Færsluflokkur: Bloggar
11.3.2014 | 18:25
Horft til framtíðar
Þétt dagskrá í dag þar sem náttúran, ferðþjónusta, menntun og atvinnulíf voru megin viðfangsefnin.
Þetta er allt tengist allt sterkum böndum hér á Höfn skemmtileg blanda þar sem samtöl mín um þessa þætti voru við ólíka einstaklinga með ólíka nálgun.
Samt er það þannig í okkar samfélagi að ferðaþjónustan sem atvinnuvegur byggist að miklum hluta upp á náttúrunni okkar. Ekki er fólk að ferðast til Austur -Skaftafellsýslu til að skoða byggingalist eða sleikja sólina!! Náttúran og öll sú afþreyging sem við getum notið í tengslum við hana gefur fólki kraft og orku.
Þá er mikilvægt að við hugum að framtíðinni og menntun. En í gær var fundur með framtíðarfræðingi í tengslum við gerð menntastefnu fyrir sveitarfélagið. Spennandi að huga að framtíðinni. Missti því miður af þessu verkefni vegna bæjarráðsfundar.
En velkomin til Hornafjarðar í stórkostlega náttúru og að heimsækja frábært fólk sem horfir til framtíðar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2014 | 21:08
Rafræn stjórnsýsla!
Mikið hefur verið lagt uppúr rafrænni stjórnsýslu á síðustu árum. Spara pappír, póstburðargjöld og allt á einum stað þ.e. í tölvunni. Þessi þróun er alveg hreint ágæt alveg þangað til bilun verður í kerfinu. það dettur einhverra hluta vegna út!!!
Dagurinn í dag einkenndist af sambandsleysi þar sem erfitt var að ná í gögn og tölvupósturinn fór í frí kl 11:56. Ástandi gaf sumum tækifæri til að taka til í skúffum og á skrifborð, síminn virkaði fínt og unnið var í skjölum sem ekki þurfti að skækja djúpt í einhvern "serverinn".
Það merkilega var að haldinn var bæjarráðsfundur þrátt fyrir allt. En við fengum áminningu um hve hverfult hið rafræna líf getur verið. Það liggur stundum við uppgjöf hjá manni ef allt gengur ekki einn, tveir og þrír á netinu. Ræddum fjarskiptamál í dreifbýli og þéttbýli á fundinum og mikilvægi þeirra fyrir okkur öll.
En persónulega finnst mér mjög gott að nota hinn rafræna heim til að hjálpa mér að muna eftir hlutunum. Nota Outlook mikið til að skipuleggja mig og tímann. Einnig til að skrá það sem á dagana drífur, þá sem kíkja við með hin ýmsu erindi sem dæmi. Fékk fyrirspurn í dag um heimsókn sem ég get ómögulega munað eftir. Búin að fletta uppí Outlook og finn hana ekki, næst verður það minnisbókin ef ég finn ekki vísbendingu þar þá er væntanlega dáleiðsla næst á dagskrá!! Er þetta eðlilegt?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2014 | 18:56
Föstudagur til frægðar!
Í dag og í gær voru stjórnendur í sveitarfélaginu á námskeiði hjá Sirrý fjölmiðlakonu að fræðast og æfast í framkomu. Ég gat ekki setið allt námskeiðið vegna annarra verkefna en það var mjög gaman að taka smá þátt í þessu.
Góðar og örgrandi æfingar sem Sirrý lagði fyrir þátttakendur. Styrkjandi og góðar leiðir kynntar til að takast á við aðstæður sem valda streitu og kvíða.
En yndislegur dagur - fallegur vetrardagur á Höfn í dag snjór, sól, kalt og stillt. Vonandi fáum við nokkra svona daga í röð!!
Góða helgi!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2014 | 20:08
200. fundur Bæjarstjórnar Hornafjarðar
Í dag var tvöhundraðasti fundur bæjarstjórnar. Fyrsti fundur er skráður í júní 1994 eftir sameiningu Hafnar, Nesja- og Mýrahrepps. Við sameininguna bjuggu (1/12'93) 2.179 íbúar í nýstofnuðum Hornafjarðarbæ.
Tvöhundraðasti fundurinn gekk vel að vanda. Fundargerðir bæjarráðs, gjaldskrá embættir byggingar- og skipulagsfulltrúa, reglur um leikskóla Hornafjarðar, fjárhagsáætlun HSSA, skipulagsmál og landskipti voru til umræðu. Kann að vera að ég gleymi einhverju en áhugasömum er bent á fundargerðina á vef stjórnsýslu sveitarfélagsins og svo er væntanlega verið að klippa upptökuna sem verður sett á netið á morgun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2014 | 20:17
Öræfaferð á Öskudegi
Mikið fjör í dag Öskudag þar sem búningar og líf og fjör áttu leikinn. Starfsfólkið í ráðhúsinu lét sitt ekki eftir liggja og voru margir í búningum í dag. Mikið fjör var í afgreiðslunni eftir að skóla lauk og krakkarnir komu í hópum að syngja og fá góðgæti fyrir sönginn.
Ég hóf vinnudaginn á HSSA á framkvæmdaráðsfundi með stjórnendum þar. Þar sem við fórum aðeins yfir mönnunarmál.
Kom svo við í ráðhúsinu áður en ég fór á fund í Nýheimum með Eyjólfi skólameistara FAS, Ragnhildi fræðslustjóra og Vilhjálmi umsjónarmanni Vöruhúss. Þar kynnti Eyjólfur samstarfs verkefni sem FAS og framhaldsskólinn Tabasalu í Eistlandi eru að sækja um og tengist heimsókn fulltrúa Eistneska skólans í febrúar sl. Ákveðið var á fundinum að Villi verði tengiliður sveitarfélagsins við verkefnið.
Klukkan þrjú var nokkrum fulltrúum úr almannavarnanefnd auk Reynis frá Vegagerðinni og Maríönnu frá Hornafjarðardeild RKÍ smalað í langferðabíl og stefnan tekin á Hofgarð í Öræfum þar sem við áttum mjög góðan fund með stjórn Björgunarsveitarinnar Kára í Öræfum og svo íbúum í Öræfum. Umræðuefnið var þær aðstæður sem hafa skapast og munu án efa gera aftur á svæðinu þegar ófært er um svæðið vegna óveðurs. Hlutverk fjöldahjálparstöðvarinnar, lokanir á þjóðveginum og ýmislegt annað sem tengist málefninu. Mjög gott var að fara yfir þá reynslu sem komin er af þessum aðstæðum í vetur og nýta hana til að skipuleggja hvernig best er að bregðast við eins og hægt er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2014 | 16:46
Dagurinn í dag....
Sat fund með Velferðarteyminu í morgunsárið þar sem farið var yfir þjónustukannanir sem eru í gangi og hvernig efla má þjónustu við unga sem aldna í sveitarfélaginu.
Síðan tók við fundur með Tækniteyminu þar sem áherslan var á undirbúning framkvæmda og umræður um stöðu þeirra framkvæmda sem eru í gangi. Hér sem annarstaðar eru mikill metnaður að gera vel og má segja að eftirspurn sé eftir hverjum aur sem útdeilt er.
Þar sem rætt hefur verið um götur undanfarið þá hefur Óslandsvegurinn komið upp í umræðunni. Sá vegur má muna fífil sinn fegurri enda hefur veðurfar í vetur ekki verið til bóta. Í þeim umræðum hafa komið upp vangaveltur um legu vegsins. Samkvæmt aðalskipulagi þá á hann að liggja mun lengra til vesturs og sitt sýnist hverjum um hvort það sé heppileg staðsetning.
Ljóst er að laga þarf veginn en eftir sitja vangaveltur, á hann að vera hér eða þar og jafnvel einhverstaðar annarstaðar!! Gaman að velta þessu fyrir sér og gaman væri að heyra frá lesendum þessara pistla hvað þeim finnst??
Góðar stundir!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2014 | 22:30
Fundadagur!
Fundur í morgun til að undirbúa mál fyrir bæjarráð.
Kynningarfundur um deiliskipulag við Holt á Mýrum eftir hádegi. Farið yfir deiliskipulagið, fyrirhugaða áfangaskiptingu á veginum yfir Hornafjarðarfljót og fjarskiptamál á Mýrum.
Fundur fyrir bæjarráð og svo bæjarráðsfundurinn sjálfur. Stór mál á dagskrá svo sem ársreikningur 2013. Farið yfir fyrstu drög sem fara fljótlega til endurskoðenda. Framkvæmdir 2014, einhverjar breytingar verða frá því sem áætlað var í fjárhagsáætlun vegna ófyrirséðra þátta. T.d. verða breytingar frá áætluðum fráveituframkvæmdum á Höfn vegna gagnaöflunar.
Sorpmálin, ákveðið að kaupa sorppressu frá UK sem mun nýtast til að pressa endurvinnanlegt sorp sem sent er á Reyðarfjörð og minnka þannig umfang þess. Einnig er von til þess að geta pressað heimilissorp og minnka til muna umfang þess sem fer í sorpgryfjuna í Lóninu. Frekari útfærsla á þeim málum er í vinnslu.
Að lokum meirihlutafundur í kvöld sem er undirbúningur fyrir bæjarstjórnarfund á fimmtudaginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2014 | 14:50
Skipulagsmál!
Morguninn var drjúgur í ýmsum málum er snerta skipulagsmál. Skrapp á Vegagerðina og hitti Reyni stjórann þar og skoðuðum við saman teikningar af vegstæðinu yfir Hornafjarðarfljót og áfangaskiptingu þeirrar framkvæmdar.
Nú ætla ég svo að skella mér til Reykjavíkur landleiðina og skoða vegtengingar og láta mig dreyma um styttinguna sem verður fyrr en varir á miða við hve tíminn líður hratt!!!
Minni á fund í Holti á Mýrum á mánudag um deiliskipulagið þar. Verðum á ferðinni kl. 13:30.
Sjáumst og góða helgi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2014 | 19:08
Hjólaferðamennska, Vöruhúsið og aðrar tómstundir!
Stofnfundur klasa um hjólaferðamennsku var haldinn í dag á Selfossi. Vorum nokkur sem fylgdumst með honum á fjarfundi í Nýheimum. Þurfti nú samt aðeins að skjótast frá og náði ekki öllum fundinum - en allavega upphafi og endi.
Hjólaferðamennska er spennandi viðbót í það sem við höfum uppá að bjóða hér í Ríki Vatnajökuls og verður spennandi að fylgjast með áframhaldi verkefnisins sem er stýrt af SASS en starfsmaðurinn sem hefur verið ráðinn til árs við að koma verkefninu almennilega af stað er enginn annar en hún Sigrún Kapitola okkar og mun hún hafa aðsetur í Nýheimum á meðan á verkefninu stendur.
Spennandi verður líka að fylgjast með þeirri þróun sem er að eiga sér stað í Vöruhúsinu. Þar er suðupottur sem að gott aðgengi er að . Tók eftir auglýsingu í Eystrahorni í dag þar sem Villi hvetur þá sem þurfa á aðstöðu að halda tengdum áhugamálum í list- og verkgreinum að hafa samband.
Annars er Eystrahorn fullt af flottum tækifærum í dag - allskyns fundir, tónleikar, spilavist, leikrit og messur!! og svo auðvitað Knattspyrnuskóli Sindra sem verður örugglega alveg magnaður!
Fjölbreytt afþreyging af ýmsum toga - góða skemmtun!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2014 | 20:48
Samvinna - heiðarleiki - metnaður
Í dag eru þrú ár frá flottum íbúafundi sem haldinn var í Mánagarði. Í pistli sem birtist í síðasta Eystrahorni og á vef sveitarfélagsins í dag fer ég yfir þá þætti sem voru dregnir fram á íbúaþinginu og hvernig þeim hefur reitt af. Ég ætla ekki að endurtaka það hér heldur vísa á hornafjordur.is á stikunni hér til vinstri.
En ég má til með að draga fram þau gildi sem að íbúaþingið valdi fyrir sveitarfélagið:
SAMVINNA - HEIÐARLEIKI - METNAÐUR
Þetta eru góð gildi og það er okkar að halda þeim í heiðri. Samvinna er eitt af því sem er nauðsynlegt í góðu samfélagi eins og okkar. Það áorkar enginn neinu einn þó svo að tilgangur og hugmyndir séu góðar. Ef við stígum til hliðar og segjum já flott og bíðum eftir að góðir hlutir gerist þá eigum við ekki von á miklu. Ef við hins vegar leggjumst öll á árarnar þá fara hlutirnir að gerast. Í bæjarstjórn Hornafjarðar hefur verið góð samvinna þar sem bæjarfulltrúar hafa unnið að því að efla gott samfélag með vinnu sinni.
Heiðarleiki - er nauðsynlegur okkur öllum því eins og við vitum þá kemur það okkur í koll síðar meir ef við komum ekki hreint fram hvort við annað. Ekki er síður mikilvægt að við séum heiðarleg við okkur sjálf. Við getum talið okkur trú um ýmislegt og réttlætt hlutina fyrir okkur sjálfum en þá erum við að vinna okkur sjálfum skaða sem er aldrei til góðs. En heiðarleikinn er að mínu mati flóknari en samvinnan að því leiti að gildismat okkar kann að vera ólíkt og því erum við ekki alltaf sammála í mati okkar.
Metnaður - Það að vilja samfélaginu allt hið besta sýnir metnað. Það að sveitarfélagið okkar vaxi og dafni er eitthvað sem við ættum að hafa að leiðarljósi. Okkur getur greint á um hvaða leið skal fara, forgangsröðun verkefna en þegar upp er staðið viljum við væntanlega öll gera okkar besta. Mér dettur í hug að þegar á móti blæs er auðvelt að detta í neikvæðni og volæði en með því þá dofnar metnaðurinn því hann þrífst á jákvæðni og hugmyndaauðgi. Munum að horfa fram á veginn og horfa eftir tækifærunum sem eru framundan á hverjum tíma.
Á fallegum degi eins og í dag fyllist maður krafti og jákvæðri orku svo að gildin þrjú sem íbúaþingið valdi fyrir okkur sem sveitarfélag liggja alveg í augum uppi. Svo er bara að horfa til himins og hver veit nema fegurðin haldi áfram fram eftir nóttu í norðurljósunum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)