Áskorun vegna búsetuskilyrða á hjúkrunardeildinni!

Bæjarstjórn Hornarfjarðar sendi frá sér áskorun til stjórnvalda (ríkisins) á síðasta bæjarstjórnarfundi um að bætt verði úr búsetuskilyrðum þar sem aðeins tvö einbýli sem deila saman snyrtingu eru á deildinni. En í dag 14. september eru þrjátíu og einn (31) einstaklingur á deildinni.

Enginn hefur aðgang að prívat salerni. Hvort sem er heimilismaður eða sjúklingur sem liggur inni vegna veikinda!!  Er þetta ný staða? Nei ekki hvað varðar húsakost en hvað varðar fjölda innlagðra þá er það vaxandi "vandamál" að þörfin fyrir þjónusu er svo mikil sem hún er í dag.

Það eru alltaf sveiflur í þessu en undanfarnir mánuðir, kannski ár þá hefur ástandið verið frekar slæmt hvað þetta varðar. 

Hjúkrunardeildin okkar sem er heimili tuttugu og fjögurra einstaklinga sem ekki geta búið í sjálfstæðri búsetu vegna  heilsubrests og oftar en ekki hás aldurs er nefnilega líka sjúkradeild (þrjú rými). Það er því orðinn veruleiki heimilisfólks að það séu iðulega gestir; sjúklingar í rúmum, jafnvel á ganginum og ef það er bara einn þá getur viðkomandi fengið að sofa inná baðherbergi þar sem það er ekki í notkun sem slíkt yfir blánóttina!!

En af hverju er ekki búið að breyta þessu fyrir löngu?

Húsnæðið okkar í dag er tekið í notkun 1996. Ekki fyrir svo ýkja löngu en var kannski bara úrelt stuttu eftir byggingu! Þegar ég hef störf á HSSA í janúar 2002 þá var verið að teikna annan áfanga við deildina. Við vorum að rýna í teikningar og það var stutt í einbýlin góðu! En það leið og beið, tafir urðu á fjármögnun. Ég man eitt árið þá var búið að kæla hvítvínið í ískápnum á heilsugæslunni því að fyrsta skóflustungan var "alveg" að bresta á. En nei ekkert varð af því og hvítvínið var drukkið í svekkelsi!

Á síðasta kjörtímabili var farið af stað aftur og herjað með þunga á heilbrigðisráðuneytið - nú verður eitthvað að gerast. Ráðherrar voru alveg sammála. Skilaboðin voru að við myndum undirbúa okkur og svo finnum við fjármögnunarleið! Farið var í stefnumótunarvinnu, já og nú þurfti að deiliskipuleggja þó alltaf hafi verið gert ráð fyrir stækkun (allavega frá 2002). Gott og vel sú vinna sett af stað og er enn í gangi.

En svo heyrðist í ráðherra, en þið eruð ekki á lista yfir staði þar sem á að byggja upp hjúkrunarheimili og framkvæmdasjóður aldraðra er tómur!!! 

Ýmislegt hefur farið á milli sveitarfélagsins og heilbrigðisráðuneytisins á þessum tíma sem gaf fyrirheit um framkvæmdir. Margt hefur áunnist hér heima í undirbúningi sem við búum að. Þess vegna er okkur ekkert að vanbúnaði. Þurfum aðeins grænt ljós frá stóra bróður sem situr við ríkiskassann og brosir. Hefur fullan skilning á ástandinu svo að ég vona að áskoruninni verði tekið og boltinn fari að rúlla. Heimilisfólkinu okkar og sjúklingum til heilla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband