21.6.2010 | 21:58
Góður dagur :-)
Að vanda var allt í öruggum höndum á hjúkrunardeildinni í morgun. Þær Íris og Halla höfðu staðið vaktina með einvala starfsfólki og allt gengið vel.
Verkefni dagsins var að ganga frá vinnuyfirlitum og klára vaktaskipulag fyrir eldhúsið fram á haust. Alltaf smá púsl í gangi yfir sumartímann en þá á ég hjúkrunarfræðingana bara eftir.
Það vantar á nokkrar vaktir um næstu helgi en annars erum við í ágætis málum að sinni.
Eftir hefðbundinn vinnudag tók við fyrsti bæjarráðsfundurinn minn. Þar lágu mörg mál fyrir til afgreiðslu. Svolítið sérstakt að sitja fund með fimm til sex körlum og einni konu, þar sem ég er vanari framkvæmdaráðsfundum HSSA þar sem við erum þrjár konurnar! En þeir eru bestu skinn svo að tilfinningin fyrir þessu samstarfi er bara góð.
Fundargerð bæjarráðs er væntanleg á stjórnsýsluvef sveitarfélagsins svo að ég ætla ekki að tíunda hér hvað var afgreitt og hvernig.
Hef þetta ekki lengra að sinni. Góðar stundir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2010 | 21:12
Helgin að baki :-)
Jæja, þá er þessi ágæta helgi að verða búin. Veðrið búið að vera mjög gott þó svo að við höfum undirbúið okkur fyrir hitabylgju!! Annars er fínt að hafa skýjað, betra að vinna í garðinum. Sólbruninn aðeins lúmskari og bara ekki eins heitt sem getur verið kostur í sjálfu sér.
En framundan er vinnuvika. Fyrsti bæjarráðsfundurinn minn á morgun kl. 16 og fjölmörg mál þar á dagskrá. Þá er undirbúningur fyrir fyrsta fund skóla-, íþrótta- og tómstundarnefndar í fullum gangi en fundurinn verður á miðvikudag.
En nú er það Law and Order UK. sem kallar!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.6.2010 | 22:56
Það kom að því!
Já, það kom að því að fara að blogga. Ég hef nú oft hugsað um það en aldrei látið verða af því fyrr en nú. Það sem ræður ákvörðun minni er að leyfa fólki og þá aðallega hornfirðingum að fylgjast með því sem drífur á daga mína sem forseti bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar.
Eins og þeir sem til þekkja vita þá var ég í öðru sæti á lista Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra hér í sveitarfélaginu í sveitarstjórnarkosningunum 29. maí sl. Og skemmst er frá því að segja að við fengum mjög góðan meðbyr í kosningunum og stóðum að lokum með fjóra bæjarfulltrúa þ.e. hreinan meirihluta í bæjarstjórn.
Fyrsti bæjartjórnarfundur eftir kosningar var haldinn þann 15. júní sl. og var ég kjörinn forseti bæjarstjórnar, sit að auki í bæjarráði og er formaður skóla-, íþrótta- og tómstundanefndar. Þannig að ekki þarf ég að kvíða verkefnaskorti á næstunni.
Einnig er margt skemmtilegt að gerast í aðal vinnunni minni sem hjúkrunarstjóri á hjúkrunarsviði Heilbrigðisstofnunnar Suðausturlands (HSSA). Þar vinn ég með frábæru fólki sem leggur sig allt fram í að veita heimilisfólki okkar og öðrum skjólstæðingum frábæra umönnun.
En í dag 19. júní var það Kvennahlaup og garðurinn sem fékk mestann tíma minn og auðvitað fjölskyldan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)