Nýjasta nýtt!

Heimsótti Heimaþjónustudeild Hornafjarðar í gær með félögum úr bæjarráði og bæjarstjórn. Bryndís gæða- og upplýsingastjóri var einnig með í för og myndaði hún hersinguna í heimsókninni. Það er alltaf gott og vinalegt að koma í dagvistina í Sjallanum. Andrúmsloftið gott og vel hugsað um þá sem þangað sækja þjónustu. Fórum líka á Silfurbrautina en ég hafði ekki komið í nýja starfsmannaaðstöðu sem tekin var í notkun í sumar áður. Deildin vex og dafnar en aðstaðan hefur staðið í stað. Nú er svo komið að við erum öll að hugsa hvernig  bregðast megi við þeirri þróun. Hvernig bæta megi aðstöðu og gera starfseminni kleift að dafna áfram.

Sveitarfélagið hefur verið með málefni fatlaðra á sinni könnu í hátt á annan áratug fyrst með þjónustusamningi við ríkið og svo sem sérstakt þjónustusvæði á undanþágu frá 8000 íbúa viðmiði frá almennri yfirfærslu málaflokksins árið 2011. Heilt tekið hefur framkvæmdin gengið vel og er það ósk mín og annarra í bæjarstjórn að við höldum undanþágunni sem við höfum áfram en nú er verið að meta hvernig til hefur tekist með yfirfærslu málaflokksins í heild til sveitarfélaganna og eru undanþágurnar metnar samhliða.

Síðasta fimmtudag var fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 kynnt í bæjarstjórn og fyrri umræða fór fram. Almennar forsendur hennar vel ásættanlegar en mér sýnist að einhverjar breytingar verði gerðar milli umræðna. Framkvæmdaáætlun var t.d. rædd í bæjarráði í gær og svo eru mörg tækifæri og verkefni framundan sem þarf að skoða hvort hægt sé að styðja við og fara í.

Eitt er víst að tækifærin á Hornafirði eru mörg. Eystrahorn vikunnar er komið á vefinn með atvinnuauglýsingum, viðburðum og skemmtilegheitum. Kíkið á það og njótið þess að búa í góðu og öflugu samfélagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband