Færsluflokkur: Bloggar
23.10.2014 | 11:00
Verkfall og varmadælur
Í gær 22. október hófst verkfall tónlistarkennara. Það er döpur staðreynd og í raun ömurlegt að í dag 2014 þurfi launþegar að grípa til verkfallsvopnsins í kjarabaráttu. Við vitum öll að það eru þeir sem síst mega við sem koma verst út úr verkföllum. Næsta mánudag hafa læknar boðað sinn fyrsta verkfallsdag af nokkrum ákveðnum sem boðaðir hafa verið.
Við erum öll hlekkir í keðju samfélagsins og það er okkar að tryggja að sú keðja sé sterk. Þar dreg ég hvorugan samningsaðilan undan. Samningasðilar tónlistarkennara og lækna og viðsemjendur þ.e. sveitarfélögin og ríkið verða hreinlega að axla sína ábyrgð og leysa þessi mál.
Ég sat Ársþing Sambands sunnlenskra sveitarfélaga á Kirkjubæjarklaustri síðustu tvo daga. Fínt þing þar sem okkar sameiginlegu verkefni voru brýnd. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra var með okkur á þriðjudag auk nokkurra þingmanna. Þau voru einnig brýnd til þess að standa vörð um kjördæmið og vinna með okkur að málunum.
Við hornfirðingar fengum svo góða skoðunarferð og fræðslu um stóru varmadæluna sem þau á Klaustri hafa sett upp við íþróttamannvirkin og grunnskólann. Flott framkvæmd sem er að skila þeim mikilli og góðri hagræðingu í rekstri. Klárlega verkefni sem við hér heima eigum eftir að skoða betur.
Almannavarnanefndar fundur í hádeginu í dag þar sem eldgosið í Holuhrauni og áhrif þess á Sveitarfélagið Hornafjörð verða rædd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.10.2014 | 21:36
Viðburðir vikunnar
Síðasta miðvikudag var brunað til Reykjavíkur eftir hefðbundinn vinnudag á hjúkrunardeildinni. Gott að hafa bílstjóra sem ferjaði mig milli staða, ekki það að hans vinnudagur hófst á sama tíma og minn!!
Fjármálaráðstefnan var fimmtudag og til hádegis á föstudag. Dagskráin var nokkuð hefðbundin en hefur orðið praktískari á síðustu árum fyrir okkur bæjarfulltrúana sem erum kannski ekki alveg á kafi í rekstartölum en þurfum að hafa góða yfirsýn yfir fjölmarga og flókna málaflokka. Einnig er bæði gott og gaman að hitta annað sveitarstjórnarfólk og starfsmenn sveitarfélaga sem sækja ráðstefnuna. Ekki síst fjölskyldumeðlimi og skólafélaga :)
Að lokinni ráðstefnu héldu fulltrúar meirihlutans í bæjarráði, bæjarstjóri og félagsmálastjóri á fund í Velferðarráðuneytinu um málefni fatlaðs fólks. Undirritaðri var ekki boðið að sitja fundinn!
Á bæjarráðsfundi á mánudag var svo eina meðlimi bæjarráðs sem ekki sat fundinn gert grein fyrir framgangi hans. Ég var að sjálfsögðu hundfúl yfir því að hafa ekki fengið tækifæri til að sitja fundinn í ráðuneytinu og hef gert grein fyrir því. Sjálfsagt fer svo lítið fyrir mér að ég gleymdist þar sem ég var ekki með þeim í bílnum.... En það er nú bara svo, en bæjarstjórinn hefur afsakað þessa gleymsku svo að öllu sé nú haldið til haga.
Bæjarráð á mánudag einkenndist af heimsókn aðal- og vara bæjarráðsfulltrúa til Hornafjarðarsafna. Við fórum í geymslur safnsins við Álaleiru. þar hefur orðið mikil breyting frá síðustu heimsókn minni þangað. Einnig var okkur kynnt það ferli sem munir safnsins fara í til skráningar og forvörslu í Nýheimum. Flott og fagmannlegt starf sem unnið er hjá Völu og starfsfólki hennar.
Á mánudag voru einnig fundir með forstjóra nýrrar sameinaðar heilbrigðisstofnunar; Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Herdís Gunnarsdóttir forstjóri fór yfir það ferli sem hún sér fyrir sér í þessari sameiningu og svaraði spurningum.
Í dag var svo fræðsla fyrir sveitarstjórnarmenn og forstöðumenn um fjármál sveitarfélaga frá sjónarhorni endurskoðenda okkar KPMG. Þörf og góð yfirferð.
En aðal stuðið er þarna inná milli á heilbrigðisstofnuninni þar sem við starfsólkið erum að undirbúa PARTÝ! Hópar vinna að verkefnum sem við erum að keppa í og þetta er svooo skemmtilegt. Hlakka til að skemmta mér með þeim á föstudagskvöldið!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2014 | 21:49
Er eitthvað að frétta?
Já, já það er alltaf eitthvað að frétta. Undanfarnar vikur hafa verið nokkuð annasamar.
Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið á Akureyri í lok september. Þangað fór ég ásamt Sæmundi bæjarfulltrúa og Birni Inga bæjarstjóra. Gott þing þar sem ég sat í umræðuhóp um tengsl manna og umhverfis; umhverfis- og skipulagsmál. Fórum þar yfir drög að stefnumótun í þeim málum sem stjórn sambandsins mun svo ljúka.
Síðasta mánudag komu svo fjórir þingmenn kjördæmisins í heimsókn og áttu fund með bæjarstjórn. Farið var yfir þá þætti í rekstri ríkisins sem snúa að okkur hér í héraði ss. samgöngur, heilbrigðismál, rannsóknir á grynnslunum, skipulag löggæslu og ýmislegt fleira. Gott að hitta þingmennina og ræða málin við þá.
Þá var líka fundur í bæjarráði, umhverfis- og skipulagsnefnd og bæjarstjórn. Inná milli tók ég vaktir á hjúkrunardeildinni og svo var brunað í Öræfin á föstudag eftir vinnu því haldið var Kjördæmisþing Suðurkjördæmis í Freysnesi 3. -4. okt. Þar tókum við Austur- Skaftfellingar á móti ráðherra, þingmönnum og öðrum framsóknarmönnum og áttum góðan fund. Góð mæting var á fundinn og fór hann í alla staði vel fram.
Í dag var svo fundur bæjarráðs þar sem ákveðið var m.a. að fara í verðkönnun vegna fráveituframkvæmda í Nesjahverfi. En þær framkvæmdir mun vonandi hefjast strax á næstu vikum. Einnig var farið yfir tillögur að breytingum á Samþykktum sveitarfélagsins þar sem meirihlutinn stefnir að því að fjölga nefndum sveitarfélagsins um tvær. Þ.e. skipta tveim nefndum sem í dag eru atvinnu- og menningarmálanefnd og umhverfis- og skipulagsnefnd uppí fjórar.
Á miðvikudag verður svo brunað til Reykjavíkur til að sitja Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2014 sem haldin er fimmtudag og föstudag.
Nóg að gera og alltaf eitthvað að frétta :)
Góðar stundir!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2014 | 20:13
Náttúrulega góður dagur!!
Náttúran og umhverfið var í forgrunni í dag á degi íslenskrar náttúru. Veðrið var uppá sitt allra besta hlýtt og bjart. Þar sem ég var í vaktafríi í dag gafst tími fyrir nokkra göngutúra hingað og þangað í þessu yndislega veðri.
Fór tvisvar í búðina og tók eftir því núna eins og oft áður að bæjarbúar eru duglegir að nota fjölnota innkaupapokana sem dreift var í hús í vor. Frábært! Dugnaður í fólki við að draga úr notkun plastpoka.
Las einnig frétt þar sem kemur fram að Stykkishólmur sé að ná því að verða fyrsta plastpokalausa sveitarfélagið á Íslandi og ég óska þeim til hamingju með það!! Held að við hér ættum að taka hólmara til fyrirmyndar og hætta með plastpoka í verslunum á staðnum.
Mætti í Listasafn Svavars Guðnasonar kl.16 og fylgdist með afhendingu Umhverfisviðurkenninga sveitarfélagsins. Óska þeim sem urðu fyrir valinu í ár til hamingju með viðurkenninguna.
Síðan skelltum við Friðrik Björn okkur í göngu með starfsmönnum Náttúrustofu Suðausturlands og fleiri hornfirðingum um Náttúrustíginn og fengum fræðslu um sólkerfis líkanið á göngunni. Frábært veður góð og skemmtileg fræðsla. Takk fyrir það!
Náttúrulega góður dagur :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.9.2014 | 20:53
Áskorun vegna búsetuskilyrða á hjúkrunardeildinni!
Bæjarstjórn Hornarfjarðar sendi frá sér áskorun til stjórnvalda (ríkisins) á síðasta bæjarstjórnarfundi um að bætt verði úr búsetuskilyrðum þar sem aðeins tvö einbýli sem deila saman snyrtingu eru á deildinni. En í dag 14. september eru þrjátíu og einn (31) einstaklingur á deildinni.
Enginn hefur aðgang að prívat salerni. Hvort sem er heimilismaður eða sjúklingur sem liggur inni vegna veikinda!! Er þetta ný staða? Nei ekki hvað varðar húsakost en hvað varðar fjölda innlagðra þá er það vaxandi "vandamál" að þörfin fyrir þjónusu er svo mikil sem hún er í dag.
Það eru alltaf sveiflur í þessu en undanfarnir mánuðir, kannski ár þá hefur ástandið verið frekar slæmt hvað þetta varðar.
Hjúkrunardeildin okkar sem er heimili tuttugu og fjögurra einstaklinga sem ekki geta búið í sjálfstæðri búsetu vegna heilsubrests og oftar en ekki hás aldurs er nefnilega líka sjúkradeild (þrjú rými). Það er því orðinn veruleiki heimilisfólks að það séu iðulega gestir; sjúklingar í rúmum, jafnvel á ganginum og ef það er bara einn þá getur viðkomandi fengið að sofa inná baðherbergi þar sem það er ekki í notkun sem slíkt yfir blánóttina!!
En af hverju er ekki búið að breyta þessu fyrir löngu?
Húsnæðið okkar í dag er tekið í notkun 1996. Ekki fyrir svo ýkja löngu en var kannski bara úrelt stuttu eftir byggingu! Þegar ég hef störf á HSSA í janúar 2002 þá var verið að teikna annan áfanga við deildina. Við vorum að rýna í teikningar og það var stutt í einbýlin góðu! En það leið og beið, tafir urðu á fjármögnun. Ég man eitt árið þá var búið að kæla hvítvínið í ískápnum á heilsugæslunni því að fyrsta skóflustungan var "alveg" að bresta á. En nei ekkert varð af því og hvítvínið var drukkið í svekkelsi!
Á síðasta kjörtímabili var farið af stað aftur og herjað með þunga á heilbrigðisráðuneytið - nú verður eitthvað að gerast. Ráðherrar voru alveg sammála. Skilaboðin voru að við myndum undirbúa okkur og svo finnum við fjármögnunarleið! Farið var í stefnumótunarvinnu, já og nú þurfti að deiliskipuleggja þó alltaf hafi verið gert ráð fyrir stækkun (allavega frá 2002). Gott og vel sú vinna sett af stað og er enn í gangi.
En svo heyrðist í ráðherra, en þið eruð ekki á lista yfir staði þar sem á að byggja upp hjúkrunarheimili og framkvæmdasjóður aldraðra er tómur!!!
Ýmislegt hefur farið á milli sveitarfélagsins og heilbrigðisráðuneytisins á þessum tíma sem gaf fyrirheit um framkvæmdir. Margt hefur áunnist hér heima í undirbúningi sem við búum að. Þess vegna er okkur ekkert að vanbúnaði. Þurfum aðeins grænt ljós frá stóra bróður sem situr við ríkiskassann og brosir. Hefur fullan skilning á ástandinu svo að ég vona að áskoruninni verði tekið og boltinn fari að rúlla. Heimilisfólkinu okkar og sjúklingum til heilla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2014 | 08:34
Grynnslin
Í gær var mjög áhugavert málþing um málefni hafnarinnar og grynnslin. Þar var farið yfir rannsóknir og þær aðgerðir sem farið hefur verið í síðustu áratugi til að tryggja innsiglinguna um Hornafjarðarós og velt vöngum yfir grynnslunum. Farið var yfir þau gögn sem til eru í dag og hugsanleg viðbrögð við sandburði úti á grynnslunum til að reyna að tryggja nægilegt dýpi fyrir skipin sem fara þarna um.
Náttúran lætur ekki að sér hæða og var stórmerkilegt að sjá að mælingar hafa sýnt mikla hreyfingu á sandi þarna úti. Sérfræðingarnir okkar í þessum málum á siglingadeild Vegagerðarinnar eða Samgöngustofu telja að enn þurfi frekari gögn til að hægt sé að finna leið til að bregðast við.
Það kom fram á málþinginu að grynnslin eru takmarkandi þáttur í þróun útgerðar á staðnum. Tekin voru dæmi af því að nýjustu skip íslenska skipaflotans myndu alls ekki henta við þessar aðstæður og gætu jafnvel alls ekki komið að höfn í Hornafirði vegna þess hve djúprist þau eru. Það er skiljanlegt að fyrir útgerðina hér er þetta mikið áhyggjuefni og okkur sem hér búum því hvað sem öðru líður þá er útgerðin og fiskvinnslan grunnþáttur í atvinnulífi Hornafjarðar.
Það er því eitt af verkefnum okkar sveitarstjórnarmanna að tryggja að rannsóknum verði haldið áfram og þær efldar þannig að hægt sé að vinna að og fara í ráðstafanir sem tryggja aukið dýpi á grynnslunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2014 | 15:18
Af hverju?
Yndislegt veður á Höfn í dag. Frábært til að slappa af, gera fellihýsið klárt fyrir vetrargeymslu, slappa af fá sér göngutúr og þvo þvotta :)
Skundaði út á íþróttasvæði fyrr í dag og naut mín ein á tartaninu. Enginn sem ég flæktist fyrir eða flæktist fyrir mér. Tók nokkrar teygjur eftir rusli á leiðinni þangað, það voru aðallega plastglös frá Viking sem einhverjir hafa misst á næturröltinu og eitthvað bréfarusl í bland. Allt í góðu með það, bara góð hreyfing.
En þar sem ég gekk og skokkaði til skiptis á tartanbrautinni fór ég að horfa í kringum mig og rifja upp umræðu síðustu vikna um umgengni í bænum og þó aðallega um íþróttasvæðið okkar. Þá fór ég að velta því fyrir mér af hverju það væru tyggjóklessur í tartaninu? Það er ekki gott að hlaupa með tyggjó - maður getur bitið í tunguna á sér! Varla skyrpir fólk því þá út úr sér og stígur svo á það, eða hvað? Af hverju ætli hafi verið kveikt í ruslatunnunni sem var við gámana sem hýsa geymslu og wc á svæðinu?
En það skýrir kannski hvers vegna þó nokkuð er af rusli þarna í kring! Þar sem ég var að spá í þetta og orðin nokkuð þreytt á göngu/skokkinu þá datt mér í hug að kíkja inní Báru.
Það var enginn á staðnum en eins og húsið hafi verið rýmt í miklum flýti. Föt á víð og dreif nálægt inngangnum (hef þó séð meira af fötum þar en í þetta sinn). Það mátti sjá nokkuð af smárusli sem að flóttamennirnir hafa haft í hödunum þegar húsið var rýmt og misst í flýtinum. Svo að ég fékk mér göngu og týndi upp rusl og setti í ruslatunnurnar sem eru í húsinu.
Mér til mikillar ánægju var önnur þeirra næstum full! Já til ánægju því það sýnir að það er hellingur af fólki/krökkum sem notar ruslaföturnar og vil ég hrósa þeim fyrir það :)
Hins vegar þá hefur liðið yfir eitt ljósið við innganginn og vonandi verður það laga hið snarasta.
Mörg önnur málefni og spurningar þutu í gegnum hugann þennan tíma en ég ætla ekki að orðlengja þennan pistil frekar nema með einni spurningu til þín lesandi góður.
Af hverju göngum VIÐ ekki betur um en raun ber vitni?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2014 | 15:03
Hvernig gengur að flokka ruslið?
Hornfirðingum gengur ekki alveg nógu vel samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk hjá Birgi Árnasyni verkstjóra Áhaldahússins fyrir skemmstu.
Vandamálið virðist vera að pokar af heimilissorpi hafa verið að flækjast með og það er auðvitað alls ekki nógu gott. Öll mengun í farminum sem sendur er austur til flokkunar getur skemmt út frá sér svo að vinna þeirra sem flokka rétt spillist við það.
Einnig er mjög mikilvægt að umbúðir sem fara í flokkunartunnuna séu hreinar!! Því að það segir sig nú sjálft að súrmjólkurferna með úldnum leifum af súrmjólk á sér ekki framhaldslíf... Eða jógúrtdollan sem ekki hefur verið þvegin og þurrkuð!
Áleggsbréf eru því mikður ekki tæk í endurvinnslu þar sem of blandað efni er í þeim skilst mér og frauðbakkarnir undan kjúklingnum eða ódýru eplunum úr Nettó nýtast heldur ekki áfram.
Því verða þessar umbúðir enn sem komið er að fara í almennt sorp og svo er auðvitað alltaf möguleiki að sneiða hjá vörunum í frauðbökkum og velja vöru sem er í umbúðum sem eru endurvinnsluhæf eða án umbúða sé það í boði :)
Mig langar líka að benda fólki á að kíkja á myndbandið um ruslaflokkunina sem er á umhverfissíðu sveitarfélagsins www.hornafjordur.is UMHVERFISMÁL.
Svo hvet ég íbúa sveitarfélagsins og starfsmenn fyrirtækja til að vanda sig aðeins betur svo að við náum sem bestum árangri í flokkuninni og urðun sorps minnki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2014 | 13:35
Eru göngustígar akvegir?
Velti þessari spurningu fyrir mér þessa dagana þar sem ég frétti að nokkuð algengt væri að sjá bíla á ferð eftir göngustígunum. Það fyrsta sem mér datt þá í hug var að þetta væri unglingar að fíflast eða villtir ferðamenn! En nei ekki endilega var svarið. Þetta eru líka bæjarbúar sem eru þá væntanlega að "stytta" sér leið milli staða!!
Þá varð ég nú ennþá meira undrandi. Ég ætla nú ekki að fara yfir allt það sem fór í gegnum huga minn en hluti af því tengdist slysahættu, vanvirðingu og ýmsu öðru!
Síðustu ár hefur sveitarfélagið unnið að lagningu göngustíga sem við fáum mikið hrós fyrir jafnt frá heimafólki og gestum. Mikil umferð gangandi, hjólandi og hlaupandi einstaklinga er um þessa stíga.
Ég vil því hvetja þá sem hafa verið að "stelast" til að aka eftir þeim til að láta af þeirri iðju annars getum við átt það á hættu að það fari að vera norm að það sé allt í lagi. Presónulega finnst mér að það eigi ekki að þurfa að koma upp vegatálmum við allar hugsanlega leiðir þar sem hægt er að fara inná stígana til að hafa vit fyrir fólki. Því starfsmenn bæjarins þurfa að geta nýtt þessar leiðir til umhirðu og viðhalds.
Hornfirðingar sýnum gott fordæmi, nýtum göngustígana ekki fyrir bílana okkar. Göngum, hlaupum og hjólum frekar eftir þeim :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2014 | 18:09
Rafræn stjórnsýsla!
Nú rúllar skemmtilega grænn rammi á Skjávarpi Hátíðni sem segir "Rafræn stjórnsýsla hjá Sveitarfélaginu Hornafirði". Þessi rammi vekur með mér væntingar til þess að nú sé íbúagátt hornfirðinga að verða tilbúin til notkunar :)
Síðustu ár hefur verið unnið markvisst að því hjá sveitarfélaginu að draga úr pappírsnotkun og póstsendingum. Þess í stað hefur áhersla verið lög á að nýta rafrænt form t.d. varðandi nefndir og ráð sveitarfélagsins. Nú heyrir til undantekninga ef fundargögn eru prentuð út og send með pósti (Íslandspósti).
Næsta skref sem stefnt hefur verið að er svokölluð íbúagátt þar sem hægt er að sækja um þjónustu og senda inn erindi rafrænt í gegnum skjalastjórnunarkerfið sem sveitarfélagið nýtir.
Þessi tilkynning eða frekar fullyrðing sem rúllar á Skjávarpinu hlýtur því að vera merki þess að allt sé að verða tilbúið til notkunar. Tæknin hefur verið til en stundum tekur tíma að fá allt til að virka saman og að tæknimenn stilli saman þessa strengi :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)