27.10.2016 | 08:27
Ásgerði á Alþingi
Gestabloggari, Hjalti Þór Vignisson
Það stefnir í sögulegar kosningar. Við sjáum af skoðanakönnunum að viðhorf íbúa á höfuðborgarsvæðinu er með talsvert ólíkum hætti og íbúa á landsbyggðinni, hvað marga málaflokka snertir. Það er því mikilvægt sem aldrei fyrr að rödd landsbyggðarinnar heyrist og þingmenn skynji og skilji ólíkar aðstæður íbúa smærri og dreifðari byggða.
Uppbygging og áskoranir
Það er mikil uppbygging í ferðaþjónustu þessi misserin. Sífellt fleiri fjölskyldur hafa lifibrauð sitt af greininni. Af öllum hagstærðum að dæma og auknu umfangi er engum blöðum um það að fletta að Íslendingar hafa byggt upp nýja undirstöðuatvinnugrein í landinu. Það eru fjölmargar áskoranir sem við stöndum frammi fyrir til að viðhalda viðgangi greinarinnar og það þekkja íbúar suðausturlands betur en flestir aðrir. Það er því mikilvægt fyrir okkur að eiga sterka rödd á Alþingi Íslendinga um hvernig línur verði lagðar um umgjörð ferðaþjónustunnar, uppbyggingu innviða, eflingu þjóðgarða og friðaðra svæða og ekki síst bættar og öruggari samgöngur bæði fyrir íbúa og ferðafólk. Ásgerður þekkir þessa þætti mjög vel eftir störf sín á vettvangi sveitarstjórnar og verður mikilvægur talsmaður þess að byggja áfram upp öfluga og heilbrigða atvinnugrein.
Að horfa á hið smáa í hinu stóra
Það er deilt um umgjörð landbúnaðar og sjávarútvegs. Hvað báðar þessar atvinnugreinar snertir er atvinnuöryggi og afkoma þeirra sem starfa við greinarnar mikilvæg. Það er grundvallaratriði að meta áhrif af ákvörðunum út frá einstökum byggðarlögum og landsvæðum áður en þær eru teknar. Við þurfum að geta treyst því að fulltrúi okkar á Alþingi hafi áhuga og vilja til að meta málin bæði út frá hinu stóra samhengi þjóðarinnar í heild en einnig að greina áhrif á smærri byggðarlög og svæði.
Nýtt hjúkrunarheimili á Höfn
Lengi hefur verið barist fyrir byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Höfn, án árangurs. Þörfin er óumdeild og brýn. Á HSSA er unnið frábært starf við þröngan kost. Fólk býr saman í litlum herbergjum, sameiginleg aðstaða þyrfti að vera mun umfangsmeiri og með nýju húsnæði mætti efla og styrkja ýmsa þjónustu fyrir íbúa hjúkrunarheimilisins. Ásgerður er á heimavelli í heilbrigðismálum. Hefur lengi starfað á þeim vettvangi sem hjúkrunarstjóri á HSSA en einnig haft aðkomu að þeim málum sem sveitarstjórnarmaður. Hún yrði mikilvægur liðsmaður á Alþingi í að tryggja fjárveitingar til uppbyggingar nýs hjúkrunarheimilis.
Nýtum tækifærið
Það er langt síðan að íbúi í Sveitarfélaginu Hornafirði hefur átt raunverulegan möguleika á að taka sæti á Alþingi. Það þarf kjark og úthald til að takast á við slíkt verkefni. Báðum þessum kostum býr Ásgerður yfir. Hún yrði góður fulltrúi okkar á Alþingi. Við ættum að nýta tækifærið og kjósa harðduglega, greinda og heiðarlega konu á Alþingi Íslendinga.
Gestabloggari, Hjalti Þór Vignisson, Mánabraut 6.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.