Færsluflokkur: Bloggar

Sameining heilbrigðisstofnanna - hvað breytist á HSSA?

Í gær var tilkynnt að farið verður í boðaðar sameiningar heilbrigðisstofnanna þann 1. október nk. Í kjölfar þess hef ég tekið eftir því að fólk hér í Sveitarfélaginu Hornafirði veltir fyrir sér hvaða áhrif þetta hefur hér hjá okkur!

Samkvæmt mínum bestu heimildum sem eru nokkuð áreiðanlegar þ.e. fundur í velferðarráðuneytinu um málið og fundur með ráðgjöfum vegna sameiningarinnar  hér á Höfn. Þessa fundi sat ég sem bæjarstjóri sveitarfélagsins og tel upplýsingarnar því áreiðanlegar.

Skilaboðin eru að þetta mun ekki hafa áhrif á daglegan rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands. HSSA er rekið af sveitarfélaginu í gegnum þjónustusamning við ríkið og sá samningur gildir út árið 2016. Sveitarfélagið hefur rekið þessa þjónustu frá árinu 1996 með góðum árangri og miklum samlegðaráhrifum við rekstur annarrar velferðarþjónustu á vegum sveitarfélagsins.

HSSA er lítil eining í heilbrigðisþjónustu og aðeins rekin hér grunnþjónusta þannig að ekki er séð annað en að hér hafi verið hagrætt eins og hægt er. Á síðustu árum eða allt frá því að "Heilbrigðisumdæmi Suðurlands" var stofnað hefur verið mikil samvinna milli þeirra stofnanna sem munu nú sameinast undir nafninu Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Við hornfirðingar höfum notið góðs af því samstarfi m.a. með þjónustu barnalæknis, samvinnu vegna sjúkraflutninga (reglubundin námskeið og fagleg ráðgjöf) og blóðrannsóknir frá HSSA eru unnar á Selfossi. 

Þó stofnuð verði ný stofnun og auglýst eftir nýjum forstjóra þá kemur hann ekki í stað framkvæmdastjóra HSSA. Síðan er það verkefni okkar kjörinna fulltrúa að vinna að því að við höldum áfram forræði á þessum málum með nýjum samningi frá 1. janúar 2017! Kannski verður þá búið að flytja öldrunarþjónustu og heilsugæslu til sveitarfélaganna! Hver veit? Það hefur verið í umræðunni. 

En við getum verið róleg við höfum samving sem unnið er eftir. Horfum eftir tækifærunum! Getum við nýtt sameininguna til að bæta þjónustun hjá okkur með samvinnu innan nýrrar stofnunnar??


Ferðaþjónusta, umsagnaraðili og notandi!

Átta mál sem tengjast stöðu- eða rekstrarleyfum í ferðaþjónustu voru á dagskrá bæjarráðs í dag! Í raun má segja að þau hafi verið níu því að fundargerð HAUST frá 25. júní sl sem var einnig á dagskrá var fjallað um sextán útgefin starfsleyfi í Sveitarfélaginu Hornafirði af þeim voru sex er vörðuðu gistileyfi og fjögur leyfi tengd Humarhátíð. 

Megin þorri þeirra erinda sem fjallað hefur verið um uppá síðkastið í bæjarráði eru vegna heimagistingar, þar sem einstaklingar eða fjölskyldur nýta þá möguleika að drýgja tekjur sínar með því að bjóða ferðafólki gistingu á heimilum sínum gegn gjaldi. Við útgáfu slíks leyfis er gert ráð fyrir því að það skuli ávallt í það minnsta einn af heimilismönnum búa á heimilinu og gegna hlutverki næturvarðar. En í sveitum er þetta aðeins rýmra og er nægjanlegt að heimilismaður hafi fasta búsetu á jörðinni.

Ég vona að það gangi vel hjá þessum aðilum sem ákveða að opna heimili sín fyrir ferðafólki með þessum hætti.

Síðustu daga hef ég hins vegar verið ferðalangur sjálf með fjölskyldunni og nýtt nokkur tjaldstæði og fengið alveg ágætis þjónustu á þeim. Byrjaði að sjálfsögðu innan sýslumarka og gisti í Skaftafelli. Fórum síðan í göngu upp að Svartafossi umkringd erlendum ferðamönnum sem gaman var að spá í klæðaburðinn á. Þar sáum við fólk allt frá því að vera á stuttbuxum og á bol uppí snjóbuxur og dúnúlpu. Dóttir mín gekk um og þóttist vera útlensk og ávarpaði þá sem við mættum á portúgölsku - Bom dia!

Næsta nótt var svo í miklu roki í Hamragörðum í návist hins gullfallega foss Gljúfrabúa og sú þriðja á svæði Rafiðnaðarsambandsins við Apavatn í betra veðri. 

Einnig fórum við í siglingu á Fjallsárlóni, fórum upp að og sum uppí Paradísarhelli. Í sund á Vík í Mýrdal í fyrsta sinn og í Gömlu laugina á Flúðum.

Eftir rúma viku mun ég svo halda áfram í fríi og örugglega gerast túristi aftur!

 


Hátíð á Höfn!!

Þá er komið að Humarhátíð! Ýmsar flottar fígúrur koma frá Húsasmiðjunni þar sem andlitsmálun fór fram í dag og boðið var uppá pylsur. Hús og heilu hverfin eru að verða appelsínugul og hátíðargleðin að renna á mannskapinn!

Veðrið lofar góðu og dagskráin líka :) Hlakka til að sjá ykkur!


Hólabrekka

Rekastaraðilar Hólabrekku þau Anna og Ari buðu bæjarstjórn í heimsókn í dag. Þar fengum við ásamt Jóni Kristjáni félagsmálastjóra mjög góðar móttökur, dýrindis konfekt sem framleitt er á staðnum og leiðsögn og  upplýsingar um starfsemina. 

Þetta er í annað sinn sem ég kem til þeirra og er ánægjulegt að sjá og heyra af starfseminni og hvernig þróunin hefur verið undanfarin ár.

Takk Anna og Ari fyrir heimboðið og góðar móttökur!


Í dag var glaumur og gaman!

Fengum frábæra heimsókn á hjúkrunar- og sjúkradeild HSSA í dag þegar þau Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Tómas Jónsson komu til okkar með prógramið sitt "Nú verður glaumur og gaman" en þau ferðast á öll dvalar- og hjúkrunarheimili landsins með tónlistarprógram.

Það var mikil gleði sem skein úr andlitum heimilisfólks og þátttaka þeirra í söngi og svo í heljarinar hljómsveit var hreint út sagt frábær! Í lok prógramsins þá fengu allir sem vildu taka þátt hljóðfæri; hristu, trommu, kúabjöllu eða eitthvað annað og tóku þátt í tónlistarflutningnum. 

Svo tók tónlistarmaður deildarinnar auðvitað smá djamm með þeim. Þau buðu honum að taka fram harmonikkuna og hann spilaði nokkur lög með þeim sem var alveg stórskemmtilegt líka :)

Umhverfis- og skipulagsnefnd kom svo saman í dag á upphafsfund. Þar sem farið var yfir verkefni nefndarinnar og ýmis praktísk atriði. Fram kom erindi þar sem íbúar óska eftir grenndarkynningu vegna áforma um sölu gistingar í götunni hjá þeim. Nefndin tók jákvætt í erindið þó lög og reglur heimili raunar slíkan rekstur þá er sjálfsagt að vilji nágranna komi fram varðandi málið.


Fyrsti bæjarráðsfundur kjörtímabilsins

Í gær mánudag var fyrsti bæjarráðsfundur kjörtímabilsins. Hann var nokkuð fjölmennur þar sem öll bæjarstjórn ásamt varabæjarráðsmanni sjálfstæðisflokks sátu fundinn. Byrjað var á kynningu á stjórnsýslunni og ýmsum praktískum hlutum fyrir nýja bæjarstjórnar og bæjarráðsmenn.

Að því loknu hófst hefðbundinn fundur fyrir utan fjölda fundarmanna en gott að gefa fólki innsýn í málin svona í byrjun kjörtímabils. 

Tækifærisleyfi voru áberandi þar sem Humarhátíð er um næstkomandi helgi og mikið verður væntanlega um dýrðir enda flott veðurspá fyrir helgina!

Stór og minni mál voru einnig á dagskrá. Gefið var leyfi fyrir lántöku upp á 100 milljónir króna. Lántaka sem var á fjárhagsáætlun en kom samt nýjum meirihluta pínulítið á óvart! Það er hins vegar áhyggjuefni að tekjur sveitarfélagsins hafa dregist saman fyrstu fimm mánuði ársins og eru um 50 milljónum króna lægri en á sama tíma á síðasta ári. Þá var met loðnuvertíð en ekki góð vertíð í ár. Því þarf að vakta vel hvernig framhaldið verður í þeim málum. 

Kynntur var málefnasamningur nýs meirihluta bæjarstjórnar og hann ræddur lítillega og þær breytingar sem þau hyggjast gera á nefndaskipulagi sveitarfélagsins í tengslum við hann. Ég er ekki sannfærð um að þær breytingar sem fyrirhugaðar eru séu til bóta en sjáum til.


Ný bæjarstjórn tekin til starfa!

Fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar var haldinn í dag í Listasafni Svavars Guðnasonar. Verkefni dagsins voru að kjósa í embætti og nefndir auk þess sem meirihlutinn gekk frá ráðningu bæjarstjóra.

Sú skemmtilega staða er uppi að fjórir af sjö bæjarfulltrúum eru konur og bæjarráð er skipað þremur konum!

Þau verkefni sem ég mun starfa að næsta kjörtímabil eru: bæjarráð, umhverfis- og skipulagsnefnd og almannavarnanefnd. Einnig fáum við Sæmundur nágranni að fara á Lansþing Sambandsins á Akureyri í september.

Áhugasamir geta kynnt sér skipan nefnda og bókanir sem lagðar voru fram á fundinum í fundargerð fundarins á www.hornafjordur.is/stjornsysla undir fundargerðum. Einnig verður fundurinn sýndur á Skjávarpinu kl. 20.


Til hamingju með daginn!

Lýðveldið Ísland er 70 ára í dag! Til hamingju íslendingar nær og fjær!!

Á Hornafirði skín sólin í tilefni dagsins. Skrúðgangan fer af stað frá N1 kl.14 í dag og hátíðardagskrá verður væntanlega á Hóteltúninu. Hefðbundin dagskrá og fjör.

Gaman verður að sjá hver verður Fjallkona og hver flytur ávarp nýstúdents og svo hátíðarræðuna. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi fyrir akkúrat fjórum árum!!

Njótum dagsins, sjáæfstætt lýðveldi er ekki svo sjálfsagt mál!!


Kaflaskil

Þá er ráðningu minni sem bæjarstjóra lokið. Eins og ég hef greint frá áður er ég mjög þakklát fyrir að hafa fengið að taka það verkefni að mér síðustu sjö mánuði og hafa þeir verið reynsluríkir og ánægjulegir.

Næst á dagskrá er svo að undirbúa sig fyrir fyrsta fund nýrrar bæjarstjórnar sem verður n.k. miðvikudag 18. júní kl. 16.  Fundurinn verður væntanlega hefðbundinn þar sem kosið verður í embætti og nefndir.

Nýr meirihluti hefur verið kynntur og þar með bæjarstjóraefnið þeirra. Ég ætla ekki að tjá mig svo mikið um það hér í dag en mikið var ég hissa þegar ég heyrði því fleygt manna á milli í síðustu viku að ekki yrði auglýst eins og bæði framboð sem standa að meirihlutanum höfðu boðað. Það var svo staðfest í fréttatilkynningu frá þeim og á ég von á að fleiri en ég hafi þá undrast!

Annars eyddi ég helginni á suðurlandi með fjölskyldunni. Sótti grislingana mína sem höfðu verið þar í góðu yfirlæti hjá ömmum og öfum :) Slakaði á í Fontana á Laugarvatni og sundlauginni á Borg. Yndislegt, kom heim full af orku og krafti í næstu verkefni!

 


Vikulok

Vikan liðin og ég er ekki frá því að hún hafi nú verið nokkuð öðruvísi en vikurnar undanfarna mánuði. Ákveðið spennufall eftir mikla vinnu og spennu fyrir kosningar. Svo fóru kosningarnar nú eins og þær fóru og vikan í takt við það. Nokkuð róleg en samt ekki.

Tíminn nýttur í að hnýta lausa enda sem eru auðvitað út um allt því að lífið heldur áfram þó pólitískt landslag kunni að breytast! Nú er spurningin sem brennur á fólki "hvernig verður þetta?." Því miður þá veit ég ekkert meira en hver annar og bíð líka eftir upplýsingum! En þær hljóta að vera að koma þar sem bæta á upplýsingaflæði, allt opið og gangsætt svo að fólk hlýtur að fara að fá upplýsingar :)

Flott málþing í Nýheimum á þriðjudagseftirmiðdaginn um áhrif loftslagsbreytinga og hvað við getum gert til að sporna við þeim.  Gama að sjá Wendel Trio í kvöldfréttum RUV í gærkvöldið ræða um þessi mál, hefði bara mátt koma fram að hann var búinn að vera á Hornafirði á málþingi!!

Þriðjudagurinn sem verður nokkurskonar mánudagur verður vel pakkaður. Fundur vegna áforma um sameiningu heilbrigðistofnanna á þriðjudagsmorgun. Síðasti fundur núverandi bæjarráðs  kl. 13 og svo síðasti fundur núverandi bæjarstjórnar kl.17 því starfstími nýrrar bæjarstjórnar hefst eftir viku, fimmtán dögum frá kosningum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband