11 mánuðir!

Já sæll, ellefu mánuðir frá því síðasta færsla var sett inn á þessa síðu!

Þá var verið að kjósa til Alþingis og eftir mánuð endurtökum við leikinn. Ekki hefði mér dottið það í hug á þeim tíma. En nú þarf ég að taka afstöðu til þess hvort ég eigi að gefa kost á mér á nýja leik til sætis á lista Framsóknar í suðurkjördæmi.

Niðurstaða mín og minnar fjölskyldu er sú að ég er tilbúin til þess. Á þessu tæpa ári sem liðið er frá síðustu kosningum hafa aðstæður ekki breyst í þeim málefnum sem mér eru hugleikin og því ekki minni ástæða fyrir mig nú en þá að taka slaginn. 

Ég þakka þeim sem hafa hvatt mig til að feta þennan veg á ný.

 


Ásgerði á Alþingi

Gestabloggari, Hjalti Þór Vignisson

Það stefnir í sögulegar kosningar. Við sjáum af skoðanakönnunum að viðhorf íbúa á höfuðborgarsvæðinu er með talsvert ólíkum hætti og íbúa á landsbyggðinni, hvað marga málaflokka snertir. Það er því mikilvægt sem aldrei fyrr að rödd landsbyggðarinnar heyrist og þingmenn skynji og skilji ólíkar aðstæður íbúa smærri og dreifðari byggða.

Uppbygging og áskoranir

Það er mikil uppbygging í ferðaþjónustu þessi misserin. Sífellt fleiri fjölskyldur hafa lifibrauð sitt af greininni. Af öllum hagstærðum að dæma og auknu umfangi er engum blöðum um það að fletta að Íslendingar hafa byggt upp nýja undirstöðuatvinnugrein í landinu. Það eru fjölmargar áskoranir sem við stöndum frammi fyrir til að viðhalda viðgangi greinarinnar og það þekkja íbúar suðausturlands betur en flestir aðrir. Það er því mikilvægt fyrir okkur að eiga sterka rödd á Alþingi Íslendinga um hvernig línur verði lagðar um umgjörð ferðaþjónustunnar, uppbyggingu innviða, eflingu þjóðgarða og friðaðra svæða og ekki síst bættar og öruggari samgöngur bæði fyrir íbúa og ferðafólk. Ásgerður þekkir þessa þætti mjög vel eftir störf sín á vettvangi sveitarstjórnar og verður mikilvægur talsmaður þess að byggja áfram upp öfluga og heilbrigða atvinnugrein.

Að horfa á hið smáa í hinu stóra

Það er deilt um umgjörð landbúnaðar og sjávarútvegs. Hvað báðar þessar atvinnugreinar snertir er atvinnuöryggi og afkoma þeirra sem starfa við greinarnar mikilvæg. Það er grundvallaratriði að meta áhrif af ákvörðunum út frá einstökum byggðarlögum og landsvæðum áður en þær eru teknar. Við þurfum að geta treyst því að fulltrúi okkar á Alþingi hafi áhuga og vilja til að meta málin bæði út frá hinu stóra samhengi þjóðarinnar í heild en einnig að greina áhrif á smærri byggðarlög og svæði.

Nýtt hjúkrunarheimili á Höfn

Lengi hefur verið barist fyrir byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Höfn, án árangurs. Þörfin er óumdeild og brýn. Á HSSA er unnið frábært starf við þröngan kost. Fólk býr saman í litlum herbergjum, sameiginleg aðstaða þyrfti að vera mun umfangsmeiri og með nýju húsnæði mætti efla og styrkja ýmsa þjónustu fyrir íbúa hjúkrunarheimilisins. Ásgerður er á heimavelli í heilbrigðismálum. Hefur lengi starfað á þeim vettvangi sem hjúkrunarstjóri á HSSA en einnig haft aðkomu að þeim málum sem sveitarstjórnarmaður. Hún yrði mikilvægur liðsmaður á Alþingi í að tryggja fjárveitingar til uppbyggingar nýs hjúkrunarheimilis.

Nýtum tækifærið

Það er langt síðan að íbúi í Sveitarfélaginu Hornafirði hefur átt raunverulegan möguleika á að taka sæti á Alþingi. Það þarf kjark og úthald til að takast á við slíkt verkefni. Báðum þessum kostum býr Ásgerður yfir. Hún yrði góður fulltrúi okkar á Alþingi. Við ættum að nýta tækifærið og kjósa harðduglega, greinda og heiðarlega konu á Alþingi Íslendinga.

Gestabloggari, Hjalti Þór Vignisson, Mánabraut 6.


Hvað get ég gert fyrir þig, kæri kjósandi?

Sat mjög svo skemmtilegan framboðsfund í morgun í FAS þ.e. Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu. Þar vorum við mætt frá sjö framboðum sem bjóða fram til alþingiskosninga í Suðurkjördæmi. Ekki var fólk frá öllum listum sem tengist örugglega að einhverju leyti að ekki var flogið til okkar frá Reykjavík í morgun.

Fulltrúar framboðanna fengu 2 mínútur í framsögu og síðan var svarað spurningum úr sal. Það kom ekki á óvart að fundarmönnum liggur það sama á hjarta og okkur hinum sem eldri eru. Vangaveltur um grunnþjónustu ríkis og sveitarfélaga. Hvaða þjónusta á að vera úti um landið og hvað getum við gert til að halda í unga fólkið bæði hér á Íslandi og svo ekki síst hér á Hornafirði.

Spurningunni var líka varpað til baka til þeirra. Hvað vilt þú? Hvað get ég gert fyrir þig?

Við erum öll sammála um að til þess að við getum öll sem eitt byggt upp gott samfélag á Íslandi í heild og á hverjum og einum stað þá þurfum við að tala saman. Tjá okkur um það sem við viljum og finna leiðir til að gera þá ósk að veruleika. Kannski þróast óskin og þroskast í samtalinu, það er bara gott.

En klárlega þá eigum við samleið í að byggja upp gott og gefandi samfélag.

Takk fyrir mig Nemendafélag FAS og allir fundargestir :)


Það er engin heilsa án geðheilsu!

Í gær 10. október var alþjóðageðheilbrigðisdagurinn sem hefur það að markmiði að vekja athygli á geðheilbrigðismálum og ekki veitir af. 

Fyrir tuttugu og tvemur árum útskrifaðist ég sem hjúkrunarfræðingur og var svo lánsöm að hefja minn hjúkrunarferil á geðdeild, nánar til tekið á deild 13 á Kleppi. Já, svo lánsöm því að ég tel það hafa verið forréttindi fyrir mig að vinna í því fallega umhverfi sem er við Kleppspítalann (þó það sé nú farið að þrengja ansi mikið að honum núna) og kynnast því fólki sem varð á vegi mínum þar.

Kynnast einstaklingum á þeirra myrkustu stundum í lífinu og fá að styðja það á þessum stað til betri heilsu eru forréttindi. Þessi leið tók marga langann tíma og ekki gekk alltaf vel en það er önnur saga sem einnig skilur eftir sig lærdóm og reynslu.

Á þessum árum höfum við lært svo margt um geðheilbrigðismál og margt hefur breyst. Sem betur fer er umræðan opnari, margir þekktir einstaklingar hafa lagt sitt lóð á vorgarskálarnar til að opna umræðuna og hafa með því náð að auka skilning almennings og dregið úr fordómum.

Ný samþykkt Lýðheilsustefna er stórt framfaraskref í átt til þekkingar og árangurs en nú ríður á að við látum verkin tala. 

Ég mun berjast fyrir því að aðgengi fólks og þá sérstaklega ungs fólks að geðheilbrigðisþjónustu verði aukið. Skortur er á geðlæknum á Íslandi í dag og við því verðum við að bregðast. Mikill aðstöðumunur er hjá íbúum landsins með aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og það þarf að laga.

Þjónusta sálfræðinga á að vera inní sjúkratryggingakerfinu. Við þurfum á öllu okkar færa fólki að halda til að bæta þessa þjónustu. Það er ekki í lagi að fólk hafi ekki efni á sálfræðiþjónustu fyrir börnin sín og að aðgengi landsbyggðarinnar að þeirri þjónustu sé eins takmarkað og það er í dag.

Vinnum saman að því að efla lýðheilsu landsmanna og bætum aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu!


Samgöngumál!

Framundan eru stór verkefni í samgöngumálum. Bæta þarf stofnvegi eins og þjóðveg 1 að stórum hluta, endurnýja brýr og gera göng. Þá eru ótalin öll verkefnin við héraðsvegi og í þéttbýli. Samgönguáætlun liggur nú fyrir alþingi og býður afgreiðslu. Í fyrirliggjandi áætlun hefur verið bætt við töluverðu fé en betur má ef duga skal!

Nauðsynlegt er að taka duglega á umferðaröryggismálum því eins og við höfum öll orðið vör við er mikil umferðaauking með staumi ferðamanna til landsins og á íslensk náttúra og fegurð til að trufla gesti okkar við akstur.

Þá er nauðsynlegt að bæta við áningastöðum þar sem vegfarendur geta stoppað, tekið myndir og notið náttúrunnar án þess að stofna öðrum vegfarendum í hættu.

Bent hefur verið á að vegmerkingar á Íslandi eru í algjöru skötulíki. Þá á ég ekki bara við að það vanti miðlínu á veg eða fram með veginum sjálfum heldur merkingar um næsta áfangastað, hve langt er í hann og hvaða þjónusta er þar í boði. Mörg könnumst við við merkingar í vegakerfinu erlendis þar sem vegfarandinn er minntur á með reglulegu millibili og það oft mjög þétt hvar næsta afrein, staður eða þjónusta er staðsett.

Eflaust geta verið umhverfislýti af slíkum merkingum en í ljósi umferðarþunga og þeirrar hættu sem sem er á þjóðveginum á hverjum einsta degi þá verðum við að bæta úr þessu!

Einnig vil ég benda á að á meðan unnið er að úrbótum á vegakerfinu þá dregur öflug og sýnileg löggæsla; umferðareftirlit úr slysahættu. Það vitum við öll en einhverra hluta vegna hefur sú staðreynd átt erfitt uppdráttar í fjárveitingum frá ríkinu og því verður að breyta!


Heilbrigðismálin...

... eru í brennidepli í dag. Þar er verið að bæta fjármagni í en góð áminning í umræðunni að enn hafa framlög ekki náð því sem var fyrir hrun!

Flestir eru sammála um að það skortir heildarstefnu í heilbrigðismálum. Hvað nákvæmlega er grunnþjónusta? Það er jafnvel mismunandi eftir því hvar þú ert staddur á landinu og hverjir fást til starfa!

Eitt er allavega ljóst. Til þess að geta veitt heilbrigðisþjónustu þá þarf fagfólk. Heilbrigðisstéttir standa frammi fyrir því að endurnýjun stendur ekki undir faginu. Of fáir útskrifast til að taka við af þeim sem eru að ljúka sínum starfsaldri. Þeir sem útskrifast skila sér ekkert endilega til starfa á heilbrigðisstofnanirnar. Starfsvettvangur hjúkrunarfræðinga sem dæmi er mjög fjölbreyttur og eru þeir eftirsóttir í hin ýmsu störf.

Hér stendur landsbyggðin ekki vel að vígi. Erfitt getur reynst að ná fagfólki út á land til starfa og búsetu. Það er orðið algengt að læknar sinni heilsugæslu úti á landi "að heiman". Með því að vera 5 til 7 daga í héraði á nokkura vikna fresti með öðrum störfum á höfuðborgarsvæðinu eða jafnvel erlendis frá. 

Það er gott að einhverjir gefi sig út í að sinna þessum störfum en mikið svakalega væri nú betra ef hægt væri að fá fagfólk til að setjast að úti á landi. Auðga þar mannlífið og að ég tali nú ekki um að greiða útsvarið sitt til samfélagsins :)

Kannski það gæti breyst ef afsláttur fengist af námslánum ef búseta er úti á landi í ákveðinn tíma eftir útskrift úr námi!!


Kærar þakkir!

Jæja, þá hefur eitt mikilvægt skref verið tekið og næst á dagskrá er að fylgja því skrefi eftir af fullum þunga.

Listi Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi er kominn fram. Flottur listi af frambærilegu fólki á öllum aldri og góð dreifing um kjördæmið sem að mínu viti er mjög mikilvægt.

Ég vil þakka fyrir stuðninginn sem ég fékk á Kjördæmisþinginu á Selfossi, það var alveg hreint frábært og allar Facebook kveðjurnar - TAKK fyrir! Hlakka til að færast í næsta fasa með félögum mínum á listanum og félögum um allt land - kosningarbaráttuna!!

Áður en að því kemur ætla ég að skella mér á Endurlífgunar ráðstefnu á Hótel Nordica í fyrramálið. Því það er leikur að læra og gott að vita meira í dag en í gær :)

 


Njótið dagsins :)

Þá er kominn 24. september og í dag verður raðað í efstu fimm sætin á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi á tvöföldu Kjördæmisþingi á Selfossi.

Spennandi dagur framundan! Næ ég þriðja sætinu eða ekki??

Kemur í ljós, njótið dagsins - það ætla ég allavega að gera!


Verkefnin framundan!

Síðustu daga hef ég setið Ársfund Jöfnunarsjóða sveitarfélaga og Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í Reykjavík. Þar hefur verið undirstrikað að vel gengur hjá okkur íslendingum á mörgum sviðum en einnig að mörg brýn verkefni eru framundan.

Þar má telja uppbyggingu ferðamannastaða og verndun náttúrunnar t.d. á fjölförnum ferðamannastöðum. Samgöngumál sem víða þarf að gefa vel í til að tryggja öryggi vegfarenda og mæta þeirri miklu aukningu sem hefur orðið í umferðarþunga. 

Miklar breytingar eru í farvegi varðandi húsnæðismál með samþykki nýrra laga í þeim málaflokki. Það verður spennandi að fylgja þeim málum eftir. Þó eru miklar og margar áskoranir framundan t.d. varðandi húsnæðismál fatlaðra.

Helgin verður annasöm og spennandi. Tvöfalt kjördæmisþing á Selfossi á morgun þar sem raðað verður í efstu fimm sæti Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Þar sækist ég eftir þriðja sæti á listanum og verður spennandi að sjá hvernig það fer!

Svo munum við hjónin einnig sitja ráðstefnu um Endurlífgun sem haldin er í Reykjavík þessa helgi.

Þannig að það er nóg að gera og margt spennandi framundan :)

 


Hver er þessi kona?

Ég er 47 ára gömul og starfa sem hjúkrunarstjóri á HSU Hornafirði, bæjarfulltrúi hjá Sveitarfélaginu Hornafirði, leiðbeinandi í skyndihjálp og yogakennari.

Gift Friðriki Jónasi Friðrikssyni rafvirkjameistara, á þrjú börn á aldrinum 10 til 27 ára og einn 3ja ára ömmustrák.

Ég hef setið í bæjarstjórn frá árinu 2010. Var bæjarstjóri frá nóvember 2013 fram yfir kosningar 2014. Þess fyrir utan hef ég gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð, setið í bæjarráði, var formaður skóla-, íþrótta- og tómstundanefndar er í skipulagsnefnd og almannavarnanefnd. Forseti bæjarstjórnar 2010 - 2013 og formaður bæjarráðs 2013.

Önnur trúnaðarstörf sem ég gegni; sit í ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, er fulltrúi Íslands í stjórn Vestnorræna lánasjóðsins og varamaður í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, ásamt því að sitja í miðstjórn Framsóknarflokksins og í stjórn sveitarstjórnarráðs flokksins. Var varamaður í SASS 2010-2014. Auk þessa hef ég starfað mikið með Hornafjarðardeild RKÍ m.a. í stjórn deildarinnar og formaður þar um nokkurra ára skeið er einnig félagi í Slysavarnardeildinni Framtíðinni.

Í störfum mínum við heilbrigðisþjónustu, sjálfboðaliðastörfum og sem sveitarstjórnarmaður hef ég öðlast mikla og góða reynslu sem ég tel að komi að góðum notum á Alþingi. Ég hef notið þess að vinna með fjölbreyttum hópi fólks að góðum verkum.

Ég hef mikinn áhuga á að taka þátt í að efla landið okkar enn frekar og halda áfram uppbyggingu grunnstoða samfélagsins á næsta kjörtímabili. Þar eru t.d. velferðarmál, heilbrigðisþjónusta, samgöngur og byggðamál mér ofarlega í huga.

  • Huga að kjörum og búsetumálum ungs fólks, aldraðra og öryrkja.
  • Efla heilbrigðisþjónustu út um landið og huga sérstaklega að þeim sem þurfa að sækja sér þjónustu um langann veg.
  • Tryggja að allir íbúar landsins búi við aðgengi að heilbrigðisþjónustu þ.m.t. neyðarflutningum á Landspítalann allan ársins hring með því að opna neyðarbrautina á Reykjavíkurflugvelli.
  • Fjölga þarf hjúkrunarrýmum út um allt land og tryggja að íbúar þeirra geti búið í einbýlum.
  • Samgöngur - tryggja öryggi vegfarenda. Með aukningu ferðamanna þá hefur alvarlegum slysum fjölgað. Gera þarf átak í að útrýma einbreiðum brúm á þjóðvegum landsins og efla merkingar meðfarm þjóðveginum.
  • Uppbygging ferðpamannastaða hefur gengið alltof hægt. Fjölga þarf áfangastöðum og bæta þá sem fyrir eru.
  • Lokið verði við uppbyggingu á þriggja fasa rafmagni til dreifðari byggða. Með því verði atvinnuöryggi og byggðarþróun styrkt.

Hér hef ég stiklað á stóru og talið upp nokkur af mínum hjartans málum. Ég hlakka til að eiga samtal og samvinnu við ykkur um framtíðina og hvernig við viljum sjá Ísland fyrir komnadi kynslóðir.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband