Hjartans mál!

Í dag 26. september er hjartadagurinn, þá er gott að staldra við og skoða sín hjartans mál.

Það sem flestum okkar dettur fyrst í hug er að taka okkur á í hreyfingu og mataræði. Það er grunnurinn að þessu öllu og atriði sem við höfum stjórn á eða viljum hafa stjórn á.

Hins vegar er það oft ansi erfitt að hafa sig í breytingar þó við vitum að það sé okkur fyrir bestu.

Hjartans mál eru annars af ýmsum toga. Ég er fædd með hjartagalla og var gert við hann í London þegar ég var krakki. Mörg börn og fjölskyldur þeirra þurfa að glíma við slík vandamál og tækninni fleytir fram í greiningu og meðferð á slíkum vanda. 

Fyrir fimm árum síðan lét hjartað síðan aftur á sér kræla eða kannski væri réttara að segja að það hafi verið búið á því og hjartslátturinn minn dugði varla til að viðhalda daglegri virkni. Þetta ágerðist hægt og bítandi þannig að ekki var alveg ljóst alla vega fyrir mér hjúkrunarfræðingnum hvað væri í gangi. Vöðvabólga hlaut að vera skýringin á höfuðverkjum, svimaköstum og almennum slappleika!

Eftir læknisskoðun og sólarhringshjartalínurit var málið ljóst. Mjög hægur púls. Ég var heppin í mínu hjartans máli, fékk gervigangráð sem sér til þess að ég er alltaf fyrir ofan 60 slög á mínútu í hjartslætti. Það er nú ekkert voða smart að vera með ör á bringunni og dós þar undir húðinni en það er mín líflína og afar kær. 

Í dag er þetta ör og óþægindi, ef einhverra hluta vegna krakkarnir mínir reka sig í "dósina" eins og við köllum gangráðinn það eina sem minnir á að mitt hjarta er ekki alveg í lagi. 

Þetta er mitt hjartans mál, til hamingju með daginn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband