13.1.2015 | 08:17
Hvað er að frétta?
Allt ágætt að frétta í byrjun árs. Bæjarstjórnarfundur og síðasti fundur umhverfis- og skipulagsnefndar í síðustu viku og bæjarráð í gær. Allar fundargerðir á vef sveitarfélagsins www.hornafjordur.is/stjornsysla og nú er íbúagáttin loksins komin i loftið. En þar geta áhugsamir um störf bæjarstjórnar og nefnda orðið áskrifendur að þeim fundargerðum sem þeir kjósa. Auk þess að öll umsóknareyðublöð eru þar saman komin og hægt er að fylgjast með ferli máls eða umsóknar sem maður á inni hjá bænum.
Ég fór inná íbúagáttina með mínu rafræna skilríki í gegnum farsímann en einnig er hægt að sækja um Íslykil sem aðgang að síðunni. Þar eru leiðbeiningar um hvernig maður nálgast Íslykilinn.
Það var góður gestur á Höfn í gær. Hún Silja Dögg Gunnarsdóttir 3. þingmaður okkar í Suðurkjördæmi. Ég fór með henni á fundi framkvæmdastjóra HSu Hornafirði hennar Matthildar, bæjarráðs og bæjarstjóra. Svo hittum við bæjarfulltrúa framsóknar og stjórn félagsins í gærkvöldi. Það var mjög gott að geta farið vel yfir málefni sveitarfélagsins með henni og hnekkt vel á þeim málefnum sem brenna á okkur.
Þar má helst telja rannsóknir á Grynnslunun, nýtt hjúkrunarheimili, veginn yfir Hornafjarðarfljót svo eitthvað sé nefnt. Silja hefur verið dugleg að vera í tengslum við okkur hornfirðinga og skrifar annað slagið greinar til að upplýsa íbúa í kjördæminu um það sem er verið að vinna að á þingi. Núna 8. janúar var birt grein eftir hana í Sunnlenska sem hún kallar "Það er kominn tími til að tengja" og fjallar þar um fjarskipta- og samgöngumál í Suðurkjördæmi.
Ég hvet fólk til þess að lesa greinina og kynna sér hvað verið er að gera í þessum málum og hvað er framundan. Ég hef einnig deilt greininni á Facebook þar sem ekki eru lengur birtar greinar, blogg eða linkar á fréttir á samfélagsvef sveitarfélagsins og Eystrahorn tekur ekki við innsendum greinum.
Annars er verið að ræða geymslumál Hornafjarðarsafna. Hvort ráðlegt sé að festa kaup á gömlu Mjólkurstöðinni og flytja þangað alfarið geymslur safnanna. Það er ágæt hugmynd en verið að huga að því hvaða áhrif það hefur á fjárhag sveitarfélagsins. Ekki var gert ráð fyrir kaupum á því húsi eða nauðsynlegum endurbótum á því ef til kaupa kemur í fjárhagsáætlun sem var samþykkt fyrir rúmum mánuði síðan. En ótvírætt er að þörf er á auknu og betra rými undir safnakostinn okkar.
Einnig getur núverandi húsnæði að Álaleiru sem hýsir líka Matarsmiðjuna nýst vel fyrir aðrar stofnanir sveitarfélagsins þar sem geymsluhúsnæði er mjög af skornum skammti.
Þetta er nú það helsta sem mér kemur í hug í morgunsárið. Eigið góðan dag :)
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.