Án titils

Undanfarnar vikur hafa farið í viðbrögð við fjárlögum ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2011. Það kreppir að eins og hvert mannsbarn á Íslandi sem fylgist með fréttum eða umræðum manna á milli veit. Landsbyggðin hefur hingað til ekki farið eins illa út úr hruninu eins og höfðuborgarsvæðið og nærsveitir þess en nú skulum við sko aldeilis fá að taka á því.

Heilbrigðisstofnanir eru kreistar svo að úr blæðir. Heilbrigðismál eru orðin að byggðarmálum hvort sem okkur líkar betur eða verr. Síðast liðna viku hef ég gengið á fund fjárlaganefndar, þingmanna suðurkjördæmis, ráðherra og starfsmanna heilbrigðisráðuneytisins með félögum mínum í bæjarráði, bæjarstjóra og samstarfskonum í framkvæmdaráði HSSA. 

Af þessum fundum er ljóst að alvaran er algjör, skorið skal niður. Hér heima höfum við velt upp öllum hugsanlegum möguleikum til hagræðingar og lögðum fram á fundunum þær hugmyndir sem til greina koma. En ljóst er að ekki verður hægt að reka HSSA fyrir það fé sem fyrstu tillögur fjárlaga ganga út frá. Nú bíðum við næstu umræðu um fjárlög og þeirra tillagna sem lagðar verða fram á þeim tíma. Þangað til höldum við áfram að brjóta bauka og velta steinum í leit að gulli og góðum hugmyndum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eigum við bara að sitja pen og bíða ? Út um allt land hafa verið sterkar mótmælaraddir en hér á Höfn fá íbúar ekki einu sinni borgarafund. Með þessu áframhaldi fáum við litlar leiðréttingar síðast þegar ég vissi var ekki svigrúm fyrir meiri niðurskurð hjá HSSA nema með því að segja upp starfsfólki og minnka þjónustu og það er óásættanlegt ! Ég hef áhyggjur af þeim byggðalögum sem hafa ekki sjúkrahús í bakgarðinum, ég get ekki vorkennt þeim byggðalögum í nágrenni Reykjavíkur sem hafa allt til alls og komast þar að auki á hátæknisjúkrahús á innan við klukkustund. Það er í raun með ólíkindum að skera skuli niður hjá okkur og víðar á landsbyggðinni þar sem í raun er um grunnþjónustu að ræða sem við getum ekki verið án !

Björk Pálsdóttir (IP-tala skráð) 22.10.2010 kl. 22:04

2 identicon

Takk fyrir athugasemdina Björk, Undan farnar vikur hafa nú farið í allt annað en að bíða. Mikil vinna hefur farið í útreikninga og skoðanir á því hvernig við getum brugðist við niðurskurði og unnið í rökstuðningi sem beitt hefur verið við ríkisvaldið gagnvart því að boðaður niðurskurður gengur bara alls ekki á okkar stofnun. Afrakstur þessarar vinnu var svo kynnt þeim aðilum sem ég nefni hér að ofan. Fundir hafa verið haldnir með starfsmönnumog fréttir af því voru bæði að vefnum og í Eystrahorni. Að sjálfsögðu verður haldinn fundur með aðstandendum þeirra sem dvelja hjá okkur og öllum þeim sem hafa áhuga á að berjast með okkur. Hins vegar veit ég til þess að einstaklingar og félagasamtök út um landið hafa skipulagt fundi og viðburði í kringum sínar stofnanir og sýnt þannig stuðning sinn. Margar leiðir eru færar og alltaf skiptar skoðanir um hvernig á að bera sig að.

Ásgerður Gylfadóttir (IP-tala skráð) 23.10.2010 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband