Viku uppgjör!

Já það hefur verið nóg að gera sl. viku. Hápunktarnir tengjast listum og náttúru.

Á föstudaginn fyrir viku var ég viðstödd opnun á sýningu á verkum Svavars Guðnasonar,  Rökræður hugans í Nýheimum hér á Höfn. Við það tækifæri var formleg afhending á gjöf  úr dánarbúi Ástu Eiríksdóttur ekkju Svavars. Gjöfin samanstendur af fjölda verka hans olíumálverk, vatnslitamyndir, teikningar og ýmislegt fleira. Það sem mér þykir líka setja mjög persónulegan og skemmtilegan svip á sýninguna eru húsgögn úr búi þeirra hjóna, vinnuborðið hans og persónulegir munir svo sem litakassi, hattur o.fl. Sýningin er opin í Menningarmiðstöinni, Nýheimum út ágúst mánuð. 

Humarhátið hófst eiginlega sl. miðvikudag en hápunkturinn var um helgina í mikilli vætu svo vægt sé til orða tekið. Á föstudagskvöldið fórum við hjónin á rölt og skoðuðum listsýningar og hlustuðum á tónlist á hátíðarsvæðinu. Á laugardag fór ég á frábæra tónleika með Ellu mágkonu í Hafnarkirkju. Vox Fox sungu dásamlega, þetta voru ljúfir og bara alveg frábærir tónleikar. 

Stórfjölskyldan borðaði saman kræsingar að vanda og humarinn auðvitað í veigamiklu hlutverki.

Á þriðjudag fórum við hjónin og Jana Mekkín með Árna og Borghildi vinafólki okkar sem kom í síðbúna humarhátíðar heimsókn á mánudag í Kollumúla. Þangað hafði ég aldrei áður komið. Hressandi ganga í fallegu og stórbrotnu landslagi. Fengum ljómandi gott veður, rigningin og súldin náði ekki til okkar þarna í Lónsöræfunum. 

Nú er stytt upp í bili. Vonandi fer þessari rigningartíð að slota. Ég er alveg að komast í sumarfrí. Tek vaktir um helgina og svo bæjarráðsfundur á mánudag. Þá tekur við sumarfrí með fjölskyldunni :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband