Færsluflokkur: Bloggar
2.6.2014 | 18:06
Frelsi!
Kom heim klukkan fjögur í dag eftir rólegan dag í ráðhúsinu sem er nú mjög óvenjulegt á mánudegi. En þessi mánudagur er ekkert venjulegur þar sem kosið var um helgina og pólitískt landslag breytt.
Við framsóknarmenn sem höfum verið með fjóra bæjarfulltrúa síðustu fjögur ár nú með þrjá og hinir tveir flokkarnir að ræða saman um myndun meirihluta. Þannig að núna er einskonar biðstaða eða millibil. Auðvitað erum við að undirbúa næstu fjögur ár líka en annar taktur en maður er vanur :)
Krakkarnir komnir í sumarfrí og Friðrik Björn farinn með ömmu sinni í smá sumardvöl á Jaðri. Skrítið að koma heim og enginn sem bíður, Jana Mekkín á leið í sund og Jónas að vinna.
Skellti mér út í hlaupaprógramið hennar Brynju, frábært move hjá mér. Yndislegt veður. Var orðin frekar þreytt þegar ég mætti henni yndislegu Hanný og viti menn þar sem ég vældi á "hjálp" kom þessi elska með orð dagsins FRELSI!
Takk fyrir Hanný!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2014 | 09:15
Nú er boltinn hjá þér, kæri kjósandi!
Kjördagur upp runninn og kjörstaðir opna einn af öðrum. Því vil ég hvetja þig kjósandi góður til að mæta á kjörstað og taka afstöðu til þess hverja þú vilt velja til setu í bæjarstjórn næstu fjögur árin.
Við frambjóðendur höfum lagt okkar stefnumál fyrir. Kynnt þau í blaðagreinum, á vefnum og í samtali við íbúa í gegnum fundi, heimsóknir og auðvitað maður á mann.
Fyrir þá sem vilja nýta daginn til að fara yfir málin þá er linkur á stefnuskrána okkar hér til hliðar og inná facebokk síðu Framsóknarfélags Austur-Skaftfellinga. Einnig eru allir velkomnir til okkar á kosningaskrifstofuna. Hvort sem er í upplýsingaöflun, spjall eða kaffi og kökur. Við opnum núna klukkan tíu en kaffihlaðborðið verður komið í fullan gang klukkan 14.
Grunnurinn að góðum kosningum er að kjörsókn sé góð. Þitt atkvæði skiptir máli, taktu afstöðu því boltinn er hjá þér!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2014 | 13:20
Nánar um mig - Ásgerði K. Gylfadóttur
Einhverjir hornfirðingar kunna að velta fyrir sér hvaðan ég kem og hvað ég hef verið að bardúsa í gegnum tíðina.
Ég er fædd á Ísafirði 10. desember 1968. Ég er dóttir Hjördísar Karlsdóttur frá Hnífsdal og Gylfa Guðmundssonar frá Ísafirði. Fósturfarðir minn Helgi Björnsson er Patreksfirðingur. Ég er alin upp í Hnífsdal en fjölskyldan fluttist til Hafnarfjarðar 1986.
Ég gekk í grunnskóla í Hnífsdal og svo Gagnfræðaskólann á Ísafirði. Hóf svo nám við Menntaskólann á Ísafirði eftir gaggó. Tók mér hlé frá námi ´86-´87 og fór sem skiptinemi á vegum AFS til Sao Paulo í Brasilíu. Eftir þá skemmtilegu reynslu hóf ég nám við Flensborgarskólann í Hafnarfirði og lauk stúdentsprófi þaðan 1989 þá nýbökuð móðir. Ég tók mér frí frá námi í eitt ár eftir stúdent og vann á slysadeild Borgarspítalans sem starfsstúlka en fór svo í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands.
Eftir útskrift með BS próf frá HÍ fór ég að vinna á geðdeild Landspítalans á Kleppi. Þar vann ég á deild 13 sem var móttökugeðdeild í ein fimm ár. Þá tóku við tæp fjögur ár sem lyfjakynnir hjá Pharmaco í Garðabæ þar til ég tók þá afdrifaríku ákvörðun að breyta til og fara að vinna við hjúkrun á hjúkrunardeild HSSA í svona ár eða svo.
Við Aron Martin sonur minn komum hingað austur árið 2002 og hef ég verði starfsmaður HSSA síðan. Fyrst á hjúkrunardeildinni síðan við skólahjúkrun og svo aftur sem hjúkrunarstjóri á hjúkrunardeildinni.
Frá því ég fluttist til Hornafjarðar hef ég bætt við mig diplomanámi í heilsugæslu sem ég stundaði í fjarnámi frá HÍ í Nýheimum að hluta og réttindum sem leiðbeinandi í almennri skyndihjálp.
Ég var svo lánsöm að kynnast honum Jónasi rafvirkja (Friðrik Jónas Friðriksson) og er hann nú líkast til ástæða þess að ég hef fest rætur á Hornafirði og vill hvergi annarsstaðar búa. Við eigum saman Jönu Mekkín og Friðrik Björn sem eru í Grunnskóla Hornafjarðar. En Aron Martin býr nú á Akureyri með sambýliskonu sinni Veroniku Rut og syni þeirra Hirti Loga sem varð eins árs í byrjun maí.
Ég hef lengi vel verið virk í félagsstörfum. Var trúnaðarmaður hjúkrunarfræðinga bæði á Landspítalanum og á HSSA á tímabili. Var í stjórnum nemendafélaga og fagdeildar geðhjúkrunarfræðinga. Einnig var ég um árabil í stjórn Hornafjarðardeildar RKÍ og formaður í nokkur ár.
Ég tók sæti á lista Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra 2010, náði kjöri og hef verið forseti bæjarstjórnar (2010-2013), formaður bæjarráðs (2013), formaður skóla-, íþrótta- og tómstundanefndar (2010-2013).
Ég tók að mér stöðu bæjarstjóra í nóvember sl. þegar Hjalti Þór Vignisson óskaði lausnar frá starfi og hef því gengt því starfi í sjö mánuði núna um mánaðarmótin.
Ég hef lært mikið á þessum fjórum árum og ekki síst síðustu sjö mánuði. Ég hef áhuga á því að fá að gegna þessu embætti áfram eftir kosningar og óska eftir stuðningi ykkar hornfirðinga til þess - XB á kjörseðilinn!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2014 | 20:31
Rafræn stjórnsýsla og málefni fatlaðs fólks
Eyddi deginum í Reykjavík á málstofu um rafræna stjórnsýslu og svo á fundi með félags- og húsnæðismálaráðherra.
Málstofan var mjög áhugaverð enda fjallaði hún um mál sem er mér mjög hugleikið. Rafræn stjónsýsla er eitthvað sem við erum byrjuð að fikra okkur áfram með og erum að vinna að.
Hér er skjalastjórnun að mestu leiti orðin rafræn og mikil breyting hefur orðið á varðandi fundi í stjórnsýslunni. Nú eru öll fundarboð og gögn orðin rafræn. Með því sparast mikill pappírs- og prentkostnaður en þessi nýbreytni hefur líka ákveðna galla í för með sér sem helstir eru að erfiðara er að fara til baka í mál og kryfja þau aftur í tímann. En það hlýtur að verða unnið með það vandamál og það leyst.
Sat ekki alla málstofuna því aðal erindið til Reykjavíkur var fundur minn og Jóns Kristjáns félagsmálastjóra með Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra. Við hittum hana og Þór G. Þórarinsson, ræddum við þau um ákveðna þætti varðandi þjónustu við fatlaða og verkefni því tengt.
Náði góðri kríu í fluginu heim með Haglél Mugisons í eyrunum :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2014 | 19:50
Framboðsfundur í Hofgarði
Fyrsti sameiginlegi framboðsfundur af þremur sem verða hér í sveitarfélaginu var haldinn í dag í Hofgarði í Öræfum.
Góðar umræður fóru fram um málefni sveitarfélagsins og þau sem snerta samfélagið þar sérstaklega.
Þar má nefna húsnæðismál og skólahald. Í vetur eru átta nemendur í Grunnskólanum í Hofgarði og því mikið hagsmuna mál að byggðin þar eflist og nemendum fjölgi svo hægt verði að halda úti skólastarfi. Skortur hefur verið á húsnæði og engar íbúðarlóðir til úthlutunar.
Íbúar á Hofi hafa nú tekið sig saman og vinna að deiliskipulagi á jörð sinni með aðkomu sveitarfélagsins sem tekur þátt í verkinu á lóð grunnskólans. Vonandi mun framboð á lóðum laða að nýja íbúa í Öræfasveit en uppbyggaráform eru til staðar í ferðaþjónustu og í kringum Vatnajökulsþjóðgarð.
Næstu fundir verða fimmtudaginn 22. maí kl. 15 á Hrolllaugsstöðum og kl. 20 í Nýheimum.
Takk fyrir daginn öræfingar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2014 | 19:45
Fræðslumál
Góður fundur í hádeginu í dag þar sem Gylfi Jóni Gylfason fræðslustjóri í Reykjanesbæ og Ingibjörg Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi kynnt fyrir fundarmönnum þá vinnu sem farið var í þar til að bæta námsárangur grunnskólabarna. Margt þar sem við á Hornafirði getum hagnýtt til að bæta stöðuna hjá okkur.
Gylfi Jón, Ingibjörg og Ragnhildur Jónsdóttir fræðslustjóri áttu síðan fundi með starfsmönnum bæði grunn- og leikskóla varðandi málið. Þessar kynningar eru partur í vinnu við nýja menntastefnu sem unnið er að.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2014 | 09:28
Eitt og annað
Eitt og annað hefur verið á dagskrá síðustu daga.
Bæjarstjórnarfundur á fimmtudag þar sem skipulagsmál voru fyrirferðarmikil að vanda enda mikil uppbygging í gangi í sveitarfélaginu. Grunnskólakennarar afhentu bæjarstjórn áskorun um að þrýsta á samningsaðila í kjaradeilu þeirra sem bæjarstjórn tók undir og hefur komið áskoruninni áfram.
Var við formlega opnun á göngubrúnni yfir Hólmsá. Frábært að koma þangað og finna kraftinn í heimamönnum sem hafa unnið mikið og gott verk þar í að gera svæðið aðgengilegt og miðla sögu og fræðslu.
Síðasti fundur Hafnarstjórnar á kjörtímabilinu var haldinn í gær og fórum við í kjölfar hans í heimsókn til Iceland Pelagic og fengum kynningu á starfsemi fyrirtækisins sem var mjög áhugavert. Forstöðumaður hafnarinnar lóðsaði inn skip á meðan á heimsókninni stóð en lenti í smá töfum vegna sands - en allt fór vel og allir glaðir þegar ég kvaddi þá í gærkvöldið.
Í dag eru það vortónleikar Kvennakórs Hornafjarðar og móttaka gesta í ráðhúsinu. Stjórnsýslu- og fjármálastjórar sveitarfélaga halda fund á Höfn þessa dagana og ég mun hitta þann hóp eftir hádegi.
Góða helgi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2014 | 21:17
Innanlandsflug
Þurfti að fara á fundi í dag í Reykjavík sem gerist nú annað slagið því þrátt fyrir alla tæknina sem við búum við þá er stundum þörf á því að vera í eigin persónu á staðnum ekki í síma eða í gegnum tölvu.
Þegar við lentum í Reykjavík þá kom það upp í hugann hvað það er frábært að lenda þar en ekki á Hólmsheiði eða í Keflavík. Ferðinni var heitið á Landspítalann og fyrsta erindið 35 mínútum eftir lendingu.
Dagskrá dagsins teygðist svo af Landspítalalóðinni uppí Ármúla og þaðan aftur út á flugvöll. Gott að geta komist fram og til baka samdægurs. Ekki verra að ná lokastökki dótturinnar á fimleikamóti og sjá flokkinn hennar sýna dansinn sinn.
Ég er þakklát fyrir að hafa innanlandsflug frá Hornafirði til Reykjavíkur og mun svo sannarlega leggja mitt af mörkun til að á því verði ekki breyting.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2014 | 18:05
Eitt og annað - fjarskipti, skipulag, ferðaþjónusta, safnamál....
Á morgun er 14. maí þá eiga afi, forsetinn, Bára Baldvins, pabbi hennar Þórhildar og margir aðrir afmæli! Þá er maí líka að verða hálfnaður.... tíminn flýgur trúðu mér!
Þessa dagana finnst mér stundum að ég sé stödd inní þeytivindu sem vinnur á fullum hraða. Það er allt að gerast út um allt og maður þarf stundum að staldra við, anda djúpt og ná að upplifa núið.
Fjarskiptamál voru rædd við fulltrúa Vodafone í gær en þeir eru að vinna með okkur að bættu fjarskiptasambandi á Mýrum og Suðursveit. Á fundinum með þeim var farið yfir stöðu mála. Hlutirnir eru að gerast hægar en áætlað var en gott að þetta er í vinnslu.
Sat opinn félagsfund Ríki Vatnajökuls eftir hádegi í gær. Ánægjulegt að hlusta á erindin og fylgjast með hvað er í gangi hjá klasanum.
Bæjarráð seinnipartinn í gær. Þar voru meðal annars skipulagsmál til umfjöllunar sem verða svo á dagskrá bæjarstjórnar á fimmtudag.
Held ég hafi sett met í hittingum í dag á tímabili í morgun var biðröð við hurðina hjá mér!! En flest allir fengu áheyrn. Einn sem kíkti inn hefur svo þurft öðrum hnöppum að hneppa og kemur við síðar.
Bæjarráðsfulltrúar sátu hádegisverð með sendiherra ESB á Íslandi og konu hans í dag. Gaman að hitta þau hjónin og áhugaverðar og fræðandi umræður.
Fór svo í upptöku á vegum RUV vegna umfjöllunar um sveitarstjórnarmálin í fréttum RUV. Við oddvitar listann hér fengum okkar innlegg tekin upp í dag en þau verða sýnd í næstu viku. 21. maí minnir mig!
Svo eru það safnamálin í Nýheimum kl. 20 í kvöld!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2014 | 21:17
Fræðsla & fjör
Eyddi fimmtudegi og föstudegi á árlegum Bæjarstjórafundi á Dalvík og í Fjallabyggð.
Mjög góðir dagar í góðum félagsskap. Fengum góða innsýn inní það hvernig Dalvíkurbyggð er að vinna með fjölmenningarleg mál. Meðal annars hvernig bókasafnið þar hefur verið nýtt til að nálgast íbúa af erlendu bergi brotna einn starfsmanna er einmitt pólsk kona sem hefur verið öflug í þessu starfi.
Hér á Höfn höfum við verið að huga að erlendum íbúum undanfarin ár en erum nú á tímamótum og gaf heimsóknin ýmsar hugmyndir sem vert er að skoða í framhaldinu.
Kynntumst einnig frumkvöðlum og uppbyggingu ferðaþjónustu bæði á Dalvík og í Fjallabyggð. Frábært hve mikil uppbygging er á Siglufirði og svo heimsókn í Menntaskólann á Tröllaskaga, Ólafsfirði sem var alveg meiriháttar. Frábær vinna sem er verið að vinna þar, góð og uppörvandi kynning hjá skólameistaranum.
Margt annað sem var skoðað og kynnt. Skilur eftir sig góðar minningar og hugmyndir.
Einnig góður félagsskapur bæjar-, sveitarstjóra og maka þeirra. Mikið fjör og mikið hlegið :)
Takk fyrir mig og minn Dalvík og Fjallabyggð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)