6.10.2014 | 21:49
Er eitthvað að frétta?
Já, já það er alltaf eitthvað að frétta. Undanfarnar vikur hafa verið nokkuð annasamar.
Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið á Akureyri í lok september. Þangað fór ég ásamt Sæmundi bæjarfulltrúa og Birni Inga bæjarstjóra. Gott þing þar sem ég sat í umræðuhóp um tengsl manna og umhverfis; umhverfis- og skipulagsmál. Fórum þar yfir drög að stefnumótun í þeim málum sem stjórn sambandsins mun svo ljúka.
Síðasta mánudag komu svo fjórir þingmenn kjördæmisins í heimsókn og áttu fund með bæjarstjórn. Farið var yfir þá þætti í rekstri ríkisins sem snúa að okkur hér í héraði ss. samgöngur, heilbrigðismál, rannsóknir á grynnslunum, skipulag löggæslu og ýmislegt fleira. Gott að hitta þingmennina og ræða málin við þá.
Þá var líka fundur í bæjarráði, umhverfis- og skipulagsnefnd og bæjarstjórn. Inná milli tók ég vaktir á hjúkrunardeildinni og svo var brunað í Öræfin á föstudag eftir vinnu því haldið var Kjördæmisþing Suðurkjördæmis í Freysnesi 3. -4. okt. Þar tókum við Austur- Skaftfellingar á móti ráðherra, þingmönnum og öðrum framsóknarmönnum og áttum góðan fund. Góð mæting var á fundinn og fór hann í alla staði vel fram.
Í dag var svo fundur bæjarráðs þar sem ákveðið var m.a. að fara í verðkönnun vegna fráveituframkvæmda í Nesjahverfi. En þær framkvæmdir mun vonandi hefjast strax á næstu vikum. Einnig var farið yfir tillögur að breytingum á Samþykktum sveitarfélagsins þar sem meirihlutinn stefnir að því að fjölga nefndum sveitarfélagsins um tvær. Þ.e. skipta tveim nefndum sem í dag eru atvinnu- og menningarmálanefnd og umhverfis- og skipulagsnefnd uppí fjórar.
Á miðvikudag verður svo brunað til Reykjavíkur til að sitja Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2014 sem haldin er fimmtudag og föstudag.
Nóg að gera og alltaf eitthvað að frétta :)
Góðar stundir!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.