Færsluflokkur: Bloggar
9.4.2014 | 19:16
Höfn - Selfoss - Reykjavík - Höfn
Viðburðaríkur dagur að kveldi kominn. Dagurinn var tekinn snemma þar sem við Reynir og Björn Ingi brunuðum á Selfoss á fund um Samgöngu- og fjarskiptaáætlun. Ágætis fundur þar sem vinna Samgöngunefndar, innanríkisráðuneytisins og hinna ýmsu stofnanna sem að málinu koma var kynnt. Við settum fram okkar áherslur í samgöngu- og fjarskiptamálum. Fengum meira að segja að láta okkur dreyma um framtíðina í málaflokknum með Ísland allt undir!
Eftir hádegi varð ég eftir á Selfossi og sat síðasta fund Vaxtarsamnings Suðurlands. Þar var verkefnið gert upp. Ekki verða fleiri úthlutanir úr þessum samningi - verkefninu er lokið en SASS kemur til með að fylgja eftir þeim verkefnum sem eru í gangi nú þegar á vegum samningsins. Vonandi mun þó koma til þess að ríkið haldi áfram stuðningi við atvinnuþróun út um landið þó það verði með einhverju öðru sniði.
Náði góðu spjalli stjórnarmeðlimina, Rögnvald Ólafsson sem einnig er stjórnarformaður Náttúrustofu Suðausturlands og Berglindi Hallgrímsdóttur framkvæmdastjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um málefni stofnana þeirra hér á Höfn.
Á flugvellinum hitti ég svo auk góðra hornfirðinga Hörð Guðmundsson eiganda Flugfélagsins Ernis og Gumma son hans sem vill svo skemmtilega til að er skólabróðir minn. Þar var hægt að halda áfram umræðum um samgöngumál - flug til Hornafjarðar og annarra áfangastaða Flugfélagsins Ernis :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2014 | 16:48
Skipulagsmál í dreifbýli o.fl.
Var á faraldsfæti í dag með þeim Ásgrími Ingólfssyni formanni umhverfis- og skipulagsnefndar og Gunnlaugi Rúnari Sigurðssyni skipulags- og byggingarfulltrúa.
Byrjuðum á Hrolllaugsstöðum þar sem við hittum nokkra atvinnurekendur í Suðursveit sem hafa hvatt sveitarfélagið til þess að vinna deiliskipulag fyrir íbúðarbyggð á staðnum. Gott og gaman að hitta þau og fara yfir þessi mál. Vinna að undirbúningi málsins í farvegi.
Þá var haldið í Hofgarð í Öræfum þar sem landeigendur hittu okkur og rætt var um skipulagsmál þess svæðis sem einnig er í ákveðnum farvegi.
Frábært að finna að hugur er í fólki í dreifbýlinu!
Fórum í smá fjöruferð við Jökulsárlón á heimleiðinni - þó nokkuð af ferðafólki á staðnum að vanda.
Næst voru það Nesin, Mánagarður. Sat fyrri hluta aðalfundar Ríkis Vatnajökuls nú milli kl.15-16:30. Þar er verið að vinna mikla og góða vinnu í ferðaþjónustumálum og kynningu á sveitarfélaginu sem er til fyrirmyndar.
Sleppi Lóninu í dag, var þar um helgina en ætla aftur inní Nes í Mánagarð í kvöld á leiksýningu :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.4.2014 | 18:38
Malbik og ýmislegt fleira
Í mörg horn að líta í dag. Fasteignir, skipulagsmál, starfsmannamál, umhverfismál og atvinnumál.
Umhverfismálin snerust að hluta til um það hvort og þá hve mikið verður malbikað!! Hvet alla sem eru að hugsa um að láta malbika hjá sér ef malbikunarflokkur verður á ferðinni í vor að hafa samband við okkur. Sendum út verðkönnun varðandi þau mál í dag svo að þetta skýrist allt fljótlega.
Mörg mál komu inn í dag sem fara munu fyrir bæjarráð á fimmtudag síðan fer bæjarráð í páskafrí til 28. apríl.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2014 | 20:35
Stafrænar sjónvarpsútsendingar!
Fyrir helgi voru starfsmenn frá Vodafone að koma upp búnaði hér í sýslunni fyrir stafrænar sjónvarpsútsendingar eins og sjá mátti í Landanum á RÚV núna í kvöld.
Við fjölskyldan eyddum helgini í bústaðnum okkar í Stafafellsfjöllum og náðum það flottum gæðum í útsendingu, fleiri stöðvum auk útvarpssendinga í gegnum sjónvarpið.
Mér skilst á tæknimanni fjölskyldunnar að samskonar búnaður hafi verið settur upp í Hestgerði fyrir helgi þannig að Suðursveitin á að vera komin inn og stefnana var svo sett í Skaftafell.
Þeir sem eru með loftnetsgreiðu og stafrænan móttakara sem er innbyggður í flesta flatskjái í dag þurfa aðeins að láta tækið leita að stöðvum uppá nýtt og þá eiga þeir að smella inná bætt gæði.
Einnig setti Vodafone upp GSM sendi í Hofgarð á föstudag sem bætir símasamband Vodafone korthafa í Öræfum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2014 | 16:54
Föstudagur 4. apríl
Starfshópur um leyfisveitingar í þjóðlendum hittist í dag og fór yfir fyrirliggjandi drög að reglum um úthlutun starfsleyfa í þjóðlendum. Hópurinn hefur unnið vel að þessu máli undir formennsku lögfræðings sveitarfélagsins og nú sér fyrir lokin á vinnunni. Afraksturinn mun væntanlega fara fyrir bæjarráð í næstu viku og hópurinn fær miklar þakkir fyrir vinnu sína í þessu máli.
Næsta vika ætlar að verða nokkuð þétt af viðburðum. Aðalfundir bæði Ríkis Vatnajökuls og Búnaðarfélags Austur-Skaftafellssýslu verða þá. Fundur um samgönguáætlun og fjarskiptaáætlun, Stjórn Vaxtarsamnings Suðurlands, fulltrúar frá Landvernd verða hér og stefnumótunarfundur um Sjávarþorpið Höfn á vegum SASS.
Fluttum bæjarráð til munum verða með fundinn á fimmtudag í stað mánudags og taka þá páskafrí bæjarráðs í kjölfarið.
Góða helgi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2014 | 19:48
Aðalskipulag og ársreikningur 2013
Stórum áfanga var náð á bæjarstjórnarfundi í dag þegar endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins var samþykkt. Vinna við endurskoðun aðalskipulagsins hefur staðið frá 2007. Fjöldi manns hefur komið að vinnunni með einum eða öðrum hætti á þessum tíma. Nú fara gögnin til samþykktar hjá Skipulagsstofnun og ráðherra og öðlast gildi að því ferli loknu.
Einnig var afgreidd fyrri umræða í bæjarstjórn um ársreikning 2013. Þar kemur fram að staða sveitarféagins er sterk og gott svigrúm til áframhaldandi góðs rekstrar, fjárfestinga og framkvæmda. Niðurstaða A og B hluta er jákvæð um 228,7 milljónir og skuldahlutfall A og B hluta er 62% í árslok 2013. Nánari upplýsingar má fá með því að fylgjast með bæjarstjórnarfundinum á Skjávarpinu núna kl.20 eða í fundargerðinni sem komin er á netið www.hornafjordur.is/stjornsysla fundargerðir.
Margt fleira rætt og samþykkt í bæjarstjórn í dag sem nálgast má á sama hátt :)
Spennandi tímar framundan!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2014 | 17:14
Ýmiskonar umhverfismál
Umhverfismál og samskipti eru lykilorð dagsins.
Tók fyrri vaktina á sóttarsæng sonar míns í morgun. Hann greyið svo óheppinn að næla sér í pest sem er víst á sveimi allt um kring. En hvað um það þökk sé nútíma tækni þá var móðir hans í samskiptum við samstarfsfólk í gegnum tölvu og síma. Sem er nú kannski ekki svo gott því drengurinn naut þar af leiðandi ekki fullrar athygli móður sinnar á meðan!!
Ætlaði að vera á Djúpavogi í morgun að ræða sorpmál en fékk í staðin fréttir þeim þar sem Haukur Ingi brunaði bara einn og kynnti sér málin hjá djúpavogsmönnum og kom gögnum til þeirra frá okkur. En fyrir þá sem ekki vita þá er heimilissorp frá Djúpavogi urðað á urðunarstaðnum okkar í Lóninu. og hefur verið ágæt samvinna þar um.
Var í fjarvinnu að hluta við að skipuleggja hreinsunardaga í sveitarfélaginu. Samkvæmt sorpdagatalinu okkar eru þeir í næstu viku. Það er gott að fara að huga að þeim málum þar sem vorið nálgast á blússandi fart. Annars held ég að við komum til með að hvetja fólk til að huga að sínu nánasta umhverfi og tína upp rusl og drasl sem verður á vegi þess og höldum svo aftur hreinsunardaga í byrjum maí þegar fleiri eru komnir í vorverkin í görðunum sínum. En gott að vera komin af stað í þessari skipulagningu.
Samskipti hafa líka verið mér hugleikin í dag og samskipti eru sko líka umhverfismál. Umhverfi þar sem samskipti eru góð og vel er tekið á móti fólki er nærandi og gott. En mikið ósköp getur maður orðið pirraður og leiður þegar manni finnst illa komið fram! En ef öll samskipti væru ljúf, einlæg og hreinskiptin, myndi maður kunna að meta það? Er þetta alltaf spurning um andstæður? Æ, nei held ekki!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.4.2014 | 16:33
Mánaðarmót
Það er nú meira hvað tíminn líður, mér finnst bara nokkrir dagar frá síðustu mánaðarmótum! Aftur komið að bæjarstjórnarfundi sem verður haldinn n.k. fimmtudag.
Í bæjarráði í gær tókum við fyrir ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2013 og fer hann í fyrri umræðu í bæjarstjórn á fimmtudag. Það er skemmst frá því að segja að staða sveitarfélagsins er sterk. Tekjur urðu hærri en gert var ráð fyrir í áætlun og fresta þurfti nokkrum af framkvæmdum sem fyrirhugaðar voru. Rekstur varð líka aðeins hærri en áætlað var, aukin útgjöld t.d. í skipulagsmálum sem voru fyrirferðarmikil á árinu. Einnig urðu framkvæmdir í umhverfismálum meiri en lagt var upp með og tókum stolt á móti góðum gestum á Unglingalandsmóti með USÚ svo dæmi séu tekin.
1. apríl var viðburðarríkur í vinnunni. Fékk að fara í starfskynningu í afgreiðslu ráðhússins hjá henni Lindu. Þurfti nú talsverða tilsögn í byrjun en held að þetta hafin nú allt verið að koma þegar ég fór til annarra starfa!! Hljóp apríl eins og margir landsmenn - fékk undarlegt símtal og lét Hauk Inga plata mig smá!! En það var nú bara skemmtilegt :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2014 | 16:59
Ársreikningur 2013 o.fl
Unnið að undirbúningi þess að ársreikningur sveitarfélagsins verður kynntur í bæjarráði á mánudag og svo bæjarstjórn á næsta fimmtudag. Ýmislegt sem þarf að renna yfir. Einnig unnið að undirbúningi fleiri mála sem verða tekin fyrir á mánudaginn.
Menntaráðstefna á morgun í Nýheimum. Vonandi mæta sem flestir þar til að taka þátt í þeirri vinnu.
Góða helgi!
Bloggar | Breytt 1.4.2014 kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2014 | 15:51
abc og fleira skemmtilegt!
Verið með hugann talsvert við fræðslumál í dag. Hitti þau Ragnhildi fræðslustjóra og Eyjólf skólameistara FAS í morgun þar sem við vorum að ræða þá samlegð sem er milli skólastiga í list og verkgreinum og framtíðarþróun í þeim málum.
Ræddi einnig fræðslumál við Magnhildi verkefnisstjóra í málefnum nýrra íbúa. En hún er einmitt að kenna nýjum íbúum íslensku á vegum Fræðslunetsins hér á Höfn.
Svo kom 4.S í heimsókn til mín í ráðhúsið og ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að setja fyrsta seðilinn í bauk merktann abc hjálparstarfi en þau eru að fara að safna fyrir stúlkur í Pakistan. Hress og kátur hópur sem kom með kennaranum sínum og skólaliðum.
Hafnarstjórnarfundur á eftir. Fimleikafjör með börnunum mínum eftir fundinn og svo fundur með félögum mínum á Framsóknarlistanum í kvöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)