15.10.2014 | 21:36
Viðburðir vikunnar
Síðasta miðvikudag var brunað til Reykjavíkur eftir hefðbundinn vinnudag á hjúkrunardeildinni. Gott að hafa bílstjóra sem ferjaði mig milli staða, ekki það að hans vinnudagur hófst á sama tíma og minn!!
Fjármálaráðstefnan var fimmtudag og til hádegis á föstudag. Dagskráin var nokkuð hefðbundin en hefur orðið praktískari á síðustu árum fyrir okkur bæjarfulltrúana sem erum kannski ekki alveg á kafi í rekstartölum en þurfum að hafa góða yfirsýn yfir fjölmarga og flókna málaflokka. Einnig er bæði gott og gaman að hitta annað sveitarstjórnarfólk og starfsmenn sveitarfélaga sem sækja ráðstefnuna. Ekki síst fjölskyldumeðlimi og skólafélaga :)
Að lokinni ráðstefnu héldu fulltrúar meirihlutans í bæjarráði, bæjarstjóri og félagsmálastjóri á fund í Velferðarráðuneytinu um málefni fatlaðs fólks. Undirritaðri var ekki boðið að sitja fundinn!
Á bæjarráðsfundi á mánudag var svo eina meðlimi bæjarráðs sem ekki sat fundinn gert grein fyrir framgangi hans. Ég var að sjálfsögðu hundfúl yfir því að hafa ekki fengið tækifæri til að sitja fundinn í ráðuneytinu og hef gert grein fyrir því. Sjálfsagt fer svo lítið fyrir mér að ég gleymdist þar sem ég var ekki með þeim í bílnum.... En það er nú bara svo, en bæjarstjórinn hefur afsakað þessa gleymsku svo að öllu sé nú haldið til haga.
Bæjarráð á mánudag einkenndist af heimsókn aðal- og vara bæjarráðsfulltrúa til Hornafjarðarsafna. Við fórum í geymslur safnsins við Álaleiru. þar hefur orðið mikil breyting frá síðustu heimsókn minni þangað. Einnig var okkur kynnt það ferli sem munir safnsins fara í til skráningar og forvörslu í Nýheimum. Flott og fagmannlegt starf sem unnið er hjá Völu og starfsfólki hennar.
Á mánudag voru einnig fundir með forstjóra nýrrar sameinaðar heilbrigðisstofnunar; Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Herdís Gunnarsdóttir forstjóri fór yfir það ferli sem hún sér fyrir sér í þessari sameiningu og svaraði spurningum.
Í dag var svo fræðsla fyrir sveitarstjórnarmenn og forstöðumenn um fjármál sveitarfélaga frá sjónarhorni endurskoðenda okkar KPMG. Þörf og góð yfirferð.
En aðal stuðið er þarna inná milli á heilbrigðisstofnuninni þar sem við starfsólkið erum að undirbúa PARTÝ! Hópar vinna að verkefnum sem við erum að keppa í og þetta er svooo skemmtilegt. Hlakka til að skemmta mér með þeim á föstudagskvöldið!!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.