Færsluflokkur: Bloggar

Heilbrigðisþjónusta

Á Landspítalinn að vera við Hringbraut eða ekki? Við höfum skiptar skoðanir á því og færa má rök fyrir hvoru tveggja. Ég tel hins vegar að eins og staðan er í dag þarf að byggja upp þjónustuna við Hringbraut og hugsa á sama tíma 30 ár fram í tímann. Hvar er best að næsta uppbygging fari fram þannig að tryggt sé að allir landsmenn hafi aðgang að þjóðarspítalanum! 

Við íslendingar sofnuðum á verðinum. Það þarf að vera í stöðurgi þróun, uppbyggingu og framtíðarplönum í heilbrigðisþjónustu líkt og öðru. Við settum allt á frost og í því felst vandi okkar í dag, það má ekki gerast aftur!

Gleymum því svo ekki að uppbygging og framtíðarhugsun þarf að vera í gangi gagnvart heilbrigðisþjónustu um allt land. Þó svo Landspítalinn sé hryggjarstykkið í þessu öllu þá þarf hann stuðning minni eininga og já, mun minni eininga. 

Sjúkrahúsin og sjúkrarýmin sem rekin eru út um allt land þurfa að vera í stakk búin til að taka við fólki frá LSH til að tryggja flæði þar í gegn. Fólk utan af landi vill frekar fá sína framhaldsmeðferð í heimabyggð nálægt sínum nánustu frekar en í höfuðborginni þó svo það fái inni á sjúkrahóteli sem að auki skapar meiri kostnað.

Heilbrigðistofnanir eru reknar með rekstarhalla sem þeim er gert að laga með hagræðingu! Það skýtur skökku við að þessar stofnanir skuli ekki fá fjármagn sem þarf til að reka sína þjónustu. Gott og vel gera þarf kröfu um hagkvæman og góða rekstur en hitt er mér ómögulegt að skilja að aukið álag í bráðaþjónustu svo sem sjúkraflutningum þurfi að greiða með fækkun stöðugilda og niðurskurði!

Á suðurlandi þar sem ég þekki best til hefur umfang ferðaþjónustu stóraukist á síðustu árum. Þessi mikli fjöldi ferðamanna hefur einnig orðið til mikillar fjölgunar slysa og því tengdu sjúkraflutninga. Kostnaður við þann málaflokk hefur stóraukist en tekjurnar ekki að sama skapi. Vegalengdir eru langar, viðbragð þarf að vera gott og öflugt en það kostar. 

Við þurfum að horfast í augu við það! Endurskoða fjármögnun til málaflokksins, setja peningana þangað sem þeirra er þörf og það er víða. Í grunninn erum við flest stolt af góðri og öflugri heilbrigðisþjónustu og verðum að láta málaflokkkinn njóta þess í fjárframlgögum og stuðningi!


Sjávarútvegur

Ég var að koma úr heimsókn frá Skinney-Þinganes hf. Þar sem var verið að sýna og kynna starfsemina fyrir bæjarfulltrúum og starfsmanni sveitarfélagsins. Það eru nokkur ár síðan ég fór síðast í heimsókn í vinnsluna og fékk leiðsögn þar í gegn. 

Mér finnst nú bara nokkur ár frá því ég vann í Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal en mikið svakalega hefur margt breyst í fiskvinnslu frá þeim tíma. Frábært að sjá samspil tækni og starfsfólks og virðinguna fyrir hráefninu sem viðhöfð er í dag.

Ekki það að það hafi ekki verið á sínum tíma þegar ég 13-15 ára vann í fiski. En í minningunni hafði ég ekki vit á því að gera mér grein fyrir því hvaða verðmæti maður var með í höndunum. En margt hefur breyst síðan þá.

Sjávarútvegurinn er mjög mikilvægur okkur íslendingum og að mínu viti eigum við að fara varlega í kúvendingar í kringum hann. Eins og við höfum rekið okkur á undanfarin ár þá eru fiskistofnar og markaðir viðkvæmir. Aflabrestur og lækkað afurðarverð geta haft mikil áhrif ekki síst á rekstur minni fyrirtækja og útgerða.

Hér á Höfn er Ósinn lífæðin. Leiðin í gegnum Grynnslin hefur verið okkur erfið og er búið að vera að rannsaka aðstæður þar mjög lengi. Nú þarf að fara að ráðast í aðgerðir til að tryggja það að öflugur sjávarútvegur fái að halda áfram að vaxa og dafna samfélginu til heilla.


Fjarskipti og ýmislegt þeim tengt!

Íslendingar eru í góðu fjarskiptasambandi við hvorn annan og umheiminn alla jafna. Ég er nú rétt 47 ára gömul og ólst upp með skífusíma og meira að segja TELEFAXI! Ótrúlegt en satt!

Núna árið 2016 heldur fólk að maður geti verið næstum allstaðar í símasambandi 3G og 4G auglýst ná til næstum allra landsmanna! Já það er þetta á næstum öll heimili á landinu sem er vandinn. Það er nefnilega talsvert af heimilum í dreifbýli sem hafa alls ekki viðunandi farsímasamband eða jafnvel ekkert. 

Ég tel það ekki farsímasamband að þurfa að vera á ákveðnum stað í húsinu eða úti og uppá hól til að ná sambandi. 

Farsímakerfið er nú og á mörgum stöðum fyrir löngu farið að virka sem öryggisventill. Útköll björgunarsveita, lækna, hjúkrunarfræðinga og mun fleiri aðila eru send út í gegnum sms. Viðvaranir um náttúruvá á að senda til fólks í gegnum sms. En það eru alltof margir staðir sem eru án sambands og þá er ég ekki að tala um hálendið eða staði utan alfararleiðar. Heldur á og við þjóðveg eitt og víða til sveita í frístundabyggð og svo er einn og einn dauður pollur víða í þéttbýli.

Þetta er eitt af því sem við þurfum að laga.

Fyrir tveimur árum vorum við hjónin á leið í sjónvarpsverslun að velja sjónvarp sem fara átti í sumarbústað foreldra minna í Bláskógabyggð. Maðurinn minn hafði samband við aðila hjá vodafone til að forvitnast um það hvort það væri sent út stafrænt merki á því svæði þar sem það var nýkomið í Stafafellsfjöllin í Lóni. Sá sem var til svara varð nú heldur en ekki hissa á spurningunni, því að á þessu svæði hafði verið sent út stafrænt um 10 árabil og þetta var því fáránleg spurning!!

En því miður er það ekki svo að allir landsmenn sitji við sama borð hvað þetta varðar. Sjálfsagðar tækniuppfærslur skila sér oft seint og illa út á land og í hinar dreifðari byggðir. 

Ég er ekki viss um að þeir sem búa við góð fjarskipti; síma- og netsamband og 3ja fasa rafmagn geri sér grein fyrir því að það er ekki í boði út um allt land!

Þar sem er einfasa rafmagn verður öll þróun og endurnýjun takmörkuð þar sem vélar og tæki á markaði í dag eru almennt 3ja fasa. Persónulega finnst mér óásættanlegt að verið sé að huga að því að selja raforku úr landi þegar við getum ekki boðið öllum heimilum og fyrirtækjum, því hvað eru bærirnir sem stunda landbúnað annað en fyritæki í rekstri 3ja fasa rafmagn!


Hjúkrunarheimili

Málefni íbúa hjúkrunarheimila eru mér hugleikin. Ég gleðst þegar fréttir koma af byggingu nýrra hjúkrunarheimilia og fjölgunar hjúkrunarrýma.

Á sama tíma og ég gleðst yfir þeim fréttum þá verð ég döpur fyrir hönd þeirra sem nú þegar eru á hjúkrunarheimilum eins og því sem ég vinn á, þar sem aðbúnaður er alls ekki eins og best skyldi. Einstaklingur 70-90 ára sem þarf heilsu sinnar vegna að yfirgefa heimili sitt og flytjast á hjúkrunarheimili. Honum er boðið uppá að búa með öðrum í 19m2. Þeir þurfa svo að deila snyrtingu með öðrum íbúum heimilisins en að jafnaði eru 2-4 sem deila snyrtingu á heimilinu þar sem ég vinn. Það eru tvö einbýli til staðar (18m2) og sé maður svo heppinn að hneppa annað tveggja þá deilir viðkomandi salerni með þeim sem býr í hinu einbýlinu. Fjórar sturtur og eitt bað sem þjóna öllum 24 hjúkrunarrýmum og þrem sjúkrarýmum.

Ég hóf störf á þessu heimili 2002 þá var verið að rýna teikningar af næsta áfanga þar sem betri aðstaða yrði en enn bólar ekkert á byggingu! Sveitarstjórnarmenn og stjórnendur stofnunarinnar hafa verið duglegir við að minna á okkur og allt er til reiðu af hendi sveitarfélagsins til þess að hefjast handa en fjármögnun af hendi ríkisins fæst ekki tryggð!

Eitt er það að fá úthlutað sambýling annað að þurfa að fara að heiman, fram á gang eða inná bað ef hann veikist eða jafnvel er deyjandi og gefa þarf ástvinum tækifæri til að vera með sínum nánasta síðustu dagana. Svo þegar sambýlingurinn er látinn þá þarf að raða uppá nýtt, kannski heppinn að fá einhvern inn til þín eða þú ert settur í annað herbergi hjá einhverjum öðrum því það passar betur!

Kannski er enginn af þínu kyni sem þarf pláss hjá þér í bili. Það ætti að vera gott að fá að vera einn, en þá mátt þú eiga von á sjúkrainnlögnum!! Einhver lasinn eða í hvíldarinnlögn sem kemur og er í nokkra daga eða vikur. 

Þetta er gjörsamlega óásættanlegt! Þetta þurfum við að laga hið snarasta. Mér skilst að á Íslandi séu rúmlega 2000 hjúkrunarrými. Getum við ekki gert skurk í þessu og tryggt að öll hjúkrunarrými hvar sem er á landinu séu einbýli! Ákveðinn fjöldi þeirra verði þannig að það sé innangengt í næsta herbergi þannig að hjón geti "búið saman" ef þau eru bæði á hjúkrunarheimilinu.

Þetta á ekki að vera flókið, framkvæmum fyrir fólkið okkar sem hefur byggt upp landið okkar. Komum vel fram við þau og lögum þetta!


Jafnréttismál

Í gær 16. september fékk ég tækifæri til að ávarpa Landsfund um Jafnréttismál undir liðnum "Raddir kvenna í sveitarstjórn - Skiptir kyn máli". Þar töluðum við fjórar konur úr sveitarstjórnum víðsvegar um landið um málefnið frá okkar brjósti.

Það var mjög gaman að því hvað við nálguðumst málið á ólíkan hátt án þess að hafa borið okkur nokkuð saman um efnistök. Ég ákvað að tala úr frá minni reynslu og upplifun.

Í stuttu máli er niðurstaða mín sú að kyn skiptir máli í sveitarstjórn. Mikilvægt er að raddir beggja kynja heyrist en bakgrunnur og reynsluheimur einstaklingsins er líka mjög mikilvægur. Það sem er þó nauðsynlegast í stjórnmálum hvort sem er í sveitarstjórn eða á alþingi er áhuginn og ástríðan fyrir samfélaginu/ landinu þínu hvors kyns sem þú ert.

Fundurinn var mjög góður og ýtti við mér á margan hátt. Ég var að vona að við værum komin lengra en raun ber vitni í jafnréttismálum kynjanna. Rætt var um að jafnréttismálins snúast jú ekki bara um karla og konur heldur svo margt annað líka.

Einn af grunnþáttum menntunar í aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla er Jafnrétti. Við fengum góða brýningu á þeim málum frá Hönnu Björg Vilhjálmsdóttur brautryðjanda í kynjafræðikennslu sem var mjög hressandi.

Fundurinn var haldinn á Akureyri af Akureyrarbæ í samvinnu við Janfréttisstofu sem var með ráðstefnu á fimmtudaginn tengda því að fjörutíu ár eru liðin frá því fyrstu jafnréttislögin voru sett hér á landi. Akureyringar hafa verið að vinna markvisst að jafnréttismálum í nokkur ár og var gaman að fá innsýn í þá vinnu og hugmyndir til að taka með sér heim að vinna úr.

Margt fleira áhugavert var á þessum fundi. Þannig að ég fór heim frá Akureyri með góða brýningu á því að við höfum áorkað ýmsu en það er heilmikil vinna framundan sem ég mun glöð taka þátt í.


Framboð!

Jæja, þá hef ég ákveðið að gefa kost á mér í 3ja sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Val á listann fer fram eftir viku, þann 24. september á tvöföldu kjördæmisþingi á Selfossi.

Þar sem ég er nú komin í framboð þá held ég að það sé tilvalið að dusta rykið af þessari síðu hér og nota hana til að kynna mig og það sem ég tel mig hafa fram að færa.

Það eru þingfulltrúar á kjördæmisþinginu sem raða á listann og auðvitað er mikilvægast fyrir mig að kynna mig vel fyrir þeim. Ég vona að aðrir sem koma á þessa síðu og lesa það sem ég hef fram að færa hafi gaman af. 

Af hverju er ég að þessu? Jú, ég hef starfað sem bæjarfulltrúi í Sveitarfélaginu Hornafirði frá árinu 2010. Auk þess sem bæjarstjóri á tímabili. Ég hef starfað í tengslum við heilbrigðisþjónustuna frá 1989 þegar ég byrjaði sem starfsstúlka á slysó.

Ég er 47 ára gömul kona, eiginkona, móðir, amma, dóttir, barnabarn, tengdadóttir, systir, stjúpdóttir, mágkona, svilkona, vinur, vinnufélagi o.s.fvr.

Á stóra og fjölbreytta fjölskyldu þar sem afi Kalli er elstur 98 ára og Hjörtur Logi ömmustrákurinn minn er yngstur, 3ja ára.

Í lífi mínu og starfi hef ég rekið mig á margt sem ég tel að megi betur fara í okkar samfélagi og því hef ég einnig kynnst í gegnum vini og ættingja. Við erum öll ágæt í því að sitja við eldhúsborðið og eða á kaffistofunni og kvarta. Það dugar skammt og er oft frekar til þess að gera mann enn pirraðari. Akkúrat þetta rak mig til að taka þátt í sveitarstjórnarmálum á sínum tíma. En ég vil hafa áhrif og taka þátt í að skapa gott samfélag. Þess vegna ákvað ég að taka þetta skref og gefa kost á mér á lista til alþingiskosninga. 

Snertifletirnir við mannlífið eru margir hjá mér eins og ykkur öllum sem lesið þessa færslu. En mig langar að gera mitt besta til að við öll getum lifað góðu lífi saman hér á Íslandi.

Á þessa síðu mun ég setja inn færslur um mín hjartans mál svo að þið getið kynnst mér betur. Spurningar og málefnaleg umræða er vel þegin :)


Frítt í sund til 18 ára aldurs frá 1. maí!

Um næstu mánaðarmót mun nýsamþykkt gjaldskrá sundlaugar taka gildi.

Þá munu börn í Sveitarfélaginu Hornafirði fá frítt í sund til 18 ára aldurs!! Gunnhildur Imsland lagði fram tillögu fyrir hönd okkar framsóknarmanna í aðdraganda fjárhagsáætlunargerðar í haust þess efnis og er ánægjulegt að um næstu mánaðarmót muni breytingin ganga í garð.

Einhverjar hækkanir verða á öðrum liðum í gjaldskrá til að mæta þessari breytingu en þess skal geta að 10 og 30 miða kort auk árskorta hækkuðu ekki milli áranna 2013/2014.

Einnig hefur tómstundastyrkurinn verið hækkaður úr 20 þúsundum í 40 þúsund sem var annar liður í tillögum okkar í haust.

Vel gert bæjarstjórn Hornafjarðar!


Kominn tími til að byggja?

Er ekki kominn tími til að byggja?

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum sl. fimmtudag 9. apríl að fella niður gatnagerðargjöld af tilbúnum lóðum í sveitarfélaginu. Ég hafði hvatt til þess á janúarfundi bæjarstjórnar og nú er þetta orðið að veruleika.

Mikill skortur er á íbúðarhúsnæði þannig að þetta skref bæjarstjórnar ætti að vera kærkomið og vonandi hvatning til íbúa og annarra sem vilja setjast að í sveitarfélaginu að skoða nýbyggingu.


Leikskólamál!

Nú stendur til að gera skoðanakönnun um yrti ramma eða umgjörð leikskólanna á Hornafirði ens og kveður á um í málefnasamningi Sjálfstæðisflokks og 3. Framboðsins. Bæjarfulltrúar hafa lagt áherslu á að þarna sé verið að tala um ytri umgjörð en alls ekki innra starf. Erum við þá að tala um leiktæki á lóðum leikskólanna tveggja eða bílastæðin? Nei, það erum við ekki að gera, heldur snýr könnunin að því ég best veit að rekstarfyrikomulagi skólanna.

Sæmundur Helgason bæjarfulltrúi 3.Framboðsins kom inná það á síðasta bæjarstjórnarfundi og í skrifum sínum á netinu að skoðanakannanir séu skoðannamyndandi. Ekki bara það heldur eru skoðannakannanir líka leiðandi og hlutirnir eru ekki alltaf jafn einfaldir og þeir virðast við fyrstu sýn.

Því að skoðannakönnun um ytri ramma leikskólanna í þessu tilfelli rekstur, getur haft heilmikil áhrif á innra starf. Því vil ég hvetja þá sem koma til með að taka þátt í könnuninni til að huga að því hvaða áhrif svör þeirra hafa.

Ef niðurstaðan verður sú að sameina rekstur hvort sem er í einu eða tvemur húsum þá er verið að umbylta innra starfi skólanna þó könnunin sé um ytri ramma!

Þó ákvörðun um könnun hafi verið tekin þá er verkefnið enn í vinnslu. Ég vona að sjónarmið kennara á leikskólunum og í grunnskólanum sem hafa mesta reynslu af því að vinna með börnunum fái notið sín í þeirri vinnu. Við foreldrar metum hlutina að sjálfsögðu frekar út frá börnum okkar sem einstaklingum en horfum síður á heildina eins og starfsmenn gera.

Einnig erum við kjörnir fulltrúar og fræðslu- og tómstundanefnd að huga að því hvernig efla megi leikskólastigið með því að hvetja fólk til náms í leikskólafræðum og hvernig við getum lokkað til okkar fólk með þá menntun.

Á Hornafirði er gott aðgengi að leikskólum þar sem börn eiga kost á leikskóladvöl frá eins árs aldri. Leikskjólagjöld eru lág og syskinaafsláttur 50% með öðru barni en frítt fyrir það þriðja. Þó er að sjálfsögðu greitt fyrir fæði í öllum tilvikum.

Varðandi rekstarkostnað skólanna þá er 18% greitt af foreldrum í gegnum leikskólagjöld en restin af samfélaginu í heild í gegnum sveitarfélagið.

Að mínu mati er það innra starfið sem skiptir öllu máli, að börnunum líð vel og fái góða og faglega leiðsögn og kennslu í fjölbreyttu starfi á leikskólum sveitarfélagsins.


Tómstundastyrkur, æskulýðs- og íþróttamál

Á bæjarstjórnarfundi nr. 207 þann 4. september sl. lagði Gunnhildur Imsland fram tillögu bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins til fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015. Tillagan fólst í því að tómstundastyrkur yrði hækkaður úr 20 þúsundum á ári í 40 þúsund fyrir öll börn í sveitarfélaginu að 18 ára aldri. Einnig lögðum við til að sami hópur fengi frítt í sund.

Þessar tillögur voru teknar inní fjárhagsáætlunargerð og upphæðin til tómstundakortsins tvöfölduð. Fræðslu- og tómstundanefnd tók síðan undir tillögur starfshóps um Íþrótta- og tómstundamál þar sem lagt var til að styrkurinn yrði hækkaður í 40 þúsund og yrði fyrir börn 6-18 ára. Tillaga nefndarinnar var svo samþykkt með fundargerðinni í heild í bæjarráði enda búið að marka fé til hækkunarinnar í fjárhagsáætlun.

Varðandi tillöguna um að frítt yrði í sund fyrir börn í sveitarfélaginu að 18 ára aldri þá hefur gjaldskrá ekki verið breytt en stefnt að endurskoðun hennar fyrir vorið. Í dag er það þannig að börnin okkar fá frítt til 10 ára aldurs. Viðbótin yrði þá 10-18 ára börn. Vonandi nær sú breyting þó fram að ganga með hækkandi sól.

Í megin dráttum held ég að allir bæjarfulltrúar og nefndarmenn í fræðslu- og tómstundanefnd, áður skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd hafi verið sammála um að styðja við bakið á fjölskyldum með því að hækka tómstundastyrkinn. Áætlun þar um var í stefnuskrá okkar framsóknarmanna og getið í málefnasamningi meirihlutans að styðja við þennan hóp. Því var ekki von á andstöðu við þær tillögur sem lagðar voru fram í bæjarstjórn í september sl.

Í gær var birt frétt á vefsíðu sveitarfélagsins að undirritaður hafi verið nýr samningur við Ungmennafélagið Sindra. Sem er fagnaðarefni. Það hefur tekið tíma að útfæra samninginn þannig að allir geti gengið þokkalega sáttir frá borði. En vonandi mun hækkun tómstundakortsins verða til þess að styrkja starf félagsins auk annars íþrótta, - æskulýðs og tómstundastarfs sem fellur undir reglur um styrkinn s.s. Tónskólans.

Það er einnig mjög ánægjulegt að aldursviðmiðið sem lagt var til að yrði hækkað úr grunnskólaaldri í 18 ár skyldi vera samþykkt. Efla þarf hvatningu til ungs fólks á framhaldsskólaaldri til þátttöku í tómstundum og halda þeim sem lengst virkum í íþróttastarfi og er einn liður í því að draga úr kostnaði við þátttökuna.

Nóg er svo af verkefnum framundan á þessu sviði. Rýmisgreining í Vöruhúsi svo hægt verði að koma sem best fyrir þeirri starfsemi sem er í húsinu og helst bæta við, uppbygging íþróttamannvirkja og margt fleira.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband