7.7.2014 | 21:41
Ferðaþjónusta, umsagnaraðili og notandi!
Átta mál sem tengjast stöðu- eða rekstrarleyfum í ferðaþjónustu voru á dagskrá bæjarráðs í dag! Í raun má segja að þau hafi verið níu því að fundargerð HAUST frá 25. júní sl sem var einnig á dagskrá var fjallað um sextán útgefin starfsleyfi í Sveitarfélaginu Hornafirði af þeim voru sex er vörðuðu gistileyfi og fjögur leyfi tengd Humarhátíð.
Megin þorri þeirra erinda sem fjallað hefur verið um uppá síðkastið í bæjarráði eru vegna heimagistingar, þar sem einstaklingar eða fjölskyldur nýta þá möguleika að drýgja tekjur sínar með því að bjóða ferðafólki gistingu á heimilum sínum gegn gjaldi. Við útgáfu slíks leyfis er gert ráð fyrir því að það skuli ávallt í það minnsta einn af heimilismönnum búa á heimilinu og gegna hlutverki næturvarðar. En í sveitum er þetta aðeins rýmra og er nægjanlegt að heimilismaður hafi fasta búsetu á jörðinni.
Ég vona að það gangi vel hjá þessum aðilum sem ákveða að opna heimili sín fyrir ferðafólki með þessum hætti.
Síðustu daga hef ég hins vegar verið ferðalangur sjálf með fjölskyldunni og nýtt nokkur tjaldstæði og fengið alveg ágætis þjónustu á þeim. Byrjaði að sjálfsögðu innan sýslumarka og gisti í Skaftafelli. Fórum síðan í göngu upp að Svartafossi umkringd erlendum ferðamönnum sem gaman var að spá í klæðaburðinn á. Þar sáum við fólk allt frá því að vera á stuttbuxum og á bol uppí snjóbuxur og dúnúlpu. Dóttir mín gekk um og þóttist vera útlensk og ávarpaði þá sem við mættum á portúgölsku - Bom dia!
Næsta nótt var svo í miklu roki í Hamragörðum í návist hins gullfallega foss Gljúfrabúa og sú þriðja á svæði Rafiðnaðarsambandsins við Apavatn í betra veðri.
Einnig fórum við í siglingu á Fjallsárlóni, fórum upp að og sum uppí Paradísarhelli. Í sund á Vík í Mýrdal í fyrsta sinn og í Gömlu laugina á Flúðum.
Eftir rúma viku mun ég svo halda áfram í fríi og örugglega gerast túristi aftur!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.