Uppgjör!

Nú skal litið um farinn veg og árið 2014 gert upp!!

Hvort skal þá einbeita sér að mönnum eða málefnum? Það er stóra spurningin. Ef marka má vefmiðlana þar sem maður (ég) eyði mestum af mínum rafræna vef tíma þá er ekki spurning að hjólað skal í manninn. Þannig upplifi ég allavega mjög oft stemminguna þar. En sem betur fer, að mínu mati þá finnst mér það ekki smekklegt og mun ekki leggjast á það plan.

Einnig gæti ég tekið fyrir helstu málefni sem mér finnst standa uppúr á árinu og krufið þau. En fyrir valinu verður að tæpa aðeins á þeim verkefnum og tækifærum sem mér hafa hlotnast á líðandi ári og horfa til framtíðar.

Á sama tíma fyrir ári síðan var ég bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Það var nú aldeils gaman. Skemmtilegt og vandasamt verkefni sem mér leið bara nokkuð vel í. Í því starfi fékk ég nýja sýn á málefnin sem ég hafði unnið að í bæjarstjórn frá árinu 2010. Kynntist samstarfsfólki mínu í þeim málaflokki frá nýrri hlið og ekki síst íbúum sveitarfélagsins sem voru duglegir að koma við og hafa samband vegna ýmissra og ólíkra málefna. Það er mjög ánægjulegt að hafa fengið að kynnast þessu starfi og mun ég búa að þeirri reynslu um ókomna tíð.

Á vormánuðum voru svo sveitarstjórnarkosningar og var mikið að gera í aðdragenda þeirra. Annasamur, skemmtilegur og krefjandi tími þar sem unnið var með góðu og öflugu fólki. Í maí var mikið um flandur og fundi. Heimsóknir í fyrirtæki, fundir og rúntað um dreifbýlið að hitta mann og annan. Niðurstöður kosninganna voru þó ekki alveg eins og ég hefði viljað hafa þær en hvað um það!

Í sumar fékk ég svo tækifæri til að vera mikið með börnunum mínum og barnabarni sem var kærkomið og yndislegt. Nú skyldi kúrsinn stilltur uppá nýtt, dregið úr vinnuálagi og verkefnum endurraðað.

Í haust tók svo við nýtt tímabil þar sem ég kom inná minn gamla vinnustað, hjúkrunardeild HSSA sem óbreyttur hjúkrunarfræðingur í hlutastarfi. Mikið svakalega var það nú gott. Þó ég hafi verið mjög sátt og ánægð í starfi sem hjúkrunarstjóri árin á undan þá var kominn tími til að vera "ábyrgðarlaus". Það var gott að geta farið í sitt vaktafrí og þurfa ekkert að pæla í því hvernig hlutirnir gengju á meðan á því stóð, labba bara út og það eru aðrir sem redda því sem redda þarf. Enda kemur alltaf maður í manns stað og frábært fólk sem ég vinn með.

Bæjarmálin hafa svo einhverra hluta vegna fyllt ansi vel uppí mikinn hluta þess frítíma sem ég sá fyrir mér að eiga sem "ábyrgðarlaus" hjúkrunarfræðingur (þ.e. ekki í stjórnunarstöðu) og bæjarfulltrúi í minnihluta! Svo hefur mér einhvern veginn tekist að finna mér ýmis önnur verkefni þannig að markmiðið að draga úr vinnuálagi hefur bara ekki tekist. En það hefur breyst!

Ég tók til dæmis að mér að sitja í stjórn Vestnorræna lánasjóðsins fyrir íslands hönd, hef verið að kenna/leiðbeina aðeins á námskeiðum. Sótt fjölmargar ráðstefnur og fundi svo eitthvað sé týnt til!!

Á tímabili datt mér í hug að fara í meira nám. Ekki bara í haust heldur aftur nú um áramótin! En sem betur fer er ég ekki búin að senda inn umsóknir og ef ég geri það þá er ég vonandi of sein því að ég held að áramótaheitið verði pottþétt - að raða uppá nýtt og reyna að finna lausan tíma til að gera allt það sem ég sá fram á að ég myndi hafa tíma til að gera sl. vor þegar ég hætti að vera bæði bæjarstjóri og hjúkrunarstjóri!

En þetta er uppgjör á árinu 2014. Árið var á heildina litið mjög gott ár í mínu lífi. Fullt af krefjandi, skemmtilegum og vandasömum verkefnum og tækifærum.

Ég hef gert mitt besta til að standa mig vel i þeim verkefnum sem mér hafa verið falin og mun hafa það áfram að leiðarljósi í því sem við tekur í ókominni framtíð.

Gleðilega hátíð gott fólk, kærar þakkir fyrir samstarfið og samfylgdina á árinu sem er að líða og farsælt, gleðilegt og gjöfult 2015!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband