9.3.2011 | 21:51
Úttekt á starfsemi Grunnskóla Hornafjarðar
Framsaga mín um "úttekt á Grunnskóla Hornafjarðar" sem ég flutti á síðasta bæjarstjórnarfundi fimmtudaginn 3. mars 2011.
Í upphafi vil ég segja að það er kærkomið að fá þessa skýrslu í hendur sem ber yfirskriftina Úttekt á starfsemi Grunnskóla Hornafjarðar. Skammt er liðið á kjörtímabilið og við sem sitjum í skólanefnd og í bæjarstjórn getum því unnið út frá skýrslunni á næstunni. Hún varpar bæði ljósi á það sem vel er gert og einnig hvar við getum lagað til ákveðna þætti í starfinu til að ná betri árangri. Það er mikilvægt að komi fram að skýrslan er unnin að frumkvæði bæjarráðs sem óskaði eftir því með bréfi til ráðuneytisins að taka þátt í þessu verkefni.
Markmið úttektarinnar var að leggja mat á starfsemi skólans með hliðsjón af gildandi lögum um grunnskóla, reglugerðum og aðalnámsskrá grunnskóla. Þeir þættir sem meta átti í úttektinnu voru stjórnun, skipulag kennslu, innra mat, námskröfur og fyrirkomulag námsmats.
Lögin sem skýrslan byggir á eru frá árinu 2008 og eru því einungis tveggja ára gömul og á síðustu þremur- fjórum árum hefur staðið yfir sífellt breytingarferli í grunnskólanum. Fyrst með sameiningu Nesjaskóla, Hafnarskóla og Heppuskóla í eina skólastjórn, síðan flutning skólahalds úr Nesjum á Höfn og mannabreytingar í skólastjórn. Allt hefur þetta reynt mikið á starfsfólk og stjórnendur skólans.
Eftir lestur skýrslunnar er ég sannfærð um að skólinn er á réttri braut og mörg þau skref sem stigin hafa verið á síðustu árum hafa verið til heilla. Það væri til dæmis fróðlegt að velta fyrir sér hvaða áherslur hefðu verið dregnar fram ef þessi skýrsla hefði verið gerð þegar skólarnir voru allir sjálfstæðir. Með þessu er ég ekki að segja að við séum kominn að endamarkinu, langt frá því.
******
Ég vil leggja áhersu á að í bréfi sem mennta- og menningarmálaráðuneytið sendi þann 24. febrúar sl. til sveitarfélagsins með niðurstöðu úttektar á starfsemi Grunnskóla Hornafjarðar kemur fram að margir lykilþættir skólastarfsins eru í góðum farvegi. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta: úttektaraðilar telja meðal styrkleika skólastarfsins að meiri samfella sé í skólastarfinu eftir sameiningu, að nýsköpun og listir skipi hærri sess, lýðræðisleg vinnubrögð og jafnrétti séu ríkjandi í samskiptum og að mikill vilji sé til að efla Grunnskóla Hornafjarðar bæði hjá aðilum innan skóla og utan. Einnig nefna þeir að vilji sé hjá skólastjórnendum til að efla foreldrasamstarf, að upplýsingaflæði sé gott í skólanum og boðleiðir greiðar. Þá hefur áætlun gegn einelti fyrir nemendur verið unnin, ánægja er með sérkennslu skólans, andrúmsloft í skólanum er jákvætt og gott, val nemenda er fjölbreytt og tengsl skólastiga eru góð.
Eins og ég sagði áðan að þá hefur breytingarferlið, flutningurinn og sameiningin ásamt öðru hindrað framgang ýmissa mála. Í ofangreindu bréfi ráðuneytisins segir , með leyfi forseta: Meðal helstu veikleika skólastarfsins telja úttektaraðilar vera að sameiningarferli skólanna tveggja stendur enn og hindrar skólaþróun, skólastefna á vegum sveitarfélagsins er ekki fyrir hendi, sérstaða skólans birtist ekki með nógu skýrum hætti í þeim gögnum sem fyrir liggja, umfjöllun og samþykkt skólanámskrár og starfsáætlunar skólans er ábótavant svo og skilgreiningar á námsmarkmiðum. Ekkert innra mat í skilningi laga og aðalnámskrár hefur farið fram til þessa og kennara hafa litla vitneskju um innra mat. Þá telja úttektaraðilar að starfsáætlun skólans sé ábótavant og stefnu sveitarfélagsins í málum nemenda sem þurfa sérþjónustu skorti.
Það eru því augljóslega ýmis viðfangsefni við að etja í framhaldinu. Skólanefnd hefur fjallað um málið og nú tekur við vinna við að gera áætlun og setja fram aðgerðir til að bregðast við ábendingum sem fram koma í skýrslunni. Þó vil ég benda á miskilning eða yfirsjón þeirra sem rita niðrustöðubréfið fyrir hönd Mennta- og menningamálaráðuneytisins því skólastefna sveitarfélagsins er vissulega fyrir hendi og er rætt um hana í í úttektinni. Þar er tekið fram að ágætt samræmi sé milli stefnu sveitarfélagsins og þeirra leiðbeininga um skólastefnu sem samband íslenskra sveitarfélaga gaf út árið 2010. Þó vantar í hana áætlanir, árangursmælingar og eftirfylgni sem hvatt er til að bætt verði úr við næstu endurskoðun skólastefnunnar. Hins vegar hefur grunnskólinn ekki markað sér stefnu út frá skólastefnu sveitarfélagisns og eftir því er kallað í niðurstöðum skýrslunnar, einnig hefur þeim yfirsést að þrír skólar voru sameinaðir en ekki tveir!. Þess ber að geta að gagnaöflun var unnin í október og nóvember, en skólastarf var þá skammt á veg komið. Ýmis atriði sem athugasemdir voru gerðar við eru nú þegar komin í farveg svo sem vinna við innra mat skólanns. Gerð aðgerðaráætlunar verður lokið í apríl mánuði eins og ráðuneytið fer fram á.
****
Hluti af þeim ábendingum sem settar eru fram í skýrslunni tengjast vafalaust því að ýmis ákvæði laga um grunnskóla frá 2008 hafa ekki verið tekin upp eða hefur ekki verið lokið við að uppfylla. Hins vegar bera margar athugasemdir þess merki að margt hafi verið gert vel án þess að það falli bókstaflega að skilningin laga. Á þetta til dæmis við um athugasemdir um skólanámskrá og tengsl hennar við aðalnámskrá og skólastefnu. Þarna finnst mér úttektaraðilar hengja sig að miklu leyti við formið án þess að veita innihaldinu nægjanlega eftirtekt. Fyrsta verkefnið er því að fara yfir lagabókstafinn og aðlaga þær áætlanir og stefnur sem skólinn hefur sannarlega sett sér - að gildandi lögum.
Næsta meginverkefni er að skólanefnd taki upp kerfisbundið eftirlit með skólum sveitarfélagins. Í skýrslunni segir að nefndin sinni ekki hlutverki sínu í þeim málum. Um þetta má deila og hér reikar hugurinn aftur að því hvort formið hafi verið að þvælast fyrir innihaldinu hjá úttektaraðilum, og úttektar aðferðin þ.e. viðtöl og gagnaöflun að mestu leyti á netinu hafi ekki alveg verið að gefa rétta mynd. Skólanefnd hefur auðvitað bæði haft eftirlit og skipt sér að skólastarfi. Til að bregðast við þessum athugasemdum úttektaraðila verður skoðað að taka upp matskerfi sem mæli heildstætt árangur skólans út frá viðhorfi starfsfólks, stjórnenda, nemenda og svo fjárhag skólans. Þannig fær skólanefnd árlega í hendurnar upplýsingar um þróun þessara mála og ætti því að geta rætt hlutina út frá þeim staðreyndum og brugðist við ef þarf. Hættan við þessi matskerfi er það að þau fangi ekki alla þá eiginleika sem við teljum mikilvæga fyrir skólastarfið. Að það verði hreinlega út undan og fái ekki mikla athygli, því margt jákvætt og gott starf er unnið í skólanum. Það verður því að velja matskerfið að kostgæfni.
Þriðja verkefnið er að koma á betri tengslum á milli skólanefndar, skólastjórnenda og kennara til dæmis er varðar setningu skólanámskrár. Einnig virðist hlutverk og eftirlit skólanefndar vera óljóst í hugum skólastjórnenda og kennara, eftir því sem haft er eftir þeim úr viðtölunum, úr því þarf að bæta.
+++
Þá leitar jafnframt á hugann við lestur skýrslunnar sú hvort ýmislegt sem talið er að skólinn þurfi að bæta sig í, sé ábótavant hjá sveitarfélaginu í heild sinni,. Við ræddum hér um innra mat á skólatarfi, gæðaþróun og á nokkrum stöðum er vikið að vefumsjón og upplýsingamálum. Við skulum ekki falla í þá gryfju að telja að ef þessum þáttum er ábótavant í skólasamfélaginu að önnur starfsemi sveitarfélagsins geti ekki fallið þar undir. Ég spyr því hvort ekki sé rétt að íhuga að sérstakur starfsmaður verði ráðinn til að sinna þessum málum í heild sinni fyrir sveitarfélagið, þ.e. innleiðingu á heildstæðu gæðakerfi og til að sinna vefumsjón og upplýsingamálum?
Það getur nefnilega verið skýring á því af hverju skólinn hefur ekki náð utan um alla þá þætti sem þarf í skilningin laga um grunnskóla, að skólanefnd, bæjarstjórn og stjórnsýslan hafi ekki stutt nægjanlega vel við skólann. Að lokum vil ég segja að það er mjög mikilvægt fyrir alla sem bera hér ábyrgð á vexti og viðgangi þessa samfélags að kynna sér skýrsluna í heild, velta henni fyrir sér frá öllum hliðum og nýta hana á uppbyggilegan hátt í skólasamfélaginu.
Ég sagði í upphafi að við séum á réttri leið, sameining skólanna var heillaspor en sameiningarferlinu þarf að ljúka. Skýrslan ber þess merki að nú þurfum við að leggja krafta okkar í önnur verkefni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.