vera meðvituð um það þá ættum við að geta hnippt í öxlina á okkur þegar núið fer að verða dimmt og kalt. Farið í aðgerðir til að kippa okkur uppúr pollinum og líta til sólar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband