Færsluflokkur: Bloggar
18.1.2015 | 21:03
Sorpmál......
Las mjög áhugaverða samantekt frá Sorpu í dag sem birt var í Morgunblaðinu á föstudaginn 16. janúar. Þar var verið að fara yfir hve miklu sorpi Sorpa hafi tekið við á síðasta ári og reiknuðu þeir út að það hefði verið 179 kg af rusli á hvern og einn íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Greinin er að mínu mati mjög skemmtileg og sýnir vel hvernig þessi mál eru að þróast.
Merkilegt þótti mér að drykkjarumbúðir fyrir 200 milljónir fóru í ruslið! En þetta voru skilagjaldsskyldar umbúðir sem fólk henti í ruslið. Umhugsunarefni það! En þumalputtareglan er sú að ef þú getur drukkið drykkinn beint úr umbúðunum er skilagjald á þeim, 14 kr per einingu. Um að gera að passa þessi verðmæti.
Sorpmál hér í Sveitarfélaginu Hornafirði hafa verið mikið í umræðunni og sitt sýnist hverjum. Þó held ég nú að þorri íbúa sé sáttur við að flokka sorp og sýna þannig umhverfisvernd í verki. Þó hefur gengið brösulega að flokka rétt! Hafa ýmsar tillögur um úrbætur verið nefndar.
Ein er sú að starfsmaður þjónustumiðstöðvar fari með ruslabílnum þegar flokkunartunnur eru tæmdar, kíkt sé í þær og ef heimilissorp sé í tunnum þá séu þær hreinlega ekki tæmdar eða tunnan fjarlægð þar sem heimilissorp spillir endurvinnslufarminum.
Einnig hefur komið upp í umræðuna að hætta með endurvinnslutunnuna og fara aftur til tíma grenndarstöðva og að skila í þjónustumiðstöð eða að íbúar hafi val um endurvinnslutunnu eða að skila í þjónustumiðstöð.
Ég er hrædd um að ef endurvinnslutunnan verði val þá muni þeim fækka sem flokka sorpið þó einhverjir muni velja að sleppa tunnunni og fara sjálfir með endurvinnsluefnið eins og var fyrir tíma tunnunar. Ég held að það sé betra að vera þolinmóð og reyna að styðja betur við íbúa í flokkuninni.
Það hefur komið til tals hjá ákveðnum hóp að opna "flokkunar leiðbeiningasíðu" á facebook. Þar sem íbúar geta spurt hvort þessar eða hinar umbúðir megi fara í tunnuna og stjórnendur síðunar eða aðrir sem þekkja til geti gefið leiðbeiningar.
Gallinn er að þó farið sé að flokka í miklu mæli út um allt land þá er misjafnt eftir sveitarfélögum hvernig framkvæmdin er þannig að ekki er hægt að hafa eina leiðbeiningasíðu fyrir landið!
En það var rætt utan dagskrár í bæjarráði um daginn að skoða tölurnar hjá okkur um urðun á heimilissorpi hvernig magnþróunin hefur verið og væri gaman að sjá það upp sett á svipaðan hátt og þau gera hjá Sorpu í mogganum!!
Gaman væri að fá skoðun ykkar sem þetta lesið á því hvernig hægt er að gera betur!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.1.2015 | 08:17
Hvað er að frétta?
Allt ágætt að frétta í byrjun árs. Bæjarstjórnarfundur og síðasti fundur umhverfis- og skipulagsnefndar í síðustu viku og bæjarráð í gær. Allar fundargerðir á vef sveitarfélagsins www.hornafjordur.is/stjornsysla og nú er íbúagáttin loksins komin i loftið. En þar geta áhugsamir um störf bæjarstjórnar og nefnda orðið áskrifendur að þeim fundargerðum sem þeir kjósa. Auk þess að öll umsóknareyðublöð eru þar saman komin og hægt er að fylgjast með ferli máls eða umsóknar sem maður á inni hjá bænum.
Ég fór inná íbúagáttina með mínu rafræna skilríki í gegnum farsímann en einnig er hægt að sækja um Íslykil sem aðgang að síðunni. Þar eru leiðbeiningar um hvernig maður nálgast Íslykilinn.
Það var góður gestur á Höfn í gær. Hún Silja Dögg Gunnarsdóttir 3. þingmaður okkar í Suðurkjördæmi. Ég fór með henni á fundi framkvæmdastjóra HSu Hornafirði hennar Matthildar, bæjarráðs og bæjarstjóra. Svo hittum við bæjarfulltrúa framsóknar og stjórn félagsins í gærkvöldi. Það var mjög gott að geta farið vel yfir málefni sveitarfélagsins með henni og hnekkt vel á þeim málefnum sem brenna á okkur.
Þar má helst telja rannsóknir á Grynnslunun, nýtt hjúkrunarheimili, veginn yfir Hornafjarðarfljót svo eitthvað sé nefnt. Silja hefur verið dugleg að vera í tengslum við okkur hornfirðinga og skrifar annað slagið greinar til að upplýsa íbúa í kjördæminu um það sem er verið að vinna að á þingi. Núna 8. janúar var birt grein eftir hana í Sunnlenska sem hún kallar "Það er kominn tími til að tengja" og fjallar þar um fjarskipta- og samgöngumál í Suðurkjördæmi.
Ég hvet fólk til þess að lesa greinina og kynna sér hvað verið er að gera í þessum málum og hvað er framundan. Ég hef einnig deilt greininni á Facebook þar sem ekki eru lengur birtar greinar, blogg eða linkar á fréttir á samfélagsvef sveitarfélagsins og Eystrahorn tekur ekki við innsendum greinum.
Annars er verið að ræða geymslumál Hornafjarðarsafna. Hvort ráðlegt sé að festa kaup á gömlu Mjólkurstöðinni og flytja þangað alfarið geymslur safnanna. Það er ágæt hugmynd en verið að huga að því hvaða áhrif það hefur á fjárhag sveitarfélagsins. Ekki var gert ráð fyrir kaupum á því húsi eða nauðsynlegum endurbótum á því ef til kaupa kemur í fjárhagsáætlun sem var samþykkt fyrir rúmum mánuði síðan. En ótvírætt er að þörf er á auknu og betra rými undir safnakostinn okkar.
Einnig getur núverandi húsnæði að Álaleiru sem hýsir líka Matarsmiðjuna nýst vel fyrir aðrar stofnanir sveitarfélagsins þar sem geymsluhúsnæði er mjög af skornum skammti.
Þetta er nú það helsta sem mér kemur í hug í morgunsárið. Eigið góðan dag :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2014 | 18:03
Uppgjör!
Nú skal litið um farinn veg og árið 2014 gert upp!!
Hvort skal þá einbeita sér að mönnum eða málefnum? Það er stóra spurningin. Ef marka má vefmiðlana þar sem maður (ég) eyði mestum af mínum rafræna vef tíma þá er ekki spurning að hjólað skal í manninn. Þannig upplifi ég allavega mjög oft stemminguna þar. En sem betur fer, að mínu mati þá finnst mér það ekki smekklegt og mun ekki leggjast á það plan.
Einnig gæti ég tekið fyrir helstu málefni sem mér finnst standa uppúr á árinu og krufið þau. En fyrir valinu verður að tæpa aðeins á þeim verkefnum og tækifærum sem mér hafa hlotnast á líðandi ári og horfa til framtíðar.
Á sama tíma fyrir ári síðan var ég bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Það var nú aldeils gaman. Skemmtilegt og vandasamt verkefni sem mér leið bara nokkuð vel í. Í því starfi fékk ég nýja sýn á málefnin sem ég hafði unnið að í bæjarstjórn frá árinu 2010. Kynntist samstarfsfólki mínu í þeim málaflokki frá nýrri hlið og ekki síst íbúum sveitarfélagsins sem voru duglegir að koma við og hafa samband vegna ýmissra og ólíkra málefna. Það er mjög ánægjulegt að hafa fengið að kynnast þessu starfi og mun ég búa að þeirri reynslu um ókomna tíð.
Á vormánuðum voru svo sveitarstjórnarkosningar og var mikið að gera í aðdragenda þeirra. Annasamur, skemmtilegur og krefjandi tími þar sem unnið var með góðu og öflugu fólki. Í maí var mikið um flandur og fundi. Heimsóknir í fyrirtæki, fundir og rúntað um dreifbýlið að hitta mann og annan. Niðurstöður kosninganna voru þó ekki alveg eins og ég hefði viljað hafa þær en hvað um það!
Í sumar fékk ég svo tækifæri til að vera mikið með börnunum mínum og barnabarni sem var kærkomið og yndislegt. Nú skyldi kúrsinn stilltur uppá nýtt, dregið úr vinnuálagi og verkefnum endurraðað.
Í haust tók svo við nýtt tímabil þar sem ég kom inná minn gamla vinnustað, hjúkrunardeild HSSA sem óbreyttur hjúkrunarfræðingur í hlutastarfi. Mikið svakalega var það nú gott. Þó ég hafi verið mjög sátt og ánægð í starfi sem hjúkrunarstjóri árin á undan þá var kominn tími til að vera "ábyrgðarlaus". Það var gott að geta farið í sitt vaktafrí og þurfa ekkert að pæla í því hvernig hlutirnir gengju á meðan á því stóð, labba bara út og það eru aðrir sem redda því sem redda þarf. Enda kemur alltaf maður í manns stað og frábært fólk sem ég vinn með.
Bæjarmálin hafa svo einhverra hluta vegna fyllt ansi vel uppí mikinn hluta þess frítíma sem ég sá fyrir mér að eiga sem "ábyrgðarlaus" hjúkrunarfræðingur (þ.e. ekki í stjórnunarstöðu) og bæjarfulltrúi í minnihluta! Svo hefur mér einhvern veginn tekist að finna mér ýmis önnur verkefni þannig að markmiðið að draga úr vinnuálagi hefur bara ekki tekist. En það hefur breyst!
Ég tók til dæmis að mér að sitja í stjórn Vestnorræna lánasjóðsins fyrir íslands hönd, hef verið að kenna/leiðbeina aðeins á námskeiðum. Sótt fjölmargar ráðstefnur og fundi svo eitthvað sé týnt til!!
Á tímabili datt mér í hug að fara í meira nám. Ekki bara í haust heldur aftur nú um áramótin! En sem betur fer er ég ekki búin að senda inn umsóknir og ef ég geri það þá er ég vonandi of sein því að ég held að áramótaheitið verði pottþétt - að raða uppá nýtt og reyna að finna lausan tíma til að gera allt það sem ég sá fram á að ég myndi hafa tíma til að gera sl. vor þegar ég hætti að vera bæði bæjarstjóri og hjúkrunarstjóri!
En þetta er uppgjör á árinu 2014. Árið var á heildina litið mjög gott ár í mínu lífi. Fullt af krefjandi, skemmtilegum og vandasömum verkefnum og tækifærum.
Ég hef gert mitt besta til að standa mig vel i þeim verkefnum sem mér hafa verið falin og mun hafa það áfram að leiðarljósi í því sem við tekur í ókominni framtíð.
Gleðilega hátíð gott fólk, kærar þakkir fyrir samstarfið og samfylgdina á árinu sem er að líða og farsælt, gleðilegt og gjöfult 2015!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2014 | 22:52
Frábærir tónleikar!
Takk fyrir mig hornfirskt söng- og tónlistarfólk! Tónleikarnir í Hafnarkirkju núna í kvöld voru alveg hreint dásamlegir. Skemmtileg blanda þar sem hver og einn kór naut sín mjög vel. Svo fannst mér frábært hve Barnakórinn og Samkórinn voru flottir saman!
Því tek ég undir með honum Gauta Árnasyni að við getum verið stolt af kórunum okkar og flottu hljóðfæraleikurunum sem léku með þeim.
Ágóði tónleikanna rann til Samfélagssjóðsins sem hefur fest sig í sessi í samfélaginu okkar og er gott að vita til þess að sjóðurinn nýtur velvildar og hægt er að styðja við þá sem á þurfa að halda.
Rúsínan í pylsuendanum er svo gjöf Hirðingjanna til Hafnarkirkju. Fjögurhundruð þúsund krónur, alveg frábært! Ég dáist að þessum flottu konum sem standa fyrir hirðingjunum og þá á hún Elísabet Einarsdóttir að öllum öðrum ólöstuðum aðdáun mína fyrir sitt óeigingjarna framlag.
Hornfirðingar hafa tekið vel á móti þessari starfsemi því ekki væri neitt að gefa nema vegna þess að við gefum og kaupum!! og með því búum við til veltu sem rennur til góðra málefna í samfélaginu :) ÆÐI!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2014 | 18:18
Lyfta í Sindrabæ og vangaveltur um húsnæðismál
Loksins, loksins veit ég að einhverjir segja og tek ég undir það. Sérstaklega vegna þess að verkið var á framkvæmdaáætlun ársins en fallið hafði verið frá því í sumar þar sem tilboð sem bárust í verkið voru langt yfir kostnaðaráætlun. Einnig var talið best að vinna verkið í sumarlokun Tónskólans en nýtt tilboð barst nú í desember og hefur skólinn og bæjarráð samþykkt að fara í verkið í jólaleyfinu þrátt fyrir rask sem hlýst af framkvæmdunum.
Undanfarið hef ég verið að velta fyrir mér húsnæðismálum í sveitarfélaginu. Mikil uppbygging hefur orðið í dreifbýlinu í ferðaþjónustunni og þar með aukning á gistirými. Skortur hefur verið á því í sýslunni undanfarin ár og verður vonandi góð nýting á þeirri fjárfestingu sem farið hefur verið í.
Hér á Höfn verður líka aukning fyrir næsta vor og veltir maður fyrir sér hvernig þróunin verður. Þá læðast að manni áhyggjum um framboð á húsnæði til almennrar leigu eða kaups fyrir þá sem vilja búa a svæðinu.
Gott framboð er af lóðum fyrir íbúðarhúsnæði a.m.k. á leirunni og hvet ég fólk til að skoða þann möguleika að fara í húsbyggingar. Hér á leirunni er alveg ljómandi gott að búa.
Ég velti því upp á síðasta bæjarráðsfundi hvort við þurfum ekki að fara að skoða hvernig við, sveitarfélagið getum hvatt til framkvæmda með einhverjum hætti. Margar leiðir eru til og hafa víða reynst vel s.s. frestun eða niðurfelling á gatnagerðargjaldi eða annað slíkt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2014 | 13:29
Samvinna
Undafarna daga hefur þetta frabæra hugtak SAMVINNA verið mér nokkuð hugleikið.
Í bæjarmálunum eins og í heilbrigðisþjónustu þeim sviðum sem ég er að vinna á næstum uppá hvern einasta dag finnst mér að samvinna eigi að vera rauður þráður í gegnum allt. En til að vera heill í samvinnu við annað fólk með ólíkar skoðanir þarf að ríkja traust og gera málamiðlanir.
Undanfarið hefur verið unnið að fjárhagsáætlun fyrir sveitarfélagið og hefur samvinna þar um verið nokkuð góð. Þarna eru bæjarfulltrúar með misjafnar skoðanir á nokkrum málum en heildarsýn okkar er nokkuð samhljóma. Fjárhagsáætlun var samþykkt samhljóma í bæjarstjórn á laugardaginn var sem undirstrikar að allir bæjarfulltrúar eru tilbúnir til samvinnu og málamiðlanna. Þó ekki sé allt eftir manns höfði þá erum við sterkari eining í samvinnu en sundrung.
Málefni lögreglunnar á Höfn hafa verið í umræðunni víða frá því á fimmtudaginn. Þar var kominn ákveðinn vinnuflötur sem gaf væntingar um breytingar á skipan lögreglumála hér. Að lögreglustjóri Hornafjarðar yrði á suðurlandi en ekki austurlandi eins og verið hefur frá 2007. Fallið er frá þeim plönum í útgefinni reglugerð og kom það okkur hér mjög á óvart enda hafði ekkier samtal átt sér stað um þessa ákvörðun. Bæjarstjórn hefur óskar eftir því að þessi ákvörðun verði endurskoðuð.
Þá kemur Jökulsárlón upp í hugann. Sveitarfélagið hefur um árabil reynt að fá landeigendur til að vinna saman að uppbyggingu þar eða sýna samstarfsvilja til þess að hægt sé að bæta aðstöðu við lónið. Það hefur gengið illa og hefur nú tilkynnt að jörðin verði seld á uppboði í mars nk. þar sem jörðin er óskiptanleg og samvinna næst ekki meðal landeigenda!
Það er gott að mæta á vaktina þegar allir eru tilbúnir til að vinna saman sem einn maður. Allt gengur upp og teymið allt og skjólstæðingar eru glaðir og sáttir. Þannig er það nú lang oftast enda frábært teymi sem ég tilheyri :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2014 | 13:34
Leti eða hvað?
Jæja, ég hef nú verið eitthvað löt að skrifa hér inn undanfarið! En einhvernvegin þá virðist alltaf vera nóg að gera og eitt og annað eins og bloggið verður útundan.
Bæjarstjórn fundar á óvenjulegum tíma nú í desember. Fundurinn verður á morgun laugardag 6. des vegna bilunar í tölvukerfi sveitarfélagsins. Ekki var hægt að halda fundinn sl. fimmtudag vegna þess.Mjög hvimleitt að tölvukerfið hreinlega hrinji og liggi niðri í nokkra sólarhringa. En það minnir okkur á hve háð við erum orðin tölvutækninni sem léttir okkur oft lífið en getur líka sett það á annan endann.
Á morgun verður seinni umræða um fjárhagsáætlun 2015, 3ja ára áætlun, samþykktir sveitarfélagsins, siðareglur kjörinna fulltrúa og fleira á dagskrá.
Áhugasamir geta fylgst með fundinum í Svavarssafni þar sem um opinn fund er að ræða eða á Skjávarpi þar sem fundurinn er venjulega sýndur samdægurs kl.20. Svo verður fundargerð að vanda aðgengileg á stjórnsýsluvef sveitarfélagsins.
Jólaandinn er kominn í hús, rauk inn með rokinu um síðustu helgi. Búið að baka og hnoða deig sem býður baksturs. Jólaskraut og jólaljós komin upp. En næg verkefni framundan eins og vera ber sem hafa ekkert með jól að gera.
Góðar stundir!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2014 | 13:05
Pirringur!!
Ég er svo pirruð ýfir ýmsum hlutum í dag. Ég er pirruð yfir því að læknar séu í verkfalli, ég er pirruð á því að tónlistarskólakennarar séu í verkfalli. Ég er pirruð yfir umræðunni í dag. Hver er mikilvægari en annar. Öll miðum við okkur við einhvern eða eitthvað og hvað er sanngjarnt og hvað ekki!!!
Ég er pirruð yfir því að ráðherra þurfi að skipta um bil akkúrat þegar það er verið að skera niður í stjórnarráðinu. Þó að bíllinn sé orðinn gamall þá verð ég pirruð!
Ég er pirruð yfir stöðu heilbrigðismála. Jú það þarf nýjan Landspítala, nýrri tæki og hærri laun. Jafnvel fleira fólk. En það þarf líka nýtt hjúkrunarheimili á Höfn og víðar, launin eru ekki samkeppnisfær og mönnun þyrfti að vera meiri.
Það er ömurlegt að bjóða fólki uppá að eiga heima í örfáum fermetrum með öðrum einstaklingi, jafnvel í nokkur ár. Sambýlingur fellur svo kannski frá og þá hellist yfir fólk kvíði, hver kemur í staðinn??
En ég gleðst yfir því að það rignir ekki ennþá. Yndislegt að geta litið upp og horft til fallegu fjallanna og jöklanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2014 | 13:20
Lev og Bo
Haustfundur HSSA (sem er nú HSu á Höfn) var haldinn í gær og var bara nokkuð góð mæting starfsmanna á fundinn. Dagskráin var nokkuð hefðbundin nema að skemmtileg nýbreytni var í lok fundar.
Hópavinna fundarmanna varðandi innleiðingu Lev & Bo hugmyndafræðinnar á legudeildir stofnunarinnar. Fimm hópar fóru yfir fyrirfram undirbúnar spurningar sem lutu allar að þáttum innleiðingar. Okkur var falið að forgangsraða verkefnum og koma með hugmyndir að því hvernig væri hægt að gera breytingar á starfseminni í anda hugmyndafræðinnar. Síðan kynnti fulltrúi hvers hóps niðurstöður hans.
Í stuttu máli snýst hugmyndafræðin um að hjúkrunarheimili eru heimili íbúa og að við starfsmenn vinnum á heimili þeirra en ekki að þau búi á okkar vinnustað. Lykilhugtök eru virðing fyrir sjálfstæði og sjálfsákvörðunarréttur íbúans.
Það getur verið erfitt að brjótast út úr rútínum sem hafa verið við lýði um langann tíma. En á síðustu árum hafa verið tekin mörg skref í þessa átt til að bæta lífsgæði íbúa og hefur það einnig haft góð áhrif á starfsmenn.
Þetta er spennandi verkefni sem mun krefjast samvinnu okkar starfsmanna, stjórnenda, íbúa og aðstandenda þeirra. Meira af því síðar :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2014 | 22:06
Nýjasta nýtt!
Heimsótti Heimaþjónustudeild Hornafjarðar í gær með félögum úr bæjarráði og bæjarstjórn. Bryndís gæða- og upplýsingastjóri var einnig með í för og myndaði hún hersinguna í heimsókninni. Það er alltaf gott og vinalegt að koma í dagvistina í Sjallanum. Andrúmsloftið gott og vel hugsað um þá sem þangað sækja þjónustu. Fórum líka á Silfurbrautina en ég hafði ekki komið í nýja starfsmannaaðstöðu sem tekin var í notkun í sumar áður. Deildin vex og dafnar en aðstaðan hefur staðið í stað. Nú er svo komið að við erum öll að hugsa hvernig bregðast megi við þeirri þróun. Hvernig bæta megi aðstöðu og gera starfseminni kleift að dafna áfram.
Sveitarfélagið hefur verið með málefni fatlaðra á sinni könnu í hátt á annan áratug fyrst með þjónustusamningi við ríkið og svo sem sérstakt þjónustusvæði á undanþágu frá 8000 íbúa viðmiði frá almennri yfirfærslu málaflokksins árið 2011. Heilt tekið hefur framkvæmdin gengið vel og er það ósk mín og annarra í bæjarstjórn að við höldum undanþágunni sem við höfum áfram en nú er verið að meta hvernig til hefur tekist með yfirfærslu málaflokksins í heild til sveitarfélaganna og eru undanþágurnar metnar samhliða.
Síðasta fimmtudag var fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 kynnt í bæjarstjórn og fyrri umræða fór fram. Almennar forsendur hennar vel ásættanlegar en mér sýnist að einhverjar breytingar verði gerðar milli umræðna. Framkvæmdaáætlun var t.d. rædd í bæjarráði í gær og svo eru mörg tækifæri og verkefni framundan sem þarf að skoða hvort hægt sé að styðja við og fara í.
Eitt er víst að tækifærin á Hornafirði eru mörg. Eystrahorn vikunnar er komið á vefinn með atvinnuauglýsingum, viðburðum og skemmtilegheitum. Kíkið á það og njótið þess að búa í góðu og öflugu samfélagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)