Framboð!

Jæja, þá hef ég ákveðið að gefa kost á mér í 3ja sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Val á listann fer fram eftir viku, þann 24. september á tvöföldu kjördæmisþingi á Selfossi.

Þar sem ég er nú komin í framboð þá held ég að það sé tilvalið að dusta rykið af þessari síðu hér og nota hana til að kynna mig og það sem ég tel mig hafa fram að færa.

Það eru þingfulltrúar á kjördæmisþinginu sem raða á listann og auðvitað er mikilvægast fyrir mig að kynna mig vel fyrir þeim. Ég vona að aðrir sem koma á þessa síðu og lesa það sem ég hef fram að færa hafi gaman af. 

Af hverju er ég að þessu? Jú, ég hef starfað sem bæjarfulltrúi í Sveitarfélaginu Hornafirði frá árinu 2010. Auk þess sem bæjarstjóri á tímabili. Ég hef starfað í tengslum við heilbrigðisþjónustuna frá 1989 þegar ég byrjaði sem starfsstúlka á slysó.

Ég er 47 ára gömul kona, eiginkona, móðir, amma, dóttir, barnabarn, tengdadóttir, systir, stjúpdóttir, mágkona, svilkona, vinur, vinnufélagi o.s.fvr.

Á stóra og fjölbreytta fjölskyldu þar sem afi Kalli er elstur 98 ára og Hjörtur Logi ömmustrákurinn minn er yngstur, 3ja ára.

Í lífi mínu og starfi hef ég rekið mig á margt sem ég tel að megi betur fara í okkar samfélagi og því hef ég einnig kynnst í gegnum vini og ættingja. Við erum öll ágæt í því að sitja við eldhúsborðið og eða á kaffistofunni og kvarta. Það dugar skammt og er oft frekar til þess að gera mann enn pirraðari. Akkúrat þetta rak mig til að taka þátt í sveitarstjórnarmálum á sínum tíma. En ég vil hafa áhrif og taka þátt í að skapa gott samfélag. Þess vegna ákvað ég að taka þetta skref og gefa kost á mér á lista til alþingiskosninga. 

Snertifletirnir við mannlífið eru margir hjá mér eins og ykkur öllum sem lesið þessa færslu. En mig langar að gera mitt besta til að við öll getum lifað góðu lífi saman hér á Íslandi.

Á þessa síðu mun ég setja inn færslur um mín hjartans mál svo að þið getið kynnst mér betur. Spurningar og málefnaleg umræða er vel þegin :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband