Færsluflokkur: Bloggar

Flug & bíll

Flug & bíll en hvorki til evrópu né ameríku heldur ísland út um allt! Það var bíll í gær til Reykjavíkur þar sem ég hitti ráðgjafa hjá Hagvangi og við unnum í ráðningarmálum vegna auglýsingar um stöðu framkvæmda- og umhverfisstjóra við sveitarfélagið.

Flaug heim í morgun eftir einn ágætan fund og auðvitað beint í vinnuna. Kom reyndar við heima og kippti inn af snúrunum með aðstoð eiginmannsins vegna rigningarúða! Náði að fara yfir fjöldan allan af póstum og koma ýmsum málum áfram með starfsmönnunum.

Átti líka mjög góðan fund með Sigurjóni Kjærnested framkvæmdastjóra veitusviðs hjá Samorku. Sat þann fund með Kristjáni, Birni Inga, Ástu og Birgi. En Samorka hefur boðið veitum sveitarfélagsins (vatns og fráveitu) aðild að samtökum.

Kom svo við heima um hálf fimm og skellti niður í næstu tösku. Kyssti börnin og mömmu bless. Upp í bíl með eiginmanninn við stýrið og stefnan tekin á Akureyri. Ferðin gekk ljómandi vel enda fært um Öxi en þoka í Jökuldalnum og meira og minna á Möðrudalsöræfunum. Rétt sluppum inn á Rub23 til að fá okkur sushi í náttverð. Aron og Rut fengu góða nótt koss - þaðan inná hótel og sest við ritstörf.

Á morgun er stefnt á að bjóða barnabarninu góðan daginn, knúsa hans aðeins og svo er stefnan sett á Dalvík þar sem bæjarstjórar munu funda og kynna sér svo ýmislegt í Dalvík og Fjallabyggð en þau  sveitarfélög eru gestgjafar okkar.

Meira frá því síðar - góða nótt! 


Kaup og sala!

Það má segja að föstudagurinn hafi verið með einhverskonar fasteigna þema.

Á föstudagsmorgun kom Skúli Skúlason framkvæmdastjóri Urtusteins ehf sem á Vöruhúsið  til mín og við unnum í kaupsamningmálum vegna Vöruhússins eða Hafnarbrautar 30. Nú eru aðeins smá formsatriði eftir til að ganga endanlega frá kaupum sveitarfélagsins á eigninni. Sem verður stórt og vonandi gæfuríkt skref fyrir okkur.

Í lok vinnudagsins fór ég svo á Hótel Jökul þar sem eigendurnir Ásta og Guðjón buðu þeim sem unnið hafa að breytingum hjá þeim á skólahúsnæðinu sem hýsti Nesjaskóla á sínum tíma og bæjarstjórn í mótttöku. En sveitarfélagið seldi þeim einmitt húsnæðið.

Það var mjög gaman að sjá hve vel hefur tekist til við framkvæmdina. Opið hús var hjá þeim í dag og efa ég ekki að margir hafa gert sér ferð í Nesin að skoða. Því gaman er að sjá húsnæði öðlast svona nýtt og ólíkt hlutverk.

 

 

 


Þéttur og skemmtilegur dagur

Það má segja að dagurinn í dag hafi verið í öðru eða þriðja veldi í önnum og gleði.

Fyrsti fundur dagsins var með stjórn Nýheima þar sem við fóru yfir húsnæðismál og tengd mál sem snerta bæði sveitarfélagið og Nýheima.

Fulltrúar frá Landvernd komu svo til okkar og fórum við starfsmenn og Kristín frá Náttúrustofu Suðausturlands yfir gögn sem safnað hefur verið saman um starfsemi sveitarfélagsins og sveitarfélagið sjálft í sambandi við samstarfsverkefni okkar um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda á svæðinu. Á þeim fundi sýndum við þeim nýtt myndband sem sveitarfélagið lét gera um umhverfismál og vakti það mikla kátínu enda stórskemmtilegt!

Myndbandið er á heimasíðu sveitarfélagsins og facebook síðu þess en tvö önnur munu fylgja í kjölfarið á næstu vikum.

Hádegisverðarfundur á Hótel Höfn í boði Landsbankans þar sem fjallað var um ferðaþjónustu og bankinn kynntur. Góður fundur.

Fulltrúar frá fyrirtækjasviði VÍS komu svo við hjá mér með henni Svövu Kristbjörgu starfsmanni þeirra hér á Höfn. Gaman að hitta þau og fara yfir málin með þeim.

Þá brunaði ég á hjúkrunardeild HSSA, gamla góða vinnustaðinn minn. Þar hafði okkur frambjóðendum verið hóað saman til að hitta heimilisfólk og kynna okkur og listana okkar sem keppa um sæti í bæjarstjórn í vor :) gaman að spjalla við fólkið og svo var sungið í lokin. Ekki mín sterkasta hlið en viti menn ég gerði mitt besta!

Þá er að skella sér heim og halda uppá 8 ára afmæli svo á ég stefnumót við Kiwanis menn í kvöld!!! 

 


HAUST, Ekran, samgöngur og eitt og annað fleira!

Áttum góðan fund í morgun með fulltrúum Heilbrigðisnefndar Austurlands (HAUST) þeim Helgu Hreinsdóttur og Borgþóri. Fórum yfir ýmis atriði sem verið er að vinna að ss. leiksvæði, fráveitumál, dýravernd, starfsleyfi og eitt og annað fleira.

Fór og leit inn til eldri borgara í Ekruna og skoðaði húsnæðið eftir framkvæmdir. Mjög gaman að sjá hve vel tókst til. Fékk einnig ábendingu um hvað betur má fara í frágangi og hef komið þeim skilaboðum áleiðis.

Setti saman umsögn sveitarfélagsins vegna Samgönguáætlunnar 2013-2016 sem liggur nú fyrir þinginu. Sem fyrr leggjum við áherslu á að hafist verði handa sem fyrst við framkvæmdir við veginn um Hornafjarðarfljót og rofvarnir á Suðurfjörum. Kom einnig inná Hornafjarðarflugvöll og Grynnslin í umsögninni. Vonandi hefur það eitthvað að segja inní umræðuna á þingi.


Mánudagur 28. apríl.

Ýmis mál borið á góma í dag enda bæjarráðsdagur og bæjarráð búið að vera í páskafríi og löng dagskrá fyrir höndum.

Fundargerð bæjarráðs er komin á vef sveitarfélagsins hornafjordur.is/stjornsysla og ætla ég ekki að fara yfir dagskrána hér.

Margar ákvarðanir voru teknar og mörg horn að líta í. En eitt af því sem hefur verið í vinnslu og bæjarráð tók afstöðu til í dag er að sveitarfélagið mun dreifa fjölnota innkaupapokum inná hvert heimili í sveitarfélaginu til að styrkja íbúa í að draga úr plastpokanotkun. Þetta er stór og mjög ánægjulegur liður í umhverfisstefnu sveitarfélagsins.

Fleiri ánægjulegir og skemmtilegir þættir eru einnig væntanlegir í þeim málum á næstunni!!

 

 

 

 


Út í sólina!!

Er alveg að fara að skella mér út í sólina. Ekki til útlanda bara út úr ráðhúsi Hafnar og í yndislegu Hornfirsku sumarsólina. Var að klára fundarboð bæjarráðs fyrir næstu viku svo að bæjarráðsfólk geti nýtt helgina í að kynna sér gögnin ef ske kynni að sólin muni hvíla sig eitthvað á okkur!

Dagurinn hefur verið fjölbreyttur að vanda. Atvinnumálin hafa verið í forgrunni. 

Fékk heimsókn frá starfsmönnum Norðlenska hér á Höfn í morgun, nokkur mál sem við fórum yfir saman.

Er annars búin að missa einbeitinguna óg ætla að skella mér út eins og áður sagði og njóta veðurblíðunnar og helgarinnar framundan.

Góða helgi! 


Síðasti vetrardagur!

Síðasti vetrardagur í dag. Veturinn hér á Höfn hefur nú ekki verið mjög íþyngjandi. Til að mynda fóru rúmar 600 þúsund krónur í snjómokstur!! Það er nú örugglega brotabrot af því sem mörg önnur sveitarfélög þurftu að leggja út í þeim málum.

Í dag gafst góður tími í ýmis þörf málefni með starfsmönnum og gestum um byggingar- og skipulagsmál  t.d. þátt fornleifaskráningar í skipulagsmálum. Málefni fatlaðs fólks og heimaþjónustu. Húsnæðismál á mjög breiðum grundvelli í starfsemi sveitarfélagsins, leiguhúsnæði almennt í sveitarfélaginu og þörf fyrir uppbyggingu í ferðaþjónustu t.d. við Jökulsárlón.

Náði mér í einhverja kvefpest í lok páskafrísins vona að hún verði gengin yfir í sumar - á morgun!!! 

  


Malbik - skipulög - hafnarstjórn og kvöldið framundan í stuttu máli!

Komin aftur til vinnu eftir gott páskafrí. Byrjaði daginn á því að fara yfir þau mál sem ég afgreiddi ekki í fríinu. Síðan var það fundur með Birgi, Björgvini, Reyni og Birni Inga þar sem við ræddum malbiksmál. Mikil þörf er á viðgerðum á götum og gangstéttum í bænum eftir veturinn en gott hefði verið að fá fyrirtæki á staðnum með í malbikun núna í maí. Það eru ekki margir sem hafa gefið sig fram við starfsmenn og látið vita af plönum um malbikun hjá sér. En verið er að meta hvort hægt sé að fara í þessar framkvæmdir strax í maí eða bíða haustsins þegar fleiri eru tilbúnir.

Í dag var líka kynningarfundur á deiliskipulagstillögum við Hnappavelli  og Fjallsárlón. Góðar umræður urðu á þeim fundi. Ljóst er að deiliskipulag við Fjallsárlón verður ekki endanlega afgreitt í vor eins og stefnt var að.

Hafnarstjórnarfundur hófst svo kl.17. Þar var landbrot, viðhald bryggja, stefna í Hafnarmálum og eitt og annað fleira til umræðu. og svo auðvitað síðasti fundur kjörtímabilsins sem verður haldinn í maí.

Ótrúlegt að þessi fjögur ár séu rétt að verða liðin! En undirbúningur fyirr næstu fjögur er í fullum gangi. Opinn vinnufundur Framsóknarframboðsins í gamla apótekinu í kvöld kl. 20.

Sjáumst þar :)


Aðalskipulag undirritað og sent til Skipulagsstofnunnar!!

Vann að flestum málum sem bæjarráð afgreiddi í gær. Komst ekki yfir allt en náði líka að sópa aðeins upp af málum sem hafa orðið útundan uppá síðkastið. Alltaf gott þegar hægt er að loka málum sem hafa verið á borðinu í einhvern tíma.

Skrifaði nafnið mitt mun oftar í dag en aðra daga þar sem verið var að ganga frá gögnum varðandi aðalskipulagið. Svör við athugasemdum sem komu inn eru komin af stað úr húsi. Búið að pakka öllum gögnum saman og þau á leið suður til Reykjavíkur til loka samþykktar hjá Skipulagsstofnun og svo umhverfisráðherra í kjölfarið! Stór dagur í þessu máli sem hefur verið í vinnslu í mörg ár eðli sínu samkvæmt.

Stendur til að ég fljúgi suður til Reykjavíkur á eftir en búið að fresta um 30 mín núna vegna veðurs! Spurning hvort það verður fært. Ætlaði að vera á Frambjóðendaráðstefnu hjá Framsókn í kvöld og á morgun... Kannski þarf að breyta því plani ef veðrið tekur völdin!

Stefni að fjarvinnu - fríi í næstu viku í faðmi fjölskyldunnar á Akureyri :)


Sitt lítið að hvoru!

Starfsmannafundur í byrjun dags og svo fundir með þrem starfsmönnum Nýheima í kjölfarið.

Nei ég var ekki í starfsviðtali í Nýheimum! Hitti þau Eyjólf, Tinnu og Ragnhildi hvert á eftir öðru í þessari röð ræddi mennta, húsnæðis og atvinnumál í tengslum við sveitarfélagið að sjálfsögðu :)

Náði mér svo í smugu inná milli funda til að kíkja á tölvupóst forgangsraða og koma niður punktum af fundum morgunsins og gærdagsins.

Þá var bæjarráð undirbúið og svo fundur frá kl.13-16. 

Þarf nú að hlaupa því að ársfundur Náttúrustofu Suðausturlands hefst eftir 13 mínútur úti í Nýheimum og ég ætla að vera þar!!!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband