7.5.2014 | 23:35
Flug & bíll
Flug & bíll en hvorki til evrópu né ameríku heldur ísland út um allt! Það var bíll í gær til Reykjavíkur þar sem ég hitti ráðgjafa hjá Hagvangi og við unnum í ráðningarmálum vegna auglýsingar um stöðu framkvæmda- og umhverfisstjóra við sveitarfélagið.
Flaug heim í morgun eftir einn ágætan fund og auðvitað beint í vinnuna. Kom reyndar við heima og kippti inn af snúrunum með aðstoð eiginmannsins vegna rigningarúða! Náði að fara yfir fjöldan allan af póstum og koma ýmsum málum áfram með starfsmönnunum.
Átti líka mjög góðan fund með Sigurjóni Kjærnested framkvæmdastjóra veitusviðs hjá Samorku. Sat þann fund með Kristjáni, Birni Inga, Ástu og Birgi. En Samorka hefur boðið veitum sveitarfélagsins (vatns og fráveitu) aðild að samtökum.
Kom svo við heima um hálf fimm og skellti niður í næstu tösku. Kyssti börnin og mömmu bless. Upp í bíl með eiginmanninn við stýrið og stefnan tekin á Akureyri. Ferðin gekk ljómandi vel enda fært um Öxi en þoka í Jökuldalnum og meira og minna á Möðrudalsöræfunum. Rétt sluppum inn á Rub23 til að fá okkur sushi í náttverð. Aron og Rut fengu góða nótt koss - þaðan inná hótel og sest við ritstörf.
Á morgun er stefnt á að bjóða barnabarninu góðan daginn, knúsa hans aðeins og svo er stefnan sett á Dalvík þar sem bæjarstjórar munu funda og kynna sér svo ýmislegt í Dalvík og Fjallabyggð en þau sveitarfélög eru gestgjafar okkar.
Meira frá því síðar - góða nótt!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.