23.5.2014 | 13:20
Nánar um mig - Ásgerði K. Gylfadóttur
Einhverjir hornfirðingar kunna að velta fyrir sér hvaðan ég kem og hvað ég hef verið að bardúsa í gegnum tíðina.
Ég er fædd á Ísafirði 10. desember 1968. Ég er dóttir Hjördísar Karlsdóttur frá Hnífsdal og Gylfa Guðmundssonar frá Ísafirði. Fósturfarðir minn Helgi Björnsson er Patreksfirðingur. Ég er alin upp í Hnífsdal en fjölskyldan fluttist til Hafnarfjarðar 1986.
Ég gekk í grunnskóla í Hnífsdal og svo Gagnfræðaskólann á Ísafirði. Hóf svo nám við Menntaskólann á Ísafirði eftir gaggó. Tók mér hlé frá námi ´86-´87 og fór sem skiptinemi á vegum AFS til Sao Paulo í Brasilíu. Eftir þá skemmtilegu reynslu hóf ég nám við Flensborgarskólann í Hafnarfirði og lauk stúdentsprófi þaðan 1989 þá nýbökuð móðir. Ég tók mér frí frá námi í eitt ár eftir stúdent og vann á slysadeild Borgarspítalans sem starfsstúlka en fór svo í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands.
Eftir útskrift með BS próf frá HÍ fór ég að vinna á geðdeild Landspítalans á Kleppi. Þar vann ég á deild 13 sem var móttökugeðdeild í ein fimm ár. Þá tóku við tæp fjögur ár sem lyfjakynnir hjá Pharmaco í Garðabæ þar til ég tók þá afdrifaríku ákvörðun að breyta til og fara að vinna við hjúkrun á hjúkrunardeild HSSA í svona ár eða svo.
Við Aron Martin sonur minn komum hingað austur árið 2002 og hef ég verði starfsmaður HSSA síðan. Fyrst á hjúkrunardeildinni síðan við skólahjúkrun og svo aftur sem hjúkrunarstjóri á hjúkrunardeildinni.
Frá því ég fluttist til Hornafjarðar hef ég bætt við mig diplomanámi í heilsugæslu sem ég stundaði í fjarnámi frá HÍ í Nýheimum að hluta og réttindum sem leiðbeinandi í almennri skyndihjálp.
Ég var svo lánsöm að kynnast honum Jónasi rafvirkja (Friðrik Jónas Friðriksson) og er hann nú líkast til ástæða þess að ég hef fest rætur á Hornafirði og vill hvergi annarsstaðar búa. Við eigum saman Jönu Mekkín og Friðrik Björn sem eru í Grunnskóla Hornafjarðar. En Aron Martin býr nú á Akureyri með sambýliskonu sinni Veroniku Rut og syni þeirra Hirti Loga sem varð eins árs í byrjun maí.
Ég hef lengi vel verið virk í félagsstörfum. Var trúnaðarmaður hjúkrunarfræðinga bæði á Landspítalanum og á HSSA á tímabili. Var í stjórnum nemendafélaga og fagdeildar geðhjúkrunarfræðinga. Einnig var ég um árabil í stjórn Hornafjarðardeildar RKÍ og formaður í nokkur ár.
Ég tók sæti á lista Framsóknarmanna og stuðningsmanna þeirra 2010, náði kjöri og hef verið forseti bæjarstjórnar (2010-2013), formaður bæjarráðs (2013), formaður skóla-, íþrótta- og tómstundanefndar (2010-2013).
Ég tók að mér stöðu bæjarstjóra í nóvember sl. þegar Hjalti Þór Vignisson óskaði lausnar frá starfi og hef því gengt því starfi í sjö mánuði núna um mánaðarmótin.
Ég hef lært mikið á þessum fjórum árum og ekki síst síðustu sjö mánuði. Ég hef áhuga á því að fá að gegna þessu embætti áfram eftir kosningar og óska eftir stuðningi ykkar hornfirðinga til þess - XB á kjörseðilinn!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.